Gervigreind mun hafa umtalsverð áhrif á komandi árum á sölu-, þjónustu- og notendaupplifun bílaeigenda. Við munum sjá aukið vægi nýrrar tækni sem mun jafnframt leiða til lækkunar á kostnaði við rekstur fyrirtækja í greininni, en um leið meiri gæða á þjónustu og bílum, lægri viðhaldskostnaðar og ekki síst öruggari umferð.

Á Viðskiptaþingi í febrúar fjallaði Garðar Björnsson Rova, meðeigandi hjá McKinsey, um gervigreind og möguleg áhrif hennar á efnahagslífið og vinnumarkaðinn á Íslandi. Garðar sagði að áhrif gervigreindar yrðu svipuð og þegar Internetið kom til sögunnar. Fyrirtæki ættu mikla möguleika í að auka framleiðni með hagnýtingu gervigreindar en um leið myndi innleiðing gervigreindar hafa í för með sér ýmsar breytingar á vinnumarkaði. Gervigreindin mun þannig sjálfvirknivæða stóran hluta þeirra starfa sem nú eru til staðar og önnur störf koma í staðin. Áhrifin er misjöfn eftir atvinnugreinum og verkefnum og sumum störfum verður eflaust ekki breytt.

Fyrir fyrirtæki í sölu og þjónustu á bílum eru því fyrirliggjandi mörg tækifæri. Persónumiðuð þjónustuupplifun sem miðar við fyrri kauphegðun viðskiptavinar og óskir um sérbúnað er eitthvað sem margir gætu eflaust hugsað sér. Að rétti bíllinn, í réttum lit sé boðin á réttum tíma. Birgðastýring sem greinir sjálfkrafa út frá gefnum forsendum rétt magn af vörum á lager, hvort sem um er að ræða varahluti eða bíla, mun lækka fjármagnskostnað fyrirtækja. Sjálfvirk verðlagning á varahlutum og þjónustu sem finnur hið rétta verð mun auðvelda líf vörustjórans og markaðsstjórinn mun hafa mikil not af sjálfvirkri greiningu á því hvaða miðlar eru líklegastir til að ná til rétta kaupandans á réttum tíma og á sem lægsta snertiverði. Loks er líklegt að viðskiptavinurinn sem fær boð um þjónustu á hárréttum tíma fyrir bílinn sinn, byggt á sinni eigin persónulegri notkun, verði ánægður með sjálfvirku bókunina inn á þjónustuverkstæði sitt.

Það eru spennandi tímar fram undan í þróun fyrirtækja sem geta með því að fjárfesta í góðum verkfærum gervigreindar, bæði veitt betri þjónustu og um leið lækkað verð til viðskiptavina sinna og hvort tveggja ætti svo að leiða til betri rekstrarafkomu.

Gervigreind í bílum mun auka öryggi allra

Á síðustu árum hefur tækniþróun í sjálfkeyrandi bílum verið gríðarleg og óhætt að segja að sjálfkeyrandi bílar séu næsta stóra stökkið í samgöngum. Framfarir í gervigreind, vélrænni námstækni bílsins sjálfs og sjónrænni skynjun hafa gert það mögulegt að ímynda sér framtíð þar sem bílar keyra sig sjálfir án inngrips mannsins. Þessi þróun mun leiða til grundvallarbreytinga í hefðbundnum samgöngum og framtíðar uppbyggingu borga og sveitarfélaga. Samfélagsleg og efnahagsleg áhrif verða því mikil og að öllum líkindum jákvæð.

Útlit er fyrir að sjálfkeyrandi ökutæki muni auka almennt öryggi í umferðinni. Stóran hluta umferðarslysa má rekja til mannlegra mistaka og prófanir benda til að blanda af nákvæmum skynjurum og viðbragðsflýtir gervigreindar geti fækkað þeim til muna. Sjálfkeyrandi bílar bregðist þannig við hættum hratt og örugglega, haldi réttum hraða og bili milli bíla í ólíkum aðstæðum og fylgi umferðarreglum án þreytu eða athyglisskorts. Grunnin að slíkum búnaði þekkja margir íslenskir ökumenn nú þegar, þegar kaffibollinn birtist í mælaborðinu á Mercedes-Benz bílum eftir að hafa skynjað þreyttan ökumann til dæmis eftir langan akstur úr höfuðborginni út á land svo dæmi sé tekið.

Hlutverk stjórnvalda og vegagerðar í þróun sjálfkeyrandi bíla er lykilatriði.

Þessi tækni mun einnig leiða til stórbættrar hagkvæmni í samgöngum. Sjálfkeyrandi bílar munu auka afkastagetu gatnakerfisins, minnka umferðarteppur og greiða samgöngur. Þeir geta einnig bætt nýtingu á bílastæðum með því að tala við hvorn annan og senda upplýsingar sín á milli um laus bílastæði og jafnvel dregið úr þörf fyrir einkabíla, þar sem hægt verður að deila sameiginlegum bílum sem koma og fara eftir þörfum.

Hlutverk stjórnvalda og vegagerðar í þróun sjálfkeyrandi bíla er lykilatriði. Til að tryggja örugga og skilvirka innleiðingu þessara tækniþátta þurfa stjórnvöld að setja skýrar reglugerðir og lög. Þetta felur í sér allt frá öryggiskröfum og ábyrgð í tilfelli slysa til persónuverndar og gagnaöryggis. Einnig þarf að huga að breytingum á umferðarlögum og reglum um ökutækjaskráningu. Að þessum þáttum þurfum við Íslendingar að fara að huga að – fyrr en seinna. Tæknin er tilbúin og er reyndar nú þegar komin í margar gerðir nýrra bíla.

Að auki er mikilvægt að stjórnvöld leggi áherslu á uppbyggingu og viðhald innviða, eins og vegakerfis og merkinga. Sjálfkeyrandi bílar treysta meðal annars á nákvæmar vegmerkingar og upplýsingar um vegakerfið til að ákvarða staðsetningu sína til þess að aka á öruggan hátt.

Stjórnvöld og borgaryfirvöld þurfa að taka tillit til breyttra ferðavenja og breytinga á eftirspurn í samgöngum. Sjálfkeyrandi bílar gætu dregið úr þörf fyrir einkabílaeign, sem myndi hafa víðtæk áhrif á allt frá borgarskipulagi til umhverfismála. Þetta krefst þess að stjórnvöld séu framsýn og móti stefnur sem hvetja til sjálfbærni og skilvirkni í samgöngum.

Í heildina litið gætu sjálfkeyrandi bílar átt eftir að umbylta hefðbundnum samgöngum með því að gera þær öruggari, hagkvæmari og umhverfisvænni. En til að af því verði þarf samfélagið, atvinnulífið og stjórnvöld að vinna saman að því að innleiða þessa tækni á ábyrgan og skilvirkan hátt.

ADAS kerfið er þegar orðin skylda í Evrópu

Nú þegar eru ýmis kerfi sem flokka má undir ADAS orðin skylda í Evrópu en frá 2022 var það gert að skyldu í Evrópusambandinu að allir bílar yrðu að hafa ákveðin búnað sem fellur undir ADAS frá og með framleiðslumánuði í júlí 2022.

Nú þegar hefur næsta stig sjálfkeyrandi bíla, svokallaða þriðja stig, verið heimilað í Þýskalandi þegar Mercedes-Benz, fyrstur allra framleiðanda fékk slíkt leyfi og stuttu síðar fylgdi Nevada í Bandaríkjunum. Tæknin leyfir algerlega handfrjálsan akstur í ótakmarkaðan tíma upp að 60 km/klst en þá þarf ökumaður að taka við. Það er í okkar höndum hversu fljótt framleiðendur munu geta boðið upp á slíkan búnað líkt og fram hefur komið.

Þessi kerfi sem byggja á gervigreind fela til dæmis í sér hæfni til að lesa á umferðarskilti, skynja gangandi vegfarendur og veglínur í rauntíma.

ADAS (e. Advanced Driving Assistance Systems) mætti þýða sem „háþróuð aðstoðar ökumanns kerfi“ fyrir bíla. Þessi kerfi sem byggja á gervigreind fela til dæmis í sér hæfni til að lesa á umferðarskilti, skynja gangandi vegfarendur og veglínur í rauntíma. Kerfið getur til dæmis gefið forspá um að á ákveðnum stöðum sé veikleiki í umferðarkerfinu ef margir bílar á sama stað gera sömu villu sem gæti leitt til óhapps. Slík söfnun þýðir þó að til staðar verður að vera sjálfvirk móttaka upplýsinga til dæmis hjá veghaldara sem getur þá hafist handa við endurbætur á viðkomandi veg eða þeim hluta vegarins sem felur í sér galla. Hér er því verkefni sem Vegagerðin þarf og er eflaust byrjuð að undirbúa.

Byggt á gögnum frá Boston Consulting er talið að um það bil 54% allra bíla á götum Evrópu verði með búnað sem tilheyrir ADAS árið 2030. Þetta mun að sjálfsögðu endurspeglast hér á landi í svipuðu hlutfalli.

Það er því ljóst að gervigreind mun hafa umtalsverð áhrif á líf okkar á jákvæðan hátt. Betri þjónusta, lægri kostnaður, færri slys, öruggari vegir er aðeins hluti af þeim áhrifum sem við munum sjá. Samhliða þessu þurfum við á Íslandi að tryggja að tæknimenntun bifvélavirkja og kennara í bílgreininni þróist jafnhratt svo við verðum samferða bílunum.

Jón Trausti Ólafsson er forstjóri Bílaumboðsins Öskju.

Greinin birtist í sérblaði sem gefið var út vegna afmælisráðstefnu SVÞ. Áskrifendur geta lesið blaðið hér.