Mjög virðist vera á reiki hversu margir búa á Íslandi. Þjóðskrá segir að fjöldi landsmanna sé kominn yfir 400 þúsund á meðan fjármálaráðuneytið benti á að íbúar landsins væru umtalsvert færri.

Það er ekki gott að þessi tala sé reiki. Þetta hefur áhrif á alls kyns hagmælingar svo dæmi séu tekin. Þó ekki eins mikil áhrif og hrafnarnir héldu í fyrstu. Þannig sendi Húsnæðis- og mannvirkjastofnun frá sér tilkynningu í vikunni þar sem það var áréttað að breytt íbúatalning hefði engin áhrif á mat stofnunarinnar á árlegri íbúðaþörf hér á landi.

Hrafnarnir skilja ekki til fulls hvernig það megi vera en vona að það hafi eitthvað með það að gera að huldufólkið ætli loksins að stíga fram í sviðsljósið og gera sig gildandi í íslensku hagkerfi.

En aftur að óvissunni um þann fjölda sem byggir ból hér á landi. Hrafnarnir vita hvernig er að besta að eyða þeirri óvissu. Það liggur beinast við að fá Björn Leví Gunnarsson, þingmann Pírata, til þess að bera upp fyrirspurn á Alþingi um hversu margir búa á Íslandi. Kæmi slík fyrirspurn í röklegu samhengi við fyrirspurn þingmannsins um hvert sé heiti höfuðborgar Íslands.

Ef það dugar ekki leggja hrafnarnir til að ráðist verði í manntal af gamla skólanum. Færi vel á því að gera slíkt manntal á næstu aðventu.

Huginn og Muninn er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.