Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar, átti stórleik í umræðum á þingi um frumvarp Óla Björns Kárasonar o.fl. sem lítur að félagafrelsi á vinnumarkaði. Hann lýsti því með stjörnur í augunum að stéttarfélagsaðild væri hvergi meiri meðal OECD ríkja en á Íslandi, þökk sé ákvæðum um greiðsluskyldu til stéttarfélaga og forgangsréttarákvæða kjarasamninga.

Í sömu ræðu hélt hann því svo fram að það væri enginn skyldaður til að vera í stéttarfélagi á Íslandi, vegna þess að enga slíka skyldu sé að finna í lögum. Það er mjög skrítin fullyrðing í ljósi þess að hann hafði nokkrum andardráttum fyrr þakkað hina framúrskarandi stéttarfélagsaðild, greiðsluskyldu og forgangsréttarákvæðum. Það eru einmitt þessi ákvæði og fleira til í vinnumarkaðsumhverfinu sem de facto skyldar stóran hluta launþega til stéttarfélagsaðildar, marga við aðeins eitt stéttarfélag.

Þegar Jóhann Páll var kominn út í horn með rökfærslu sína, hélt hann áfram að grafa. Hann sagðist aldrei hafa hitt manneskju sem kvelst undan því að neikvætt félagafrelsi sé ekki virt á vinnumarkaði. Hann ætti kannski að ræða við Flugfreyjufélag Íslands (FFÍ) og Drífu Snædal, fyrrv. forseta ASÍ, sem supu kveljur yfir því að Play skyldi semja við annað stéttarfélag en FFÍ, þar sem forgangsréttaratkvæði kjarasamnings Play útilokaði í reynd aðild flugþjóna að FFÍ. Rétt er að geta þess að FFÍ er með sömu ákvæði í samningi við Icelandair. Árásir ASÍ og FFÍ á Play vegna þess að flugfélagið kaus að semja við annað stéttarfélag, sýna hvað þetta er galið fyrirkomulag. Eðlilegast væri auðvitað að bæði stéttarfélög gætu starfað og flugþjónar sjálfir valið á milli. Það er það sem umþrætt frumvarp miðar að.

Til að bíta höfuðið af skömminni fór Jóhann Páll út í „whataboutisma“, þar sem hann sagðist hafa meiri áhyggjur af mismunun fatlaðra en launþega. Það segir nú allt sem segja þarf um þá brauðfætur sem andstaða vinstrisins við frumvarpið stendur á. Sjái fólk hag sínum borgið innan stéttarfélaga, verður fólk þar áfram. Hafi vinstrið áhyggjur af að fólk flýi stéttarfélög unnvörpum með valfrelsi, þarf verkalýðsforystan einfaldlega að líta sér nær og kannski fara að haga sér eins og fullorðið fólk. Allir græða!

Týr er einn af reglulegum skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út 20. október 2022.