Eftir rétt um 40 daga verða borgastjóraskipti í Reykjavík

Fyrsti fundur borgarstjórnar á nýju ári er boðaður 9. janúar næstkomandi og má gera ráð fyrir að þá taki Einar Þorsteinsson við borgarstjórakeðjunni af Degi B. Eggertssyni. Nema þeir félagarnir haldi fast við dagsetninguna 16. janúar sem tilkynnt var um sumarið 2022 og boða til sérstaks borgarstjórnarfundar um skiptin með tilheyrandi kostnaði. Lýkur þá tæplega tíu ára valdatíð Dags sem borgarstjóra. Hann segir að vísu að frá 2010 til 2014 hafi hann stjórnað borginni ásamt Jóni Gnarr og Besta flokknum en þá var Dagur formaður borgarráðs. Kunnuga rekur samt ekki minni til þess að borgarstjóri hafi sagst deila völdum með formanni borgarráðs síðan þá. Það má teljast líklegt að Dagur verði formaður borgarráðs í janúar, eins og allt bendir til og þá mun hann að nýju tala um hvernig hann stjórni borginni með sitjandi borgarstjóra.


Það verður að viðurkennast að við sem fylgjumst með borgarmálum erum ekki vongóð um miklar breytingar við borgarstjóraskiptin. Oddviti Pírata í borgarstjórn gerði í Vikulokunum í haust lítið úr meintum breytingum sem skiptin hafa í för með sér. Sagði meirihlutasáttmála í gildi, sem þau standa saman að og að hún búist ekki við neinum meiriháttar breytingum, aðallega ásýndarbreytingum. Enda ekki við neinu að búast, Framsóknarflokkurinn gekk inn í máttlausan meirihluta sem var hafnað af Reykvíkingum og hefur viðhaldið vinnubrögðunum og verkleysinu.

Viðvarandi útgjaldavandi

Fjárhagsleg staða borgarinnar blasir við öllum og þótt tekjur hafi farið fram úr áætlunum síðasta árs þá er enn viðvarandi útgjaldavandi hjá borginni. Engar vísbendingar eru um breytingar í þeim málum hjá framsóknarmeirihlutanum. Allir Reykvíkingar sem eiga börn á leikskólaaldri eða þekkja borgarbúa sem búa við þá blessun, vita hvernig það stendur ekki steinn yfir steini í þeim málaflokki. Slóð vanefndra loforða og viljayfirlýsinga liggur eftir þessa nýju útgáfu af meirihlutanum. Þar eins og í öðrum málum er höfðinu barið við steinninn.

Stærsti vandinn sem snýr að borgarbúum eru húsnæðismálin. Þar er viðvarandi vandi hvað allt tekur langan tíma og kerfið er ósveigjanlegt og ofuráhersla á þéttingu hefur komið í veg fyrir hagkvæma uppbyggingu. Þykkur og tilkomumikill bæklingur um uppbyggingu í borginni er sendur heim til borgarbúa í byrjun hvers vetrar við mikinn kostnað. Langir fundir með með mörgum glærusýningum eru haldnir. Vandinn er bara að fólk býr ekki í bæklingum eða glærusýningum. Svo þegar heilu blokkirnar koma á markað þá er reglum breytt og gististarfsemi fyrir ferðamenn er leyfð, þvert á fyrri ákvarðanir. Bygging húsnæðis í Reykjavík stendur ekki undir fjölgun fólks. Vegna húsnæðisstefnu Reykjavíkur síðustu tvo áratugi hefur hlutfallsleg fjölgun verið langmest í sveitarfélögum í kringum Reykjavík, frá Akranesi til Reykjanesbæjar og allt þar fyrir innan. Reykjavík voru tæp 40% af íbúum Íslands en eru nú um 36% og fer hlutfallslega fækkandi. Meirihlutinn í Reykjavík hefur þannig rekið byggðastefnuna um að draga úr vægi Reykjavíkur sem framsóknarmönnum allra flokka hefur mistekist í 100 ár.

Fylgishrun í kjölfar svikinna loforða í borginni

Það verða vissulega tímamót þegar fyrsti framsóknarmaðurinn í sögu Reykjavíkur tekur við embætti borgarstjóra. Hann mun gera það rúinn fylgi og trausti, því loforðin um breytingar í borginni hafa ekki verið efnd. Framsóknarflokkurinn í Reykjavík mælist með þriðjung af kjörfylgi sínu í síðustu kosningum eða 6%. Það myndi duga Einari einum til sætis í borgarstjórn. Fylgishrun Framsóknar í Reykjavík er hið sama þegar fylgi í alþingiskosningum er kannað og báðir þingmenn flokksins í Reykjavík, Lilja Alfreðsdóttir og Ásmundur Einar Daðason, ráðherrar, varaformaður og ritari Framsóknarflokksins mælast ekki inni á þingi í könnunum. Fylgishrun Framsóknarflokksins byrjaði einmitt sumarið 2022 þegar loforðið um breytingar í borginni var svikið.


Það er tækifæri fyrir Framsóknarflokkinn í Reykjavík til að hrista af sér slyðruorðið og standa fyrir breytingum í borginni. Sjálfstæðismenn myndu styðja allar góðar hugmyndir. Vandi Framsóknar er bara að enginn trúir því að þeir munu ná nokkru fram, sérstaklega ekki ef Dagur B. Eggertsson heldur áfram að stjórna borginni úr stól formanns borgarráðs.

Höfundur er borgarfulltrúi og varaþingmaður Sjálfstæðisflokksin.