Valur Páll Eiríksson, íþróttafréttamaður á Vísi, kvaddi sér hljóðs í fréttatíma Stöðvar 2 á föstudagskvöld. Þá sagði hann ýmis vafamál vera uppi í tengslum við knattspyrnuleik Íslendinga og Ísraela í þessari viku.

Eitt þessara vafamála að sögn Vals er hvort íslenska knattspyrnusambandið ætti
yfirhöfuð að senda lið til leiks. Valur sagði ákall hafa verið um slíkt. Er það svo? Hafa verið uppi háværar raddir sem kalla eftir því að íslenskir knattspyrnumenn láti ekki sjá sig á sama velli og gyðingar frá Ísrael?

Þegar litið er yfir fjölmiðlaumfjöllun undanfarinna vikna er ekki að sjá að slíkar raddir hafi verið háværar. Í raun og veru er bara að sjá eina grein sem vekur eftirtekt þar sem slíku er velt upp. Hún er skrifuð af áðurnefndum Vali Páli.
Greinin er stórfurðuleg svo ekki sé fastar að orði kveðið. Í upphafi hennar segir að engin umræða hafi farið fram um að senda ekki lið til keppni og síðan snýst restin af greininni um af hverju Knattspyrnusambandið ætti einmitt að gera það.

Í greininni segir:


Val milli hagsmuna og heilinda er ávallt erfitt þegar miklu er að tapa. En það þarf heldur ekki að vera svart og hvítt. Hægt er að fara milliveg og senda einhverskonar skilaboð við þátttökuna (eins og að senda Palestínumann í Eurovision).“


Þetta er kostulegt. Af hverju ætti það að skipta ísraelska landsliðsmenn í knattspyrnu máli hvort íslenskur leikmaður sé af palestínsku bergi brotinn ef út í það er farið? Svona skrif virðast sprottin upp úr hugarheimi þar sem miðjumenn ísraelska landsliðsins heita Fagin, Sælokkur, Kaífas og Svengali.

***

Greinin endurspeglar hugarfar sem felur í sér að hvert einasta mannanna verk sé birtingarform utanríkisstefnu þess ríkis sem um ræðir. Það er ekki svo. Mönnum er frjálst að kaupa ekki ísraelskar vörur eða vörur framleiddar í öðrum ríkjum og gera hvað sem er til að láta í ljós andstöðu sína við stjórnarfar erlendra ríkja.

Þannig hefur fjölmiðlarýnir sniðgengið austurrískan varning alfarið um árabil. En það hvarflar ekki að honum að hann eigi kröfu á aðra eða frjáls félagasamtök að þau geri slíkt hið sama. Íslenska ríkið er í eðlilegum stjórnmálatengslum við það ísraelska og því fráleitt að gera kröfu um að félagasamtök eða stofnanir samfélagsins fari að reka sína eigin utanríkisstefnu.

Slík dyggðaskreyting er dæmd til þess að mistakast og hefur ekki annan tilgang en þann að styrkja sjálfsmynd þess sem að henni stendur. Þeim sem leggja í slíkar vegferðir er hætt við að rata á hálan ís.

Þannig segir Valur Páll í greininni:


Oft er því hent fram að íþróttir séu ekki pólitískar og séu því undanskildar ábyrgð. Orð fyrrum formanns KSÍ, Vöndu Sigurgeirsdóttur, þegar ákvörðun sambandsins um að þiggja fé fyrir æfingaleik við Sádi-Arabíu, skömmu eftir að það ríki lét brytja niður alþjóðlegan blaðamann á erlendri grund, kjarna það viðhorf ágætlega.“

Af þessum orðum að dæma má ætla að þjóðaratkvæðisgreiðsla hafi farið fram um morðið á Jamal Khashoggi eða þá að sádi-arabíska knattspyrnusambandið hafi ályktað um málið. Vitaskuld var ekki um slíkt að ræða og morðið alfarið á ábyrgð á einræðisherra landsins og fráleitt að draga fleiri að málinu.
Í sjálfu sér má svo velta fyrir sér hvort þeim sem hugnast ekki að íslenska landsliðið etji kappi við það ísraelska geti unað við það að íslenska ríkið eigi yfirhöfuð í alþjóðasamstarfi sem fulltrúar ísraelska ríkisins taka einnig þátt?
***

Blaðamenn ættu að lesa fjármálastöðugleikaskýrslur Seðlabankans. Í þeim má oftar en ekki finna gagnlegar staðreyndir um efnahagsmál. Staðreyndir sem eru andstæðar mörgu því sem er haldið fram í dægurmálaumræðunni.

Þannig mátti fyrir nokkrum misserum lesa áhugaverða rammagrein í fjármálastöðugleika sem sýndi fram á að áhyggjur manna af svokallaðri snjóhengju sem er tilkomin vegna fasteignalána hvers vextir kæmu brátt til endurskoðunar væru orðum auknar, svo ekki sé fastar að orði kveðið.

Í nýjustu fjármálastöðugleikaskýrslu bankans er að finna áhugaverða rammagrein um heimildir íslenskra fyrirtækja til þess að gera upp í erlendum gjaldmiðlum. Ekki er hægt að verjast þeirri hugsun að tilefni greinarinnar sé ákaflega undarleg umfjöllun fréttaskýringaþáttarins Kveiks um málið fyrr í vetur.

Í þættinum var sú mynd dregin upp að hér á landi byggju tvær þjóðir sem deildu ekki sömu kjörum. Annars vegar eigendur fyrirtækja sem gera upp í evrum og hins vegar hinn þungbúni nafnlausi skari sem situr uppi með sínar krónur.
Í fjármálastöðugleikaskýrslunni segir:

„Þetta breytir því ekki að fyrirtækin horfa eftir sem áður til heildaráhættu í rekstri en efnahagsumhverfi fyrirtækjanna er óbreytt þó svo að skipt sé um uppgjörsgjaldmiðil. Fyrirtækin eru áfram partur af íslensku hagkerfi og þurfa að fylgja íslenskum lögum og reglum. Afkoma fyrirtækjanna er auk þess áfram háð því hvernig innlendur kostnaður eins og laun og opinber gjöld þróast. Verðbólga hér á landi hefur því bein og óbein áhrif á afkomu fyrirtækjanna þó svo að í sumum tilfellum hafi hún minni áhrif ef fyrirtæki fjármagnar sig erlendis.

Að heimila fyrirtækjum færslu bókhalds og samningu ársreikninga í erlendum gjaldmiðlum er fyrst og fremst til þess fallið að gefa gleggri mynd af rekstri og auka viðnámsþrótt fyrirtækja og þar með fjármálastöðugleika í landinu.“

Þetta kemur heim og saman við þá gagnrýni sem sett var fram á þessum vettvangi um áðurnefndan Kveiksþátt.

Þar sagði meðal annars að umræða um reikningsskil fyrirtækja fái blóð fæstra til að renna hraðar. En í meðförum Kveiks mætti halda að um meiri háttar samsæri væri að ræða gagnvart þjóðinni. Miðað við þann ham sem þáttargerðarmenn voru í er undrunarefni hvernig þeir gátu staðist þá freistingu að skreyta þáttinn með myndefni af köllum með pípuhatta og í sjakketi akandi um borg og bæi þessa lands með vasana troðfulla af evrum.

Enn fremur að framsetningin minnti á málflutning Viðreisnar en þingmenn og fylgihnettir flokksins hafa einnig talað á þá leið að fyrirtækin í landinu hafi tekið upp evru og skilið mörlandann eftir í torfkofunum eða eitthvað álíka. Eftir því var tekið að meðan á Kveiksþættinum stóð voru þingmenn Viðreisnar og starfsmenn flokksins farnir að hafa hátt á samfélagsmiðlum um þá miklu snilld sem fælist í efnistökunum.

Í Fjölmiðlarýninni segir svo:


“Slíkur málflutningur er fráleitur. Þegar tekjur og gjöld fyrirtækja eru að stórum hluta í erlendri mynt er fullkomlega eðlilegt að reikningsskilum sé þannig háttað.
Það kann að einfalda rekstur útflutningsfyrirtækja sem selja vörur sínar á alþjóðamörkuðum að gera upp í annarri mynt.
Það jafnar út sumar sveiflur og kann auðvitað að skapa önnur vandamál á móti í reikningshaldinu. En þetta breytir engu fyrir reksturinn. Starfsmenn félagsins ganga ekki um með bólgin veski yfirfull af evruseðlum þó svo að breytt sé um uppgjörsmynt. Hinn efnahagslegi veruleiki er eftir sem áður hinn sami. Rétt eins og Reykjanesbrautin er jafn löng hvort sem hún er mæld í metrum eða fetum. Ströndin í Nauthólsvík myndi ekki fyllast í janúar þótt hitastigið sýndi 32 gráður á Fahrenheit-kvarðanum.
Samanburðurinn við rekstur heimila er jafnframt undarlegur. Hefðbundin heimili skila ekki ársreikningum en ekki verður séð að eitthvað meini úthverfapöbbum og mömmum þessa lands að umreikna eignir, skuldir, útgjöld og laun í evrur á síðkvöldum ef þeim leiðist mikið. Það breytist ekkert við það.
Ekki frekar en það verður grundvallarbreyting á starfsumhverfi fyrirtækja ef breytt er um uppgjörsmynt. Eigi að síður var því haldið fram í þættinum. Það var beinlínis sagt að fyrirtækjum bjóðist mun betri kjör en ella ef það gerir upp í annarri mynt en krónu og allar hirslur heimsins ljúkast upp á gátt.
Þetta er ekki rétt. Íslenskum útflutningsfyrirtækjum sem hafa eðli málsins samkvæmt tekjur í erlendri mynt hefur um langa hríð staðið til boða að fjármagna sig með gjaldeyrislánum í íslenskum bönkum og þau allra stærstu hafa getað tekið lán í erlendum bönkum. Vaxtaálagið á þessi lán ræðst af sömu lögmálum hvort sem þau eru veitt hér á landi eða annars staðar: Þau ráðast af fjármögnunarkjörum viðkomandi banka og hafa erlendir bankar yfirburði yfir þá íslensku í flestum tilfellum sökum stærðar og hagstæðara skattaumhverfis og svo af áhættumati bankans á lánveitingunni. Uppgjörsmyntin skiptir engu í þessu samhengi
.”

Fjölmiðlarýni er einn af föstum dálkum Viðskiptablaðsins.