Samningaviðræður byggjast yfirleitt á þeim grundvelli að viðsemjendur séu skynsamir og leiti leiða til að hámarka eigin hag með tilliti þeirra aðstæðna sem eru uppi hverju sinni. Augljóslega renna slíkar samningaviðræður út í sandinn ef annar viðsemjenda eru með önnur markmið en að hámarka eigin hag eins og til að mynda grafa undan stöðugleika og sækjast beinlínis eftir átökum.

Það er rétt sem haft hefur verið eftir Halldóri Benjamín Þorbergssyni, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, um að það hafi aldrei staðið til hjá Eflingu að semja um eitt né neitt í þeim kjaraviðræðum sem nú hafa runnið í sandinn. Trúðslæti á borð við þau að láta hundrað manna samninganefnd ganga fylktu liði í svartstökkum úr höfuðstöðvum Eflingar til fundar í Karphúsinu bendir til að samningaviðræðurnar hafi verið skrípaleikur frá fyrsta degi af hálfu forystu verkalýðsfélagsins.

Erfitt er að meta stuðning í samfélaginu við verkfallsaðgerðir Eflingar. Fólk hefur tilhneigingu til þess að standa með minni máttar í baráttu við ofurefli og það er sá þráður sem spunameistarar Eflingar spinna í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum. Formaðurinn dælir frá sér fyrirsjáanlegum frösum og síbylju sem gætu allt eins hafa komið úr munni Karls Marx – þegar hann var fimm ára – sem enduróma um samfélagið. En er innstæða fyrir þessum spunaþræði?

Eins og fram kemur annars staðar í blaði dagsins þá er staða launþega á gisti- og veitingastöðum á Íslandi með ágætum í evrópsku samhengi. Gott betur en það. Laun á hverja vinnustund í þessum geira eru hvergi hærri í Evrópu en hér á landi talið í evrum. Samkvæmt gögnum Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins, fær starfsfólk í þessum geira að meðaltali 30 evrur á tímann á meðan það fær 22 evrur að jafnaði í öðrum velmegunarþjóðfélögum eins og Noregi í Lúxemborg.

Þar með ekki er sagt að ekki megi bæta kjörin. Það er einmitt það sem hefðbundnar kjaraviðræður ganga út á. Þær hafa verið leiddar til lykta við langstærstan hluta launþega á hinum almenna vinnumarkaði og að sama skapi er vinna að langtímasamningi á milli SA og Starfsgreinasambandsins nú þegar hafin. Opinberir starfsmenn hafa látið í veðri vaka að þeir séu reiðubúnir að semja við ríkið með sambærilegum hætti og gert var við SGS, VR og iðnaðarmenn.

Eftir stendur forysta Eflingar einangruð á berangri. Markmiðið eru átök. Verkfallsaðgerðirnar beinast í fyrstu að einu fyrirtæki. Líklega er engin tilviljun að Íslandshótel urðu fyrir valinu í þetta sinn. Forráðamenn fyrirtækisins höfðu gefið það út að stefnt væri að skráningu þess á markað í ár. Markmiðið hjá Eflingu er jú að valda sem mestum skaða. Að öllu óbreyttu er þetta bara byrjunin. Haft hefur verið eftir Sólveigu Önnu Jónsdóttir, formanni Eflingar, að í framhaldinu verði gripið til verkfallsaðgerða gegn fleiri fyrirtækjum.

Þessar verkfallsaðgerðir munu skaða félagsmenn Eflingar fjárhagslega. Nú þegar hefur þvermóðska forystu félagsins gert að verkum að félagsmenn njóta ekki þeirra kjarabóta sem samið var um við SGS og VR. Skipta þar afturvirkar hækkanir þar mestu um. Óhugsandi er að niðurstaða verkfalls verði á endanum samningur sem mun bæta félagsmönnum upp fyrirsjáanlegan fórnarkostnað vegna aðgerðanna.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem forysta Eflingar gengur fram með hætti sem flestu skynsömu fólki er óskiljanlegur. Hún boðaði til verkfalls árið 2020 þegar heimsfaraldurinn var að brjótast út. Daginn eftir að Eflingarfélagar samþykktu að fara í verkfall var tilkynnt um stærstu hópuppsögn Íslandssögunnar þegar Icelandair sagði upp um 2 þúsund starfsmönnum. Í kjölfarið var gripið til enn fleiri hópuppsagna, þar sem fyrirtæki sögðu upp tugum og hundruðum starfsmanna og met var slegið í greiðslu atvinnubóta.

Þessi framganga gefur ekki tilefni til bjartsýni á framhaldið nú. Markmið Eflingar eru ekki samningar í þágu félagsmanna heldur átök í þágu pólitískra markmiða forystunnar. Það er mikilvægt að almenningur geri sér grein fyrir þessu.