Óðinn fjallaði um fjármálaætlun ríkisstjórnarinnar um miðjan apríl. Þar benti hann á að hún væri ótrúverðug.

Fjármálaráð hefur síðan lagt fram athugasemdir sínar. Ráðið efast um að boðaðar aðhaldsaðgerðir dugi til að draga úr vexti útgjalda sem hafi aukist mikið á undanförnum árum. Að mati ráðsins eru þær leiðir sem séu nefndar í fjármáláætlun bæði ógagnsæjar og ótrúverðugar.

Fjármálaráð starfar samkvæmt 13. gr. laga um opinber fjármál. Ráðinu er ætlað að tryggja að fram fari hlutlægt mat á stefnumörkun í opinberum fjármálum.

Óðinn fjallaði einnig í pistlinum um óskiljanlegar yfirlýsingar upplýsingafulltrúa Landsvirkjunnar.

Fjármálaáætlun um hallarekstur og óskaplegt klúður Landsvirkjunar

Sigurður Ingi Jóhannsson kynnti fjármálaáætlun 2025-2029 í gærmorgun. Þar var sumt ágætt og annað síðra.

Það er jákvætt að ríkisstjórnin boði 25 milljarða aðhald (og aðrar breytingar) á árinu 2024. Þær aðhaldsaðgerðir eru reyndar algjörlega óútfærðar. Það dregur úr trú manna á þessum aðhaldsaðgerðum. Enn ekki síður að árið 2025 verður líklega kosningaár.

Syndir þess árs kæmu ekki fram fyrr en að loknum kosningum. Því er trúverðugleikinn ekki mikill, því miður, og ólíklegt að verðbólguvæntingar lækki mikið vegna þessa plaggs. Þrátt fyrir það er þó rétt að þakka fjármálaráðuneytinu fyrir að hafa sett þessar óútfærðu aðhaldsaðgerðir á blað. Það er nefnilega ekki víst að það verði ekkert af þeim.

Ríkisstjórnin ætlar að reka ríkisjóð með halla til ársins 2028. Það er ekki ný frétt en í þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa sagt í samtölum að líklegt væri að það tækist fyrr að koma ríkissjóði í afgang. Sú von er orðin óskaplega fjarlæg.

***

1.050 orðnir 1.471 milljarðar

Í fyrsta kafla fjármálastefnunnar, undir kaflanum Aðhald í rekstri ríkisins stuðlar að lægri verðbólgu, segir þetta:

Í fyrsta lagi þarf áfram að gæta aðhalds í opinberum fjármálum. Það er gert með þeirri fjármálaáætlun sem hér lítur dagsins ljós. Halli ríkissjóðs helmingast þannig á næsta ári, úr 49 ma.kr. í 25 ma.kr., og snýst í afgang árið 2028.

Heimir Már Pétursson var fyrr á árum framkvæmdastjóri Alþýðubandalagsins. Fyrir alþingiskosningar 2003 var hann á framboðslista Samfylkingarinnar. Árið 2004 í framboði til varaformanns Samfylkingarinnar. Í dag er hann fréttamaður á Stöð 2 og mætti á fréttamannafund Sigurðar Inga um fjármálaáætlunina og spurði hvort hægt væri að kalla þetta metnaðarfullar aðgerðir?

Já, ég held að þær séu það. Við höfum sýnt það á liðnum árum að það aðhald sem við höfum haft hefur haft þær afleiðingar að styðja við peningastefnu Seðlabankans. Sem ber auðvitað ábyrgð á því að ná verðbólgunni niður. En við erum styðjandi. Það hefur skilað sér.

Ríkisstjórnarflokkarnir þrír tóku við völdum árið 2017. Samkvæmt fjárlögum þess árs máttu útgjöldin vera 743,4 milljarðar króna. Það eru 1.050 milljarðar króna að núvirði.

Samkvæmt nýju fjármálaáætluninni eru heildarútgjöldin í ár áætluð 1.417 milljarðar króna og 1.471 milljarðar króna árið 2025. Þegar dagar þessarar ríkisstjórnar eru taldir hefur hún aukið ríkisútgjöld um 40,1%. Það er þó háð tveimur skilyrðum. Að fjárlög 2025 verði í samræmi fjármálaáætlunina og að ríkisstjórnin lifi fram að samþykkt fjárlaga.

Fjármálaráðuneytið hlýtur, í þessum töluðu orðum, að vera að leiðrétta plaggið og fella út orðið áfram. Því ekkert er fjarri sanni.

***

Bestu fréttirnar

Það er auðvitað ánægjulegt að ríkisstjórnin skuli nú vera búin að átta sig á því að „Aðhald í rekstri ríkisins stuðlar að lægri verðbólgu“. Varla voru ríkisstjórnarflokkarnir búnir að átta sig á því fyrr. Þessi gríðarlega útgjaldaaukning og 615 milljarða hallarekstur frá árinu 2019 (og út árið 2024) hefur skapað þá verðbólgu sem við erum að kljást við í dag.

Ríkisstjórninni til varnar er hún ekki eini verðbólguvaldurinn. Hluti verðbólgunnar var innfluttur, m.a. vegna Úkraínustríðs, og hluti vegna mikilla hækkana á launum – sem reyndar sama ríkisstjórn leiddi. En meginábyrgðina bera ríkisstjórnarflokkarnir þrír, Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur og Vinstri grænir. Og ábyrgð þeirra er mikil.

***

Niðurstaðan um fjármálaáætlunina

Það sem er jákvæðast við þessa fjármálaáætlun er að það er svolítið annar tónn í henni. Það er talað um aðhald en ekki talin upp endalaus útgjöld. Það er talað um að jafna óvænt útgjöld í Grindavík með niðurskurði í stað þess að taka enn meiri lán.

Það er því að minnsta kosti búið að viðurkenna vandann. Útgjaldavandann. En er ástæða til að vera bjartsýnn á að ráðist verði á rót vandans. Varla.

***

Rándýr árshátíð og „sameinumst“

Það hafa verið óskaplega litlar deilur í samfélaginu um rekstur Landsvirkjunar um langt skeið. Að hluta til er það vegna þess að fyrirtækið hefur ekki mátt virkja vegna andstöðu Vinstri grænna. Hin ástæðan er sú að fyrirtækinu hefur verið ágætlega stýrt, afkoman batnað ár frá ári og skuldirnar minnkað.

Svo var ákveðið að fara í árshátíðarferð til Egilsstaða og fjölmiðlafulltrúi ríkisfyrirtækisins svarar eins og hann hefði það verkefni að eyðileggja orðspor félagsins.

Þóra Arnórsdóttir fjölmiðlafulltrúi Landsvirkjunar, fyrrum forsetaframbjóðandi og ritstjóri Kastljóss á Ríkisútvarpinu svaraði Ríkisútvarpinu í fyrradag eftirfarandi:

Þetta var rándýr árshátíð, tugir milljóna en fór ekki yfir 100 milljónir. Kostnaðaráætlunin gerði ráð fyrir kostnaði undir 100 milljónum. Við eigum eftir að taka þetta nákvæmlega saman enda er hún nýyfirstaðin.

Eina sem situr eftir hjá okkur öllum eftir lesturinn er að árshátíðin kostaði 100 milljónir króna og hafi verið rándýr.

Annað mun gleymast í umræðunni og hefur Óðinn líklega aldrei séð verra pr stönt á langri lífsleið, nema vera kynni Þórulagið „Sameinumst“ fyrir forsetaframboð hennar árið 2012. Þegar Ólafur Ragnar heyrði það á hann að hafa opnað kampavínsflösku. Bara til að heyra sigurhljóðið þegar tappinn flýgur upp úr flöskunni – en Ólafur drekkur vart vín.

***

Þessi árshátíðarferð Landsvirkjunar er auðvitað til marks aðhaldsleysið í rekstri ríkisins. Svör forsætisráðherra í þinginu í fyrradag og fjármálaráðherra á blaðamannafundinum í gær voru á þann veg að nú eru forstöðumenn ríkisstofnana í óða önn að skipuleggja árshátíðarferðir.

Það mætti stundum halda að þessir blessuðu ráðherrar hafi byrjað í stjórnmálum í gær.