Þótt ég sé algjörlega ósammála Ríkisútvarpinu um að „uppnám“ ríki í íslenskum stjórnmálum, er ljóst að verkefni ríkisstjórnarinnar eru ærin um þessar mundir.

Þótt ég sé algjörlega ósammála Ríkisútvarpinu um að „uppnám“ ríki í íslenskum stjórnmálum, er ljóst að verkefni ríkisstjórnarinnar eru ærin um þessar mundir.

Stjórnin hefur þegar skilað góðum árangri í fjölmörgum verkefnum og það þrátt fyrir áfallahrinu sem virðist engan endi ætla að taka. Má í þessu samhengi m.a. nefna lægri skatta og aukinn kaupmátt launafólks, langt umfram öll önnur ríki Vestur-Evrópu á samræmdan mælikvarða.

Það verður þó ekki annað sagt en að útgjöld ríkisins hafi aukist um of og ljóst er að sú þróun hefur stuðlað að hærri verðbólgu og vaxtaumhverfi. Hluti af því skýrist af ytri aðstæðum og áföllum sem ríkissjóður hefur þurft að takast á við. En sannarlega ekki allt, og stjórnvöld hafa ekki sýnt nægjanlegt aðhald og ráðdeild á móti óvæntum útgjöldum.

Gegndarlaus fjölgun opinberra starfsmanna

Ég hef reynt að veita stjórnvöldum aðhald í þessum málum með vinsamlegum ábendingum í formi fyrirspurna á Alþingi og greinaskrifum þar um. Þar hefur starfsmannahald ríkisins verið ofarlega á dagskrá. Fjölgun opinberra starfsmanna hefur enda verið gegndarlaus.

Sveitarfélögin hafa auðvitað verið mjög kappsamur atvinnurekandi, ekki síst Reykjavíkurborg. En ríkisstarfsmönnum hefur sömuleiðis fjölgað of mikið. Launakostnaður er stór útgjaldaliður hjá ríkinu og laun opinberra starfsmanna hafa hækkað hraðar en laun á almennum markaði. Stjórnvöld bera því gjarnan við að fjölgunin og hækkunin liggi í heilbrigðiskerfinu og löggæslu, en stjórnsýsla hafi þanist út „í takt við íbúa“. Þetta er mjög villandi framsetning. Meðal annars er litið algjörlega framhjá tækniþróun á borð við stafræna væðingu, sem hefur umbylt vinnu- og starfsumhverfi á almenna markaðnum.

Ótímamæld yfirvinna

Það liggur því beinast við að skoða launasamsetningu ríkisstarfsmanna. Á dögunum barst mér svar við fyrirspurn til fjármála- og efnahagsráðherra um yfirvinnu ríkisstarfsmanna. Fyrirspurnin sneri m.a. að hlutfalli yfirvinnu af heildarlaunum og meðalfjölda yfirvinnustunda þeirra starfsmanna sem hafa fengið greidda yfirvinnu.

Svar ráðherrans var um margt áhugavert. Samkvæmt svarinu er yfirvinna óvenju hátt hlutfall af heildarlaunum ríkisstarfsmanna á fjölmörgum vinnustöðum, m.a. í ráðuneytum og ríkisstofnunum þar sem unnin er hefðbundin skrifstofuvinna. Þá er áhugavert að sjá yfirlit yfir fastar yfirvinnugreiðslur ríkisstarfsmanna. Samningar ríkisstarfsmanna um greiðslu fyrir ótímamælda yfirvinnu, sem rúmast innan starfslýsingar þeirra, hlýtur hreinlega að kalla á breytingu á vinnusamningum og grunnlaunum. Að öðrum kosti skekkir þessi framsetning allan samanburð á launum milli opinbers og almenns vinnumarkaðar.

Aðhaldið er mikilvægt

Það vakti ekki síður athygli að í svari ráðherrans voru litlar stofnanir og stofnanir þar sem hlutfall yfirvinnu var undir 1% af heildarlaunum undanskildar. Ég tel það einmitt gagnlegt að sjá hvaða stofnanir hafa slíka samsetningu og hvað greinir þær frá öðrum.

Við þingmenn getum og eigum að veita stjórnvöldum ríkt aðhald þegar kemur að meðferð skattfjár. Í verðbólgu- og vaxtaumhverfi sem þessu er lítið svigrúm til annars. Ég hef því lagt fram viðbótarfyrirspurn varðandi yfirvinnu ríkisstarfsmanna. Það er mikilvægt að við áttum okkur á því hvernig vinnustaðir ríkisins eru reknir og hvort reksturinn er í samræmi við markmið stjórnvalda, m.a. um minni yfirvinnu.

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður utanríkismálanefndar Alþingis.