Óðinn fjallaði í Viðskiptablaðinu á miðvikudaginn í síðustu viku um deilur vegna verktakagreiðslna hjá Fréttablaðinu og óskiljanlega framkvæmd við varnargarð vegna hugsanlegs eldgoss.

Pistill Óðins er hér á eftir í fullri lengd, en áskrifendur gátu lesið hann fyrir viku síðan.

Óðinn fjallaði í Viðskiptablaðinu á miðvikudaginn í síðustu viku um deilur vegna verktakagreiðslna hjá Fréttablaðinu og óskiljanlega framkvæmd við varnargarð vegna hugsanlegs eldgoss.

Pistill Óðins er hér á eftir í fullri lengd, en áskrifendur gátu lesið hann fyrir viku síðan.

Fréttablaðið, eldgos og Framsóknarflónið

Greint var frá því í byrjun nóvember að eignarhaldsfélag Helga Magnússonar, Hofgarðar, hefðu tapað 2,7 milljarði króna árið 2022.

Stærstur hluti tapsins er án efa vegna gjaldþrots Fréttablaðsins, sem tapaði 1,7 milljarði króna á árunum 2019-2021. Tapið árið 2022 kemur í raun aldrei í ljós heldur aðeins hversu mikið gjaldþrotið verður.

***

Helgi seldi 6% hlut sinn í Bláa Lóninu í fyrra og fékk gott verð fyrir en heildarvirði félagsins var metið á um 60 milljarðar í viðskiptunum. Að auki hefur hann selt bróðurpart hluta sinna í Marel, mest árið 2019. Margir voru undrandi á þessum sölum enda seldi Helgi helminginn af Marel bréfunum í tengslum við kaupin á Fréttablaðinu.

En er Helgi ef til vill skyggn? Sá hann vandræði Marel fyrir og gosáhættuna fyrir Bláa lónið? Ef svo væri hefði hann þó varla keypt Fréttablaðið.

Óðinn hefur áður sagt að tap Helga sé í kringum 2,5 milljarðar og kæmi það mikið á óvart ef það yrði minna þegar það sorgardæmi verður uppgert.

***

Gerviverktakar varpa á sig sök

Skiptastjóri Torgs, útgáfufélags Fréttablaðsins, hefur krafið verktaka hjá blaðinu um endurgreiðslu reikninga í aðdraganda gjaldþrotsins. Skiptastjóra er skylt samkvæmt gjaldþrotaskiptalögunum að gæta að því að kröfuhöfum hafi ekki verið mismunað. Reglurnar um það eru margar en grundvallaratriðið þar er að launakröfur eiga forgang í kröfuröð en verktakalaun ekki.

Mörkin eru ekki alltaf skýr á milli þess hver er launamaður og hver er verktaki. Þar er m.a. litið til þessa:

  • Er unnið fyrir eitt fyrirtæki eða fleiri?
  • Er verktakinn í launaðri vinnu utan verktöku?
  • Hver leggur til aðstöðu, verkfæri, efni?
  • Er viðkomandi skyldugur til að vinna verk af hendi persónulega?
  • Hver ábyrgist árangur verks?
  • Hver ber ábyrgð á tjóni?
  • Hver hefur stjórnunarréttinn þ.e. hvar, hvernig og hvenær er unnið?
  • Miðast greiðsla við árangur verks eða miðast greiðsla við tímaeiningu?

***

Mbl.is ræddi í gær við einn fyrrum verktaka hjá Fréttablaðinu. Njáll Gunnlaugsson, fyrrum bílablaðamaður, kallar þar sjálfan sig gerviverktaka.

Þetta er í raun og veru bara gervi­verk­taka. Þetta er það sem mér var boðið þegar ég byrja þarna 2019 og það var ekk­ert annað í boði af þeirra hálfu hjá Torgi.

Ég end­ur­samdi 2021 og þá kom held­ur ekk­ert annað til greina af þeirra hálfu en að ég héldi áfram sem verktaki. Ég hefði alltaf kosið að vera launþegi og hef alltaf verið það þegar ég get,“ seg­ir Njáll sem hef­ur starfað sem blaðamaður síðan fyr­ir alda­mót.

Njáli finnst mjög absúrd að vera kraf­inn um laun sem hann hef­ur þegar fengið greidd þegar hann á enn inni laun fyr­ir mánuðinn þar á eft­ir.

Mér datt ekki einu sinni í hug að þrota­búið myndi pæla í því að rukka fólk um laun aft­ur í tím­ann. Þrota­búið hlýt­ur að vera komið langt út fyr­ir sitt hlut­verk að krefja fólk um eitt­hvað sem skipta­stjóri veit vel að eru laun.

Það er ekki oft sem fólk lýsir yfir lögbrotum í fjölmiðlum eins og Njáll gerir þarna. Ef það er raunverulega svo að ekki voru skilyrði fyrir því að Njáll væri verktaki þá er lögbrotið hans og líklega einnig blaðsins.

Það er að auki alveg fráleitt að halda því fram skiptastjóri eigi ekki að skipta sér af þessu. Hann er bundinn af lögunum og engu öðru. Það er auki einkennilegt að menn skuli ekki vita af þessu árið 2023. Það virðast sjaldan vera nokkur mörk á því að fólk komi fram í fjölmiðlum sem fórnarlömb um eitthvað sem Óðinn hélt að væri á vitorði allra.

***

Að gefa annarra manna peninga

Bankastjórar viðskiptabankanna þriggja voru kallaðir á nefndarfund hjá efna­hags- og viðskipta­nefnd í gær.

Ágúst Bjarni Garðars­son, þingmaður Fram­sókn­ar­flokks, sagði á Alþingi í gær að nefndin myndi halda áfram að fylgj­ast með stöðunni og viðbrögðum fjár­mála­fyr­ir­tækja og gera það sem þurfi til að tryggja að viðbrögðin verði í takt við þá stöðu sem uppi er í Grinda­vík.

Sagði hann að þetta væri sam­fé­lags­legt verk­efni þar sem all­ir þyrftu að taka þátt og bregðast við með af­ger­andi hætti. Orðrétt sagði hann:

Á ég þar við ríki, fjár­mála­stofn­an­ir, líf­eyr­is­sjóði, trygg­inga­fé­lög og aðra. Það er ekki bara spurn­ing um að geta held­ur líka að verða og að sýna sam­fé­lags­lega ábyrgð í verki.

***

Það er algjörlega með ólíkindum að þingmaður skilji ekki muninn á banka, tryggingarfélagi og lífeyrissjóði.

Hvaða hlutverk hafa lífeyrissjóðir í þessari enn mjög óljósu stöðu sem er í Grindavík. Á þessari stundu veit ekki nokkur maður hversu mikið tjónið er í bænum eða hvað það verður mikið ef til goss kemur.

© BIG (VB MYND/BIG)

***

Góð ábending Gylfa

Gylfi Magnússon, prófessor í hagfræði, kom í Silfrið á Ríkisútvarpinu í fyrradag. Hann sagði að ríkissjóður ætti ekki val, ekki mætti láta lítið samfélag eins og Grindavík sitja uppi með mikið tjón án stuðnings. Fjármálastofnanir væru annað mál. Hann sagði:

Þeir eru ekki tryggingafélög, þannig að þeir eiga ekki sjálfkrafa að leggja fram gjafafé þrátt fyrir að viðskiptavinirnir verði fyrir tjóni.

***

Hvaða tjón á ríkið að bæta

Á það var bent á vb.is í síðustu viku að alþingismenn hygðust leggja skatt á alla húseigendur í landinu til að verja Svartsengi, orkuver HS Orku, sem væri um 40 milljarða virði.

Orkuverið var endurmetið á árinu 2022 og virði þess hækkað um 4 milljarða þrátt fyrir að flokkur ríkisstarfsmanna, sem ýmist vinnur í háskólanum eða veðurstofunni, hafi bent á að í uppsiglingu væri 200 ára eldgosatímabil á Reykjaneshrygg.

Félagið, sem er 70 milljarða virði samkvæmt síðustu viðskiptum, er að helmingi í eigu erlends vogunarsjóðs sem á dreift eignarsafn í virkjunum. Sem sagt sérfræðingar að sunnan.

Hvers vegna á húseigandi á Grenivík að greiða skatt til að verja eign þeirra? Óðinn skilur þau rök ekki.

Ein helstu rökin fyrir því að ríkið selji eignarhlut sinn í Landsvirkjun er einmitt eldgosaáhættan. Guð einn getur reiknað hana út.

***

Dýrasti varnargarður í heimi

Ekki til verri aðili en ríkið að framkvæma nokkuð, og hvað þá varnargarð. Óðinn veit að ríkið hefur ekki enn samið um endurgjald við gerð varnargarðsins. Samt eru þarna tugir vinnuvéla við störf. Alltaf er þetta sama sagan hjá þeim sem eyða annarra manna fé.

Hefði HS Orka ekki verið betur til þess fallin, með alla sína verkfræðinga innanborðs, að sjá um framkvæmd varnargarðsins og semja við verktakana?

Jafnvel þó fyrirtækið borgaði aðeins hluta garðsins - sem allir sanngjarnir menn hljóta að sjá að fyrirtækið ætti að gera. Sérstaklega ef garðurinn ver einnig vegi eða mannvirki í annara eigu.

***

Hver eru mörkin

Hvers vegna í ósköpunum ræðir enginn hvar mörkin eru, hvað ríkinu ber að greiða annars vegar og einkafyrirtæki og einstaklingar hins vegar.

Svona umræða á ekki að eiga sér stað í einhverri geðshræringu. Óðinn skilur reyndar ekki allt það uppnám sem er í fjölmiðlum í málefnum Grindavíkur. Hann skilur hins vegar vel að íbúar séu áhyggjufullir.