Við Hlemmtorgið gnæfði gasstöð eitt sinn svo hátt að eftir því var tekið. Söngvaskáldið Megas gerði þessari starfsemi ódauðleg skil í samnefndu lagi sem kom út á plötunni Fram og aftur blindgötuna á áttunda áratugnum.

Árin liðu og og eftirspurnin eftir gasinu minnkaði. Rafmagn og heitt vatn veitufyrirtækja sáu til þess að kola brennsla til framleiðslu gass varð smám saman úr sér gengin.

Við Hlemmtorgið gnæfði gasstöð eitt sinn svo hátt að eftir því var tekið. Söngvaskáldið Megas gerði þessari starfsemi ódauðleg skil í samnefndu lagi sem kom út á plötunni Fram og aftur blindgötuna á áttunda áratugnum.

Árin liðu og og eftirspurnin eftir gasinu minnkaði. Rafmagn og heitt vatn veitufyrirtækja sáu til þess að kola brennsla til framleiðslu gass varð smám saman úr sér gengin.

Eigi að síður sáu borgarfulltrúar þess tíma ekki sérstaka ástæðu til þess að færa verulegt fé í hendur þeirra sem ráku gasstöðina.

Af er það sem áður var. Það blasir við öllum að offramboð er á bensínstöðvum á höfuðborgarsvæðinu. Offramboð sem hefur staðið yfir um áratugaskeið. Ef beikonpylsurnar eru undanskildar á venjulegur heimilishaldari ekki erindi á bensínstöðvar oftar en í besta falli tvisvar í mánuði. Rafbílavæðingin hefur svo leitt til þess að æ fleiri eiga ekkert erindi á bensínstöðvar.

Með öðrum orðum er rekstur bensínstöðva á höfuðborgarsvæðinu ekkert sérlega arðbær. Eigi að síður halda borgarfulltrúar meirihlutans hinu gagnstæða fram. Óðinn, einn af föstum dálkahöfundum Viðskiptablaðsins, fjallaði um málið í síðustu viku:

„Reykjavíkurborg á flestar lóðir í Reykjavík. Um þessar lóðir gilda lóðaleigusamningar sem eru að jafnaði til 50 ára. Það eru engin rök til annars en að framlengja lóðaleigusamninga nema landnotkunin breytist. Til dæmis ef breyta á atvinnusvæði í íbúðasvæði. Það kunna að vera góð og gild rök fyrir því að sveitarfélag eigi samstarf við lóðarhafa um það, enda kann það að hraða uppbyggingu þar sem lóðaleigusamningar eru með mismunandi gildistíma.

Bensínstöðvar eru mjög sérstakur flokkur atvinnuhúsnæðis. Nýtingarhlutfall þeirra er lágt, starfsemin sérhæfð og miðar við nauðsynlega þjónustu, en húsin á lóðunum yfirleitt lítils virði. Fasteignamatið er þar af leiðandi lágt og lóðaleigan sömuleiðis. Ef mikill byggingarréttur undir gerbreytta notkun er heimilaður á lóðinni geta því orðið til mikil verðmæti með einu pennastriki.”

Þetta er kjarni málsins. Reykjavíkurborg hafði frumkvæði að því að færa olíufélögunum umtalsverð verðmæti í hendurnar. Ekki var nóg með það, heldur gaf borgin félögunum afslátt af innviðagjöldum í tengslum við uppbyggingu íbúðarhúsnæðis á þessum bensínstöðvarreitum.

Þessi gjörningur var algjörlega til gangslaus og til þess fallinn að glutra niður verðmætum útsvarsgreiðenda í borginni. Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs, og Dóra Björt Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Pírata, hafa reynt að verja málið. Bæði hafa þau bent á að nauðsynlegt hafi verið að fækka bensínstöðvum í borginni og að það sé síðan ekkert víst að olíufélögin græði svo mikið á þessu öllu saman.

Þessi málflutningur er í besta falli barnalegur. Orkuskipti bílaflotans og sífellt sparneytnari bíla leiða til þess að bensínstöðvum fækkar óhjákvæmilega. Ekki er þörf á gjafagjörningum borgarinnar til að liðka fyrir þeirri þróun.

Í áðurnefndum pistli Óðins er bent á að Reykjavíkurborg sé að nálgast að verða fullbyggð, ef svo má að orði komast, og það leiði til hækkunar húsnæðisverðs. Óðinn spyr svo hvort það sé eðlilegt að eigendur bensínstöðva eignist einir allan þann ágóða sem af umbreytingunni verður.

„Þeir greiddu ekki sannvirði fyrir lóðirnar við úthlutun, meðal annars, vegna þess að horft var til þjónustuframlags þeirra við íbúa, sem þeir eru nú að falla frá, og þeir hafa greitt ákaflega lága lóðaleigu til borgarinnar. En það sem merkilegast er að þeir vilja sjálfir leggja þessar bensínstöðvar af, því viðskiptin hafa og munu dragast saman.

Það sem vekur hvað mesta undrun er að ekki voru lögð innviðagjöld á olíufélögin. Það er hins vegar gert á öllum öðrum þróunarsvæðum, líkt og Ártúnshöfða, Orkureit og Heklureit.“

Borgarmeirihlutinn þarf að gera grein fyrir máli sínu í stað þess að gera veikburða tilraunir til þess að skjóta sendiboðann.

Þessi leiðari Viðskiptablaðsins birtist fyrst í blaðinu sem kom út 15. maí 2024.