Halli á rekstri sex stærstu sveitarfélaga landsins á fyrri helmingi ársins nam 13 milljörðum króna. Reykjavíkurborg ber hita og þunga af þessum hallarekstri en hann nam níu milljörðum. Staðan er grafalvarleg eðli málsins samkvæmt. Hrafnarnir lásu í vikunni umfjöllun Fréttablaðsins um málið en blaðið leitaði meðal annars til Heiðu Bjargar Hilmisdóttir, verðandi formanns Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Hún talaði enga tæpitungu: „Þessi staða þýðir einfaldlega að sveitarfélög verða að draga úr þjónustu og skera niður.“ Hrafnarnir eru sammála þessari greiningu Heiðu Bjargar en velta að sama skapi fyrir sér hvort verðandi formaður SÍS sé málkunnugur alnöfnu sinni sem situr í borgarstjórn fyrir Samfylkinguna. Sá borgarfulltrúi hefur hvatt til þess að sveitarfélög lækki gjöld, fjárfesti og veiti meiri þjónustu þrátt fyrir tekjufall. Þessu hefur auðvitað verið hrint í framkvæmd af meirihlutanum sem hefur hlaðið upp verðtryggðum skuldum á fyrri helmingi ársins og að sama skapi gert ráð fyrir tæplega 2% verðbólgu í áætlunum.

Huginn & Muninn er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Pistilinn birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út 22. september 2022.