Er ekki nýfrjálshyggja þegar lögreglunni er sigað á slökkvilið? Tý varð hugsað til þessara orða Alberts heitins Guðmundssonar knattspyrnumanns og heimspekings á dögunum.

Tilefnið var að Týr var að velta fyrir sér áformum ríkisstjórnarinnar um að stofna Þjóðaróperu.

Það er Lilja Alfreðsdóttir menningarmálaráðherra sem er hvatamaður stofnunar Þjóðaróperu. Lilja er sem kunnugt er sá ráðherra ríkisstjórnarinnar, ásamt Ásmundi Einari Daðasyni barnamálaráðherra, að lofa aukningu ríkisútgjalda við hvert tækifæri. Er þó samkeppnin mikil í þeim efnum.

***

Þá hlýtur svarið við spurningunni um hvað framsóknarmennska sé vera komið. Það er að segja ef sótt er í smiðju heimspeki Alberts. Framsóknarmennska er það þegar Þjóðaróperunni er sigað af Íslensku óperunni - einni ríkisóperu er sigað á aðra ríkisóperu.

***

Framsóknarstefna er margslungin og á sér mörg birtingarform. Glæsilegt birtingarform þeirrar staðreyndar sást þegar Ásmundur Einar kynnti á dögunum nýjan sjóð sem er ætlað að veita nýsköpunarverkefnum í menntamálum styrk. Eins og Morgunblaðið benti á er nú þegar er til sambærilegur sjóður undir hatti Rannís.

Hinn nýi sjóður hyggst veita allt að 100 milljónum króna til þróunarverkefna í leik-, grunn- og framhaldsskólum en sjóðurinn sem til var fyrir hefur veitt 60 milljónir króna á ári til þróunarverkefna í leik-, grunn- og framhaldsskólum. Hvor sjóður fyrir sig hefur umsýslukerfi við móttöku umsókna og starfsmenn sem fara yfir umsóknir.

***

Þar er einmitt að finna hinsta kjarna framsóknarstefnunnar. Að sólunda peningum skattgreiðenda í búa til ný verkefni sem engin þörf er á eða er sinnt af einhverjum öðrum fyrir til að búa til störf – störf fyrir framsóknarfólk.

Það segir kannski meira en mörg orð hversu vel þetta hefur gefist að töluverður fjöldi svaraði spurningunni um hvort það sé ekki bara best að kjósa Framsókn í síðustu kosningu.

Týr er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 15. nóvember 2023.