Týr sér að Þórdís Kolbrún Reykfjörð ætlar að reynast framsækinn fjármálaráðherra.

Týr sér að Þórdís Kolbrún Reykfjörð ætlar að reynast framsækinn fjármálaráðherra.

Svo framsækinn að hún hyggst skattleggja alla heimsbyggðina. Á Alþingi liggur nú frumvarp fjármálaráðherra um skattskyldu allra erlendra aðila af öllum tekjum frá Íslandi, nema af vörusölu.

Jón Elvar Guðmundsson lögmaður fjallaði um þetta í Viðskiptablaðinu á dögunum. Hann bendir á að samhliða ofangreindri breytingu er gerð viðbót við staðgreiðslulög um að nýi skatturinn skuli innheimtur af þeim Íslendingi sem greiðir. Skatthlutfallið getur verið allt frá viðeigandi þrepaskiptu launaskatthlutfalli yfir í flatan 20% skatt eða 37,6% skatt eftir því hver útlendingurinn er. Það er íslenska greiðandans að átta sig á því hvert rétt skatthlutfall er og halda því eftir.

Eftir breytinguna þarf til að mynda Íslendingur sem ætlar að kaupa sér hótelgistingu á erlendri grund að halda eftir staðgreiðslu íslenskra skatta í þeim viðskiptum. Þetta kann að virðast flókið. Þess vegna hefur Týr tekið saman nokkrar verklagsreglur sem lesendur geta haft til hliðsjónar.

Í fyrsta lagi þarf hann að biðja hótelstarfsmann að upplýsa um eignarhald á hótelinu. Öðruvísi getur Íslendingurinn ekki áttað sig á í hvaða skattþrepi viðkomandi rekstur er. Þess vegna er mikilvægt að átta sig á hvort um sé að ræða einstaklingsrekstur, rekstur hlutafélags/einkahlutafélags eða rekstur annars lögaðila t.d. sameignarfélags.

Það er brýnt að koma viðkomandi starfsmanni í afgreiðslu í skilning um ofangreint og ekki láta hann komast upp með neitt múður því samkvæmt lögum varða vanskil á staðgreiðslu viðurlögum sem eru allt frá álagi og dráttar-vöxtum til fangelsis allt að sex árum.

Nú kann að vera að tvísköttunarsamningur geri það að verkum að ofangreind skattskylda sé ekki fyrir hendi. Ef ferðamaður vill sleppa því að halda eftir staðgreiðslunni og telur tvísköttunarsamning leiða til þess er því rétt að hann kynni sér fyrst viðkomandi tvísköttunarsamning vel. Í kjölfarið þarf rekstraraðili hótels að skila umsókn RSK 5.42 til RSK ásamt vottorði um skattalega heimilisfesti.

Þegar umsókninni hefur verið skilað ætti að koma svar frá RSK innan tveggja vikna eða svo, þannig að erfitt getur verið að eiga við þetta við útritun af hóteli, og ef það er jákvætt þá skal ferðamaðurinn krefjast afhendingar á svarinu, eða afriti þess, þannig að hann hafi sönnun fyrir því að ekki beri að halda eftir staðgreiðslu.

Týr er einn af föstum ritjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 6. desember 2023.