Nú liggur fyrir Alþingi sérlega áhugavert frumvarp fyrir þá fjölmörgu landsmenn sem eru fullir áhuga á skattatæknilegum útfærslum íslenskra laga, nýsköpun og útrás löggjafans.

Nú liggur fyrir Alþingi sérlega áhugavert frumvarp fyrir þá fjölmörgu landsmenn sem eru fullir áhuga á skattatæknilegum útfærslum íslenskra laga, nýsköpun og útrás löggjafans.

Eitt af því sem þar finnst er mögnuð viðbót við þriðju grein laga um tekjuskatt sem kveður á um skattskyldu útlendra aðila. Í viðbótinni segir um væntanlega skattskyldu þeirra hér:

„Allir aðilar sem njóta hvers konar annarra tekna, eða ígildi tekna, en þeirra sem taldar eru upp í öðrum töluliðum þessa ákvæðis frá íslenskum aðilum…, þó ekki af vörusölu.“

Þýðing breytinganna

Hingað til hafa þær tekjur sem Ísland skattleggur útlendinga af verið tæmandi taldar í lögum um tekjuskatt. Ofangreint er grundvallarbreyting á þann veg að nú verði allar tekjur útlendinga skattskyldar ef þær stafa frá íslenskum aðilum – þó ekki vegna vörusölu. Hvað þýðir þetta?

Í skýringarkafla um meginefni frumvarps er þetta hvergi nefnt, þó er þar m.a. vikið að vörugjaldi af rafknúnum körtum og beltabifreiðum. Í sértækum skýringum við einstakar greinar er lítið sagt um vænta breytingu annað en að lögð sé til breyting á núverandi kerfi sem ætlað sé vítt gildissvið sem grípi ótilgreind önnur tilvik en hingað til hafa fallið undir lögin.

Á mannamáli – áður voru tilteknar tekjur útlendinga skattskyldar á Íslandi, nú verða þær allar skattskyldar hér. Eina undantekningin er þegar útlendingar hafa tekjur af vörusölu.

Augljóst er að deila má um fjölmargt í tengslum við það hvað tillagan þýðir í raun en gefum okkur að metnaðarfullur textinn nái eins langt og höfundar virðast ætla. Til þess að Ísland skattleggi útlending þarf bara tvennt, hann hafi tekjur (eða ígildi þeirra, hvað sem það er) og þær stafi frá íslenskum aðilum.

Hugsum okkur dæmi, styrkir til erlendra mannúðarmála er nærtækt dæmi nú um stundir, hvers kyns greiðslur einstaklinga til erlendra aðila fyrir þjónustu – jafnvel á ferðalögum erlendis, kaup af erlendum flugfélögum, áskrift að tónlist, aðild að félagasamtökum o.s.frv.

Í rekstri fjölmargra fyrirtækja fellur til alls kyns kostnaður vegna erlendra aðila vegna keyptrar þjónustu. Þetta ætti við um hvers kyns sérfræðiþjónustu lögmanna, verkfræðinga, forritara, o.s.frv.

Það er engin leið að reyna að ímynda sér öll þau atvik sem geta leitt til skattskyldu erlendra aðila á Íslandi ef af breytingunni verður.

Framfylgni heimsvaldastefnu Skattsins

Einhver kynni að spyrja sig hvernig litla Ísland hyggist framfylgja svo metnaðarfullri skattskyldu. Svarið við því er einfalt. Ríkið hefur kvatt til vinnu alla landsmenn – jafnt einstaklinga sem félög. Það er gert í krafti laga um staðgreiðslu opinberra gjalda. Samhliða ofangreindri breytingu er gerð viðbót við staðgreiðslulög um að nýi skatturinn skuli innheimtur af þeim Íslendingi sem greiðir. Skatthlutfallið getur verið allt frá viðeigandi þrepaskiptu launaskatthlutfalli yfir í flatan 20% skatt eða 37,6% skatt eftir því hver útlendingurinn er. Það er íslenska greiðandans að átta sig á því hvert rétt skatthlutfall er og halda því eftir. Staðgreiðslulögin skilgreina vinnuafl sitt í 7. gr. og kallar það launagreiðanda, þeir eru „…hver sá aðili sem innir af hendi eða reiknar greiðslur…“ Þannig er komið á með lögum mörg hundruð þúsund manna starfsliði til þess að framfylgja þessari spánnýju og óvæntu heimsvaldastefnu íslenskra skattyfirvalda.
Hvað ef starfsliðið bregst?

Að lokum er rétt að hafa í huga að starfsliðinu er hollt að standa sig. Gjöld samkvæmt lögum um staðgreiðslu eru stundum nefnd rimlagjöld. Sá sem lögin ljá hið virðulega heiti launagreiðandi ber ábyrgð á gjöldum sem viðkomandi ber að halda eftir. Ef brugðist er þeirri ábyrgð getur það varðað allt frá álagi og dráttarvöxtum til refsinga samkvæmt almennum hegningarlögum.

Einhverjum kann að þykja merkilegt að vörugjöld af körtunum rafknúnu teljist til meginefnis frumvarps en ekki þessi nýja hugmynd löggjafans um útrás íslenskrar skattlagningar. Það er rétt að nefna að í einhverjum tilfellum koma tvísköttunarsamningar í veg fyrir skattskyldu útlendinga en Skatturinn vill staðfesta það fyrirfram áður en greiðsla er gerð án staðgreiðslu. Mögulega þarf að ráða töluvert af fólki á viðkomandi svið í ljósi fyrirsjáanlegs álags.

Höfundur er lögmaður og einn eigenda Logos.