Ríkissjóður lagði til næstum 3,6 milljarða vegna kaupa háskólans á Hótel Sögu við Hagatorg síðla árs 2022. Hótelið hafði þá lokað verið lokað vegna mikilla rekstrarerfiðleika í á annað ár.

Ríkissjóður lagði til næstum 3,6 milljarða vegna kaupa háskólans á Hótel Sögu við Hagatorg síðla árs 2022. Hótelið hafði þá lokað verið lokað vegna mikilla rekstrarerfiðleika í á annað ár.

Meginástæðan fyrir erfiðleikunum var Covid-19 og meðal annars þær takmarkanir sem íslensk stjórnvöld settu á þá sem komu til landsins, vildu koma til landsins og þá sem voru á landinu.

Þess utan var eignarhaldið ekki heppilegt á hótelinu. Hver mistökin á fætur öðrum voru gerð í rekstri þess frá opnun árið 1962, þó flest mistökin hafi verið gerð á seinni árum.

***

Oft nálægt sölu

En auðvitað þurftu bændur ekki höll og hvað þá hótel. Í það minnsta áttu þeir fyrir lifandis löngu að vera búnir að selja hótelið.

Á síðustu tveimur áratugum hafa ítrekað komið fram hugmyndir um að selja hótelið. Árið 2006 var slík tillaga felld með miklum mun á Búnaðarþingi.

Árið 2008 var slík tillaga aftur felld. Þá greiddu 22 atkvæði með sölu og 23 voru andvígir. Það er stundum óskaplega stutt á milli feigs og ófeigs.

Hótelið var sett í formlegt söluferli árið 2015. Tilboðið upp á 4 milljarða króna barst en þá skuldaði Bændahöllin um 1,5 milljarð króna.

Því hefðu bændurnir átt um 2,5 milljarða á þávirði, eða 3,6 milljarða að núvirði. Stjórn Bændasamtakanna ákvað að selja ekki því tilboðið var of lágt. Menn hljóta að sjá eftir því nú.

***

Kaupandinn líka böðullinn

Það er reyndar einkennilegt að sömu stjórnvöldin og gerðu rekstur hótelsins ómögulegan hafi síðan mætt og keypt fasteignina á niðursettu verði – þegar ekki nokkur maður þorði að bjóða raunverð í húsið. Ríkisafskiptin hafa ekki aðeins komið illa niður á bændum í búrekstri þeirra, heldur einnig í hótelbisnessnum. Hvers eiga bændur að gjalda?

***

Ríkishugmynd

Kaup Háskóla Íslands og Félagsstofnunar stúdenta á hótelinu er frá flestum hliðum séð stórvond. Húsið var byggt sem hótel hefur því ákveðna eiginleika sem slíkt. Er þá verið að vísa í hönnun og innréttingar. Að breyta notkuninni þýðir að það þarf að fórna verðmætum. En slíkt virðist ekki skipta máli í rekstri stofnanna ríkisins.

Vissulega þurfti að sinna viðhaldi til að starfrækja hótel áfram. Svo hafði verið í áratugi. Skemmtileg saga er til af Konráði Guðmundssyni, fyrsta hótelstjóranum en þá forstjóra Bændahallarinnar, frá því í kringum 1990.

Einn morguninn voru vikapiltarnir á hótelinu að flagga fyrir framan hótelið þegar Konráð bar að garði. Konráð var harður rekstrarmaður og það gustaði stundum um hann. En hann, eins og svo margir, mildaðist nokkuð með árunum. Þarna voru mættir málarar til að mála skyggnið á anddyrinu.

Konráð sagði lágum rómi við vikapiltana að hann hefði sagt ítrekað við málarameistarann að það ætti bara að mála skyggnið við Súlnasal, hinu megin á húsinu, því hótelið ætti ekki fyrir málun á þeim báðum. En samt væru þeir þarna. Hann sagðist ætla að leyfa þeim að ljúka verkinu og krefjast síðan afsláttar.

***

Framkvæmdin mun hærri en kaupverðið

Þeir sem skoðuðu hótelið með það að markmiði að reka þar áfram hótel skutu á að það kostaði minnst milljarð króna að lagfæra það og í mesta lagi tvo milljarða. Óðinn segir þetta þó með þeim fyrirvara að óvissan var mikil.

Í frétt í Viðskiptablaðinu í dag kemur fram að kaupverð hússins nam 4,9 milljörðum króna. Endurbygging og aðlögun að nýrri starfsemi kostar hins vegar 5,3 milljarða króna samkvæmt uppfærðum áætlunum. Það gæti nú enn breyst því enn er nokkuð í land í að framkvæmdum ljúki.

Hlutur ríkisháskólans er um 7,1 milljarður króna. Þetta fé á ríkið ekki til vegna mikils hallareksturs. Því eru þessir peningar teknir að láni og verða að láni að minnsta kosti til 2028, líklega mun lengur. Vaxtakostnaður ríkisins vegna þessa verða um 3 milljarðar króna á tímabilinu. Frá kaupverðinu, endurbótunum og vaxtakostnaðnum dregst hugsanlegt söluverð gamla kennaraskólans í Stakkahlíð.

Það var óskaplegt óráð að breyta Hótel Sögu í skrifstofur og stúdentagarða. Nú gengur ágætlega í ferðaþjónustu og í stað þess að Hótel Saga skili ríkissjóði skatttekjum þá skilar hún ríkissjóði miklum gjöldum.

Hótel saga breyttist í sorgar sögu. Þökk sé lamandi hönd ríkisins.

Pistill Óðins birtist í Viðskiptablaðinu 24. apríl.