Það er ekki hægt að skrifa um stærsta fyrirtæki heims í kaffihúsarekstri nema að skrifa um Howard Schultz í leiðinni.

Fyrirtæki sem hefur vaxið undir hans stjórn, úr 6 útsölustöðum og í rúmlega 36.000 útsölustaði. (Nafn félagsins er fengið frá stýrimanninum úr bókinni um Moby Dick). Áform eru um enn meiri vöxt á næstu árum.

Það er þekkt saga að fyrsti Starbucks staðurinn var opnaður í Seattle, Washington í mars 1971. Stofnendurnir voru 3 vinir, nýlega útskrifaðir úr háskólanum USF í Seattle. Þessir vinir, Jerry Baldwin, Zev Siegl og Gordon Bowker réðu síðar Howard Schultz (f.1953) sem markaðsstjóra félagsins.

Árið 1986 keypti Starbucks, fyrirtæki í Seattle sem heitir Peet´s Coffee. Það fyrirtæki var með 6 góð kaffihús í borginni. Til að fjármagna kaupin ákváðu stofnendurnir að bjóða fyrrum markaðsstjóranum sínum að kaupa Starbucks kaffihúsin. Howard hafði þá rekið eigið kaffihús um tíma undir nafninu ll Giornale í borginni.

Þetta tilboð þótti Howard mjög spennandi enda hafði hann nýlega ferðast um Ítalíu og séð hvernig kaffihúsin þar drógu til viðskiptavini sem kunnu að meta expresso kaffi og valið bakkelsi með, á meðan hefðin í Bandaríkjunum var að drekka uppáhelling og borða kleinuhringi eða svipað sykrað bakkelsi. Kaffibollinn á Ítalíu kostaði á þessum tíma 3 falt sem það kaffi uppáhellingur var almennt seldur á í Bandaríkjunum.

Það var samþykkt að Howard fengi 3 vikur til þess að finna fjármagn til að kaupa fyrirtækið. Þegar vika var liðin var hann spurður af seljendum hvernig gengi að sækja fjármagn, hann svaraði því til að hann væri kominn með sirka þriðjung. Daginn eftir var hringt aftur og hann beðinn um að hitta seljendur. Þegar hann kom til fundarins, var honum sagt að það væri komið staðgreiðslutilboð í fyrirtækið og að þetta tilboð hefði komið frá einum af þeim fjárfestum sem Howard hafði nálgast til að koma með sér í kaupin.

Þetta kom honum illilega á óvart og honum virtist að þarna væri hans tækifæri að fara útum þúfur. Hann færði þetta í tal við góðan vin sinn síðar um daginn, sá bað hann að koma daginn eftir til sín í vinnuna.

Þessi vinur hans var lögmaður á lögmannsstofu Bill Gates eldri (f.1925) sem á þessum tíma var ekki bara einn virtasti lögmaður borgarinnar heldur var hann einnig frammámaður í viðskiptalífinu í Seattle. Þess má geta að Microsoft var nýlega skráð í kauphöllina á þessum tíma og var skráningunni vel tekið.

Bill Gates eldri var rúmlega 2 metra maður og mikill að burðum. Hann bauð Howard að setjast inná skrifstofu hjá sér og segja sér alla söguna. Þegar hann hafði lokið máli sínu sagði Bill Gates að hann hefði aðeins 2 spurningar, hvort að allt sem hann segði væri sannleikanum samkvæmt og hvort að það væri eitthvað ósagt sem hann þyrfti að vita.

Þegar Howard staðfesti að rétt væri farið með allar staðreyndir málsins þá stóð Bill Gates upp og bað Howard að koma með sér. Hann fór með niður á jarðhæð og gekk þar út og yfir götuna, þar fóru þeir inní bygginguna beint á móti og tóku þar lyftuna uppá efstu hæð. Þegar þangað var komið skundaði Bill Gates inn ganginn og inná skrifstofuna sem var inní enda, þar stóð hann yfir manni á bakvið skrifborð.

Þessi maður á bakvið skrifborðið var sá sem hafði ætlað að kaupa Starbucks einn, þrátt fyrir að hafa lofað Howard að taka þátt í kaupunum með honum.

Bill Gates gnæfði yfir skrifborði mannsins og spurði hvort að það væri rétt sem honum hefði verið sagt um tilraun þessa manns til að kaupa Starbucks. Sá staðfesti að sagan væri sönn. Honum var þá sagt að hann skyldi umsvifalaust draga sitt tilboð til baka. Maðurinn féllst á það enda var risinn við borðsendann ekki árennilegur.

Þessum kafla lauk síðan þannig að feðgarnir Bill Gates eldri og yngri hjálpuðu Howard Schultz að klára fjármögnun á kaupunum. Þannig komst félagið í hendur á manni sem alla tíð síðan hefur lagt líf og sál í að byggja upp stærsta smásölufyrirtæki heims í sölu á kaffidrykkjum, bæði heitum og köldum.

Þó að uppbygging og rekstur á Starbucks hafi í það heila gengið vel þá hefur oft gengið á ýmsu. Howard ákvað fyrst að hætta 2005 sem forstjóri en halda áfram sem stjórnarformaður. Hann þurfti hins vegar að taka aftur við starfinu tveimur árum síðar þegar reksturinn hafði daprast umtalsvert. Það var síðan árið 2017 sem nýr forstjóri var ráðinn, hann fékk erfiða glímu í fangið þegar Covid skall á og á endanum tók Howard við félaginu eitt skiptið enn.

Það var síðan í lok árs 2022 sem Laxman Narasimhan var ráðinn forstjóri félagsins og Howard Schultz hefur fullyrt að hann muni aldrei aftur koma að daglegum rekstri félagsins enda orðinn 71 árs gamall.

Þau hjónin Howard og Sheri hafa stofnað góðgerðastofnun fyrir nokkrum árum og eyða þar kröftum sínum við að bæta líf annara. Schultz Family Foundation hefur sérhæft sig í að hjálpa ungu fólki að fóta sig á vinnumarkaði og koma auk þess fyrrum hermönnum til hjálpar eftir að herskyldu líkur.

Það vakti t.d. mikla athygli þegar Starbucks hóf að ráða fyrrum hermenn til starfa og lofuðu allt að 25,000 störfum til þessa hóps. Fjöldi starfsmanna félagsins er nú kominn yfir 400.000.

Það má fullyrða að ævistarf Howard Schultz hefur borið svipaðan ávöxt og starf Henry Ford, Michael Dell, Andrew Grove og fleiri slíkra frumkvöðla sem breyttu heiminum í sinni starfsgrein.

Markaðsvirði Starbucks er í dag um ISK 11.500 milljarða virði eða u.þ.b. fimmfalt verðmæti allra skráðra fyrirtækja á Íslandi.

Höfundur er framkvæmdastjóri Kemi.