"Það er spilling og fólk er hrætt." Þessi setning rammar ágætlega inn orðræðuna sem litlu hrunsölumennirnir klifa á í fjölmiðlum þessa dagana. Fremstur í þeirra flokki er Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR. Hann boðaði alla þá Íslendingar sem eru búnir að fá nóg af einhverju til fundar við sig á Austurvelli á laugardag. Í hans huga er ástandið svo slæmt að ekkert minna en allsherjar-mótmæli duga til.

Í aðdraganda þessara mótmæla birtist fjöldi frétta þar sem rætt var við Ragnar eða minnst á þau með einum eða öðrum hætti. Þannig að ekki verður sagt að almenningur hafi ekki vitað af þeim. Enda var haft eftir Ragnari að nú myndi koma í ljós hvort þjóðin væri í þann mund að rísa upp gegn öllu heimsins óréttlæti.
Þegar öllu var á botninn hvolft mættu einungis um þrjú hundruð manns á mótmælin. Það eru ekki merkilegar heimtur svona miðað við að ákall Ragnars var til allrar þjóðarinnar en varla er til sá Íslendingur sem ekki er búinn að fá upp í kok af einhverju. Eigi að síður hélt Ragnar innblásna ræðu um hvernig allt væri að fara til fjandans og það fyrir framan hús sem hann fullyrti fyrir nokkrum árum að aldrei myndi rísa vegna spillingar.

Þrátt fyrir litlar undirtektir og dræma mætingu sögðu flestir fjölmiðlar frá þeim um helgina eins og um einhver tíðindi að ræða. Það er ekkert sérlega fréttnæmt að Ragnar og vinir hans komi saman að ræða um spillinguna og næsta hrun. Það gerist með reglubundnum hætti. Og hvað svo sem má segja um verðbólguna og vextina þá er ljóst að þorri landsmanna er ekki búinn að fá nóg þó að vafalaust óski flestir eftir verðstöðugleika og lægra vaxtarstigi.
***

Það hvað þetta brölt Ragnars fékk mikla athygli í fjölmiðlum en dræma undirtektir hjá almenningi vekur upp spurningar um hvaða veruleika fjölmiðlar bregða upp í umfjöllun sinni og hvort hann endurspegli upplifun þorra fólks.

Í þessu samhengi má nefna tvær kannanir sem hafa verið til umfjöllunar undanfarið. Önnur þeirra var gerð af Samtökum leigjenda og sýnir að mikill meirihluti leigjenda eða um 80% nái ekki endum saman. Segja má að könnunin sýni að algjört hamfaraástand ríki á leigumarkaði. Eins og segir í frétt Vísis um málið:

„Helstu niðurstöður, sem Vísir hefur undir höndum, sýna að rúm fimmtíu prósent leigjenda segjast hafa orðið fyrir fordómum vegna stöðu sinnar á húsnæðismarkaði, hartnær áttatíu prósent leigjenda telja dvöl á leigumarkaði hafa neikvæð áhrif á andlega heilsu sína, um fjörutíu prósent leigjenda segjast hafa þurft að leita sér læknisaðstoðar vegna heilsubrests sem þeir tengja stöðu sinni sem leigjendur.“

Leigjendur berjast sum sé í bökkum og eru smánaðir af samborgurum sínum og tæplega helmingur þeirra hefur þurft að sækja sér læknisaðstoðar vegna þessa.

Niðurstaða könnunar Samtaka leigjenda rímar ekki við niðurstöður annarra kannana um stöðuna á leigumarkaði. Eins og haft var eftir Kára S. Friðrikssyni, hagfræðingi Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, í Viðskiptablaðinu í síðustu viku þá er staðan önnur. Enda sýna kannanir að þeim sem eru á leigumarkaði og telja sig búa við íþyngjandi húsnæðiskostnað fer fækkandi og hlutfall ráðstöfunar sem fer í leigu er svipað og það hefur verið undanfarinn áratug. Þannig sýndi könnun HMS að tæplega 14% leigjenda töldu sig búa við íþyngjandi húsnæðiskostnað í fyrra.

Þá vaknar upp spurningar um af hverju þessar tvær kannanir sýna svo gjörólíkar niðurstöður. Ástæðan felst fyrst og fremst í aðferðafræðinni. Könnun Samtaka leigjenda byggir á svörum við 59 spurningum sem margar hverjar eru gildishlaðnar og leiðandi. Um er að ræða netkönnun sem var öllum opin, en send sérstaklega á meðlimi Samtaka leigjenda auk þess að óskað var eftir þátttöku í um 5 þúsund manna hópnum Umræðuhópur leigjenda á Facebook.

Hættan við slíkar kannanir er að eingöngu þeir sem hafa sterkastar skoðanir og þeir sem eru ósáttastir taki þátt og það skekki niðurstöðurnar. Könnun Samtaka leigjenda er því álíka marktæk og til að mynda niðurstöður kannana á heimasíðu Útvarps Sögu. Tölur HMS byggja hins vegar á niðurstöðum lífskjararannsóknar Hagstofu Íslands. Úrtak þeirrar rannsóknar er fengið á þann hátt að þátttakendur eru valdir af handahófi úr þjóðskrá og mikið lagt upp úr því að svör fáist frá sem flestum þeirra. Svarhlutfall var sem dæmi 68% árið 2021 og svörin alls um 3 þúsund talsins.

Önnur könnun sem Varða –rannsóknastofnun vinnumarkaðarins gerði fyrir ASÍ og BSRB er sömu annmörkum háð og könnun Samtaka leigjenda. Eins og fram kom í fréttum Morgunblaðsins og Ríkisútvarpsins sýndi sú könnun að stór hluti landsmanna byggi við kröpp kjör. Þar kom fram að helmingur launafólks næði ekki endum saman, og meðal annarra niðurstaðna könnunarinnar er sá ískaldi veruleiki að tíundi hver launþegi búi við efnislegan skort.

Þessi niðurstaða er í hróplegu ósamræmi við niðurstöður lífskjararannsóknar Hagstofunnar sem meðal annars voru þær að árið 2021 hefði innan við fimm prósent landsmanna búið við skort á efnahagslegum gæðum. Fyrir utan að byggja eingöngu á svörum félaga í aðildarfélögum ASÍ og BSRB er helsti galli könnunar Vörðu sá sami og Samtaka leigjenda: svara var einfaldlega aflað með því að senda út fjölpóst á línuna og birta það sem skilaði sér.
***

Talandi um hliðarveruleika þá var Andrés Magnússon geðlæknir í drottningarviðtali í Silfrinu um helgina. Að sjálfsögðu var Andrés ekki fenginn til þess að ræða geðheilbrigðismál og ástandið á Landspítalanum heldur um peningamálastefnu og virkni brotaforðakerfisins ásamt öðrum tengdum efnahagsmálum sem aðeins íslenskir sérfræðilæknar hafa tök á að skilja.

Viðtalið var kostulegt. Geðlæknirinn ræddi um hagfræðikenningar sínar sem stangast á við flest það sem færustu peningamálahagfræðingar heims hafa stuðst við gegnum tíðina. Kenningar geðlæknisins virðast byggja á grundvallar misskilningi hans á svokallaðri nútíma peningamálastjórnun (e. modern day monetary theory) í bland við samsæriskenningar öfgafólks í dýpstu jöðrum umræðunnar á samfélagsmiðlum um samsæri fjármálaelítunnar og lykilstofnana hennar.

Og um þennan misskilning fékk læknirinn að tala í belg og biðu. Þannig sagði hann hefðbundna peningamálastjórnum út frá verðbólgumarkmiði og Taylor-reglunni vera örgustu þvælu og ná ætti verðbólgu niður með sértækri skattlagningu á banka og skattaívilnunum handa þeim sem eru svo efnaðir að geta borgað niður lánin sín.
Þá talaði doktorinn um hversu mikið bankar græða á vaxtahækkunum og miklum og hröðum vaxtabreytingum. Í því samhengi hafði spyrillinn ekki fyrir því að spyrja hvernig sú kenning rími við ástæður röð bankagjaldþrota í Bandaríkjunum.

Þetta viðtal sýndi um margt þann skort á metnaði sem einkennir umfjöllun Ríkisútvarpsins um peninga- og efnahagsmál. En viðtalið rifjar upp fleyg en forn ummæli:

„Sjálfur jólasveinninn talaði um daginn og veginn og kallaði sig Guðmund Jósafatsson frá Austurhlíð. Hann valdi sér að umtalsefni féþyngd og ljóðagerð og virtist dável heima í báðum þessum listgreinum.“

Ofangreind orð eru úr fjölmiðlarýni sem Steinn Steinarr skáld skrifaði í Alþýðublaðið á sínum tíma. Vitnað var til þeirra í fyrsta fjölmiðlapistli þessa höfundar. Þau komu aftur upp í hugann þegar fylgst var með fréttum vikunnar og þá í samhengi við þá áleitnu spurningu af hverju fjölmiðlar telja það fréttnæmt þegar sumt fólk tjáir sig um málefni sem það hefur enga sérstaka þekkingu á.