Senn líður að því að um fjörutíu hugrakkir ríkisstarfsmenn takist á við flugviskubit sitt og loftlagskvíða og haldi suður á boginn til Dubai. Enn og aftur sannast því hið fornkveðna: Ekki bera allar hetjur skikkjur.

Hvíslað hefur verið að hröfnunum að um sjötíu Íslendingar sæki ráðstefnuna og er þorri þeirra ríkisstarfsmenn eða á fimmta tug. Að mati hrafnanna mætti fjöldi ríkisstarfsmanna sem sækja ráðstefnuna alls ekki vera færri því erindi Íslands er brýnt.

Orkuskipti í olíu á fullu stími

Orkustofnun sendir að sjálfsögðu fulltrúa á ráðstefnuna. Þeir verða þrír. Fastlega má gera ráð fyrir að Halla Hrund Logadóttir orkumálastjóri muni eiga annríkt á fundum með öðrum ráðstefnugestum þar sem fjallað verður um orkuskiptin á Íslandi – það er segja skiptin úr rafmagni yfir olíu. En sem kunnugt er þá kynnti Landsvirkjun á dögunum að ekki væri til næg raforka í landinu til að knýja mjölbræðslur landsins á komandi vertíðum sem og aðra mikilvæga atvinnustarfsemi. Þá þarf að grípa til olíunnar.

Þá er einmitt sérstaklega gagnlegt að tugur ríkisstarfsmanna fjölmenni á loftlagsráðstefnuna. Ástæðan fyrir því að Breska ríkisútvarpið hefur upplýst um leynigögn sem sýna að stjórnvöld í Sameinuðu arabísku furstadæmunum ætli að vera klár á kantinum með kostatilboð á olíu meðan á ráðstefnunni stendur.

Enginn dverghugur

Vafalaust eiga einhverjir forpokaðir og illa innréttaðir menn eftir að gagnrýna kostnaðinn við að senda allan þennan fjölda opinberra starfsmanna á fund sem allir sérfræðingar eru sammála um að engu muni skila. Nóg hefði verið að senda loftlagsráðherrann ásamt nokkrum embættismönnum sér til halds og trausts.

Slík hugsun ber vott um dvergshug að mati hrafnanna. Í fyrsta lagi kostar þetta skattgreiðendum alls ekki svo mikið. Nú sendir Alþingi að sjálfsögðu aðeins fjóra fulltrúa á ráðstefnuna.

Þetta verður stutt stopp – rétt tæplega vika. Kostnaður skattborgara við að láta fulltrúana fjóra gista á sæmilegu hóteli ætti einungis að vera tæpar þrjár milljónir. Hugsanlega aðeins meiri en eins og hrafnarnir fjölluðu um við sama tilefni í fyrra velja íslenskir embættismenn aðeins það besta þegar kemur að loftlagsráðstefnum SÞ.

Þá gistu þeir á fimm stjörnu lúxushótelinu Domina Coral Bay í Egyptalandi meðan fulltrúar einkageirans hér á landi gerðu sér fátæklegri gistingu að góðu meðan á ráðstefnunni stóð yfir. Sé miðað við fjörutíu embættismenn frá Íslandi sem gista að meðaltali í sex nætur rétt eins og Alþingismennirnir er gistikostnaðurinn fyrir hópinn einungis tæplega 32 milljónir. Þá er eftir að bæta við flug, fæði og dagpeninga. Þetta er ekki mikill peningur úr vasa skattgreiðenda. Í raun bara vasapeningur í samhengi heildarútgjalda ríkisins.

Ódýrt skemmtiefni

Í raun og veru er þetta ódýrt sé tekið tillit til þeirrar miklu skemmtunar sem hlýst af þátttöku íslenskra ríkisstarfsmanna. Þannig heyrðu hrafnarnir það frá fulltrúum atvinnulífsins sem þátt taka fyrir eigin kostnað að það hafi verið stórkostleg skemmtun að hlusta á íslenska embættismenn segja frá samningaviðræðunum sem þeir tóku þátt í og hvernig þær væru að þróast með tilliti til framtíðarhitastigs jarðar. Þær nefndu að eins og samningarnir stæðu þá stundina þá yrði hlýnun jarðar 1,7 gráður en þær væru að reyna að koma þessu niður í 1,5 gráður.

Huginn og Muninn er einn af ritstjórnarpistlum Viðskiptablaðsins.