Ármann Þorvaldsson forstjóri Kviku lét eftirtektarverð ummæli falla í pallborðsumræðum á ársfundi Samtaka fyrirtækja í fjármálaþjónustu í síðustu viku.

Hann benti á að fjártæknin og stafræn umbreyting hafi leitt til mikillar hagræðingar í fjármálageiranum undanfarinn áratug. Þetta vita svo sem flestir en það sem var athyglisvert við framsetningu Ármanns var að hann spurði til hverra hefur ávinningurinn af þessu hagræði skilað sér?

Svarið er auðvitað afdráttarlaust. Ávinningurinn hefur ekki skilað sér til hluthafa eða viðskiptavina bankanna nema að litlu leyti. Hann hefur meira og minna allur runnið til ríkisins.

Í kjölfar fjármálakreppunnar 2008 átti sér stað umræða um skattlagningu fjármálafyrirtækja á vesturlöndum. Í stuttu máli má segja að vinstri stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar sem þá réði ríkjum hafi tekið allar þær hugmyndir sem voru þá settar fram um sértæka skattlagningu fjármálafyrirtækja með opnum örmum og hrint þeim í framkvæmd.

Íslenskir bankar eru skattlagðir sérstaklega fyrir starfsmannahald, sérstakur skattur er lagður á fjármögnun bankanna og þá er hærri skattur lagður á hagnað þeirra. Álíka skattlagning á fjármálageirann þekkist ekki meðal þróaðra ríkja. Væntanlega er ástæða þess að annars staðar gera menn sér grein fyrir að slíkar álögur bitna fyrst og fremst á heimilum og fyrirtækjum. Sértækir skattar á fjármálageirann hafa numið á bilinu 20 til 30 milljörðum á ári undanfarinn áratug.

Samtök fyrirtækja í fjármálaþjónustu hafa bent á þessar augljósu staðreyndir í gegnum tíðina. Nokkur árangur náðist þegar hlutfall bankaskattsins sem er lagður á skuldahlið efnahagsreiknings bankanna var lækkað.

Um stund virtist sem svo að íslenskir stjórnmálamenn hefðu öðlast skilning á orðum Winston Churchill þegar hann sagði: „Að mínu viti er þjóð, sem reynir að skattleggja sig til velsældar, í sömu sporum og maður sem stendur ofan í fötu og reynir að lyfta sér upp með höldunni.“

En það var tálsýn. Daginn eftir ársfund Samtaka fyrirtækja í fjármálaþjónustu tilkynnti Seðlabankinn um að hann hafi á neyðarfundi ákveðið að hækka bindiskyldu vaxtalausra innlána bankanna úr 2% yfir í 3%. Kostnaður bankanna vegna þessa hleypur á átta til níu milljörðum.

Röksemd Seðlabankans fyrir hækkun bindiskyldunnar hafði ekkert með markmið peningamálastefnunnar að gera. Hún snéri að því að Seðlabankinn vill láta bankana borga fyrir gjaldeyrisforðann. Að sama skapi viðurkenndi Seðlabankinn í tilkynningu um breytinguna að gjaldeyrisvaraforðinn væri almannagæði sem eðli málsins samkvæmt gagnast öllum en ekki bara fjármálafyrirtækjum.

Eins og fram kemur í umfjöllun Viðskiptablaðsins í dag þá gera sérfræðingar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Alþjóðagreiðslubankans ekki sérstakar athugasemdir við að seðlabankar taki upp vaxtalausa bindiskyldu en að sama skapi leggja þeir áherslu á að líta beri þá aðgerð fyrir það sem hún er: Skattlagning.

Með öðrum orðum er opinber stofnun farin að skattleggja fyrirtæki sem er að stærstum hluta í almenningseigu til að fjármagna fegrunaraðgerðir á rekstrarreikningi sínum. Um þetta hlýtur að þurfa að ræða í þaula.

Í þessu samhengi er rétt að halda til haga að tugir manna hafa nú boðið sig fram í komandi forsetakjöri. Engin stétt manna á fleiri fulltrúa en ríkisforstjórar. Sú staðreynd ásamt ofangreindu gerir að verkum að það er erfitt að verjast þeirri hugsun að sú stétt manna trúi því að einkageirinn sé hér til að þjónusta þann opinbera en ekki öfugt.

Það er afleitt og mun reynast Íslendingum dýrkeypt þegar fram í sækir.

Þessi leiðari birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út 10. apríl 2024.