Af frétt Morgunblaðsins að dæma skilja Íslendingar á Kanaríeyjum síður en svo skoðanir sínar eftir á klakanum. Hópur Íslendinga á Kanaríeyjum hittist á laugardagsmorgni til að ræða málefni líðandi stunda og koma sér saman um hinar ýmsu ályktanir.

Þungum steinum var velt á fundinum undir styrkri stjórn Guðna Ágústssonar. Íslendingarnir lögðu meðal annars til að ríkisstjórnin bjóði Ólaf Ragnar Grímsson fram sem friðarpostula í átökum fyrir botni Miðjarðarhafs sem og á milli Rússlands og Úkraínu. Hrafnarnir efast ekki um að það sé þjóðráð enda er Ólafur Ragnar manna líklegastur til að sameina stríðandi fylkingar í þessum heimshlutum – sameina þær gegn sér.

Þá var ályktað um mikilvægi þess að ríkisstjórnin nái fram þjóðarsáttasamningi til fimm ára ásamt aðilum vinnumarkaðarins.

Þrátt fyrir að hafa hætt afskiptum af stjórnmálum tókst Guðna greinilega að koma helsta stefnumáli Framsóknarflokksins á dagskrá því fundargestir fóru fram á að gerður verði búvörusamningur við bændur og að „landbúnaðinum verði sýnd virðing“.

Skoðanaglaðir fundarmenn afsanna þar með ranghugmyndir Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra og fleiri að Íslendingar nýti tíma sinn á Kanaríeyjum einungis til að flatmaga og taka myndir af bífunum á sér.

Hrafnarnir velta eigi að síður fyrir sér hvort þetta sé enn eitt  dæmið um öfgahyggju í innflytjendahópum, sérstaklega þegar kemur að landbúnaðarmálunum.

Huginn og Muninn er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í Viðskiptablaðinu.