Í Viðskiptablaðinu sem kom út fyrir viku fjallaði Óðinn um kaupaukakerfi hjá íslenska Skattinum og benti á hversu vandmeðfarið slíkt kerfi er hjá eftirlitsstofnunum ríkisins.

Síðan pistillinn birtist, á miðvikudaginn fyrir viku, hefur Skatturinn staðfest að starfsmenn fái kaupauka á grundvelli frammistöðu meðal annars við endurálagningu skatta.

Nýverið kom upp mál sem varðaði einnig eftirlit og ákærur á hendur undirpóstmeisturum í Bretlandi. Málið er eitt stærsta réttarhneyksli í sögu Bretlands.

Hér er á eftir er sá hluti pistils Óðins en áskrifendur geta lesið hann í heild sinni hér.

Póstmálið breska

Það eru víti til að varast þegar kemur að því að greiða rannsakendum bónusa fyrir störf sín.

Póstmálið er eitt stærsta réttarfarshneyksli í sögu Bretlands. Á árunum 2000 til 2014 voru yfir 4.000 undirpóstmeistarar krafðir um endurgreiðslur af breska póstinum á grundvelli upplýsinga úr nýju bókhaldskerfi sem tekið var í gagnið árið 1999.

Um 900 undirpóstmeistarar voru ákærðir fyrir þjófnað, fjársvik og bókhaldssvik. Voru 705 þeirra sakfelldir.

Undirpóstmeistararnir sáu um rekstur útibúa póstsins en gerðu það í eigin nafni. Útibúin voru því einkafyrirtæki og milli aðila var sérstakur samningur milli aðila.

Sumir undirpóstmeistaranna höfðu tekið eftir því að hið nýja bókhaldskerfi sýndi óútskýrðan mismun sem gat numið verulegum fjárhæðum – tugum þúsunda punda. Breski pósturinn sagði hins vegar kerfið traust og upplýsingarnar réttar.

***

Réttarfar frá 1683

Réttarfarsreglurnar í Bretlandi eru mjög frábrugðnar frá því sem við eigum að þekkja. Breski póstur hafði allt frá 1683 vald til að saksækja einstaklinga, þar á með undirpóstmeistara. Þessi lög standast vitanlega enga skoðun og á það var bent þegar málin streymdu inn til dómstóla í Bretlandi.

Í Póstmálinu voru sem sagt starfsmenn póstsins saksóknarar en þeir nutu aðstoðar Crown Prosecution Service, sem aðallega veitir lögreglu og öðrum saksóknurum aðstoð við rannsókn mála, ákvörðun um ákæru og í dómsmálum.

Sérstök deild fékkst við málið, svokölluð öryggisdeild (e. Security Team). Sú deild fékkst, eðli máli samkvæmt, ekki við saksóknir á hverjum degi.

***

Fengu bónusa

Nú stendur yfir rannsókn á málsókn póstsins gegn undirpóstmeisturunum. Hún er er leidd af fyrrum dómaranum Sir Wyn Williams.

Einn þeirra sem störfuðu við rannsókn málsins hjá póstinum var Gary nokkur Thomas. Óðinn hefur lesið vitnisburð hans fyrir rannsóknarnefndinni frá 7. desember. Hann er um margt óljós.

Thomas upplýsir þar að rannsakendurnir hafi fengið bónus ef 40% af tapinu fékkst endurgreitt. Hann greinir hins vegar ekki frá því hversu háar fjárhæðir hann og aðrir rannsakendur fengu í kaupauka vegna sakfellinga.

Fleiri rannsakendur hafa staðfest bónusa fyrir nefndinni. David Posnett kom fyrir rannsóknarnefndina þann 5. desember.

Aðspurður um hvort starfsmenn fengu bónusa sagði hann alla þá sem komu að rannsókn málsins hjá póstinum hafa fengið greiðslur sem byggðust á árangri þeirra.

Rétt er að hafa í huga að oft voru endurheimtur í kjölfar þess að undirpóstmeistarar voru sakfelldir, eignir þeirra kyrrsettar, haldlagðar eða fullnustaðar á annan hátt.

***

Reynslulitlir rannsóknarmenn

Það er áhugavert að skoða hvaða reynslu starfsmenn höfðu af rannsóknarstörfum. Hún var engin hjá flestum þeirra áður en málið hófst.

Þann 7. desember kom Michael Wilcox einnig fyrir nefndina. Hann sagðist ekki hafa haft nokkra reynslu á sakamálarannsókn áður en hann hóf störf.

Hann hafi hins vegar farið reglulega á námskeið meðan hann starfaði í öryggisdeildinni. Fyrsta námskeiðið sem hann sótti stóð yfir í tvo daga.

Um efni þess sagði Wilcox þetta:

Ég held að það hafi verið grunnatriði rannsóknar. Ég veit – ég man eftir því að hafa farið þangað.

Ég kynnti mér efni námskeiðsins vel áður, svo þegar ég mætti þá þekkti ég námskeiðið og ég þekkti fimm atriðin sem þurfti að sanna fyrir þjófnað og ég vissi um rangar bókhaldsfærslur, og ég var sá sem kunni allt þarna, í raun, því hverju sinni sem spurning var lögð fram, gat ég komið með svar við henni.

En það var farið yfir alls konar. En farið var yfir efni sem var allt frá því að taka viðtöl, taka skýrslur og setja saman málsgögn.

***

Sögðu póstinn hafa stungið gögnum undir stól

Paul Patterson, forstjóri Fujitsu í Evrópu, kom fyrir rannsóknarnefndina á föstudag, en bókhaldskerfið var í eigu félagsins. Hann sagði að yfirmönnum breska póstsins hafi verið ljóst frá því í nóvember 1999, þegar kerfið var innleitt, að villur væru í því.

Allar villur og mistök hafa verið þekktar í mörg, mörg ár. Allt frá upphafi þess að kerfið var tekið í notkun voru þar villur, mistök og gallar, sem voru vel þekktir. Öllum var þetta ljóst.“

Hann sagði að í sumum tilvikum þar sem pósturinn sakaði undirpóstmeistara um brot á grundvelli gallaðra gagna frá Horizon hafi pósturinn breytt vitnisburði starfsfólks Fujitsu, á „skammarlegan“ og „hræðilegan“ hátt til að hylma yfir þær villur sem voru í kerfinu.

***

Skelfilegar afleiðingar

Áhrif þessara dómsmála á hendur undirpóstmeisturunum, sakfellingar, fangelsisvist, starfsmissir, skuldir og gjaldþrot voru mikil á hina dæmdu og fjölskyldur þeirra.

Alvarlegustu afleiðingar málsins voru þær að í það minnsta fjórir sviptu sig lífi í kjölfar málsins. Að auki veiktust sumir sakborninga af alvarlegum sjúkdómum, sem hugsanlega má rekja til málarekstursins, og margir skildu við maka sinn.

Óðinn rifjar hér upp mál bresku póstsins vegna þess að málið er víti til varnaðar þegar kemur að því að veita fólki sem hefur ekki nægjanlega reynslu, þekkingu og menntun verulegt vald.

Enn verra er ef persónulegur hvati er til staðar, bónusar eða aðrar sporslur, sem villa mönnum sýn með afdrifaríkum afleiðingum.

Höfum í huga að ef mál breska póstsins væri staðfært yfir á Ísland þá hefðu 4 verið sakfelldir í málinu miðað við höfðatölu.

Pistill Óðins birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út á miðvikudaginn. Áskrifendur geta lesið pistilinn í fullri lengd hér.