Fyrir og yfir páskana hafa verið samtöl forystumanna stjórnmálaflokkanna um hugsanlega myndun nýrrar ríkisstjórnar að því er Týr heyrir. Hefur ekki verið minni leynd yfir slíkum viðræðum síðan Össur og Ögmundur mynduðu vinstri stjórnina 2009.

Það tóku margir eftir því hvað Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir var spennt í Spursmálum á mbl.is að Katrín Jakobsdóttir færi í forsetaframboð. „Ef Katrín Jakobsdóttir fer þá mun ég styðja hana.“

Allir sem þekkja Þorgerði Katrínu vissu að eitthvað lá að baki svo afdráttarlausum stuðningi hennar. Þorgerður Katrín veit, eins og flestir, að ríkisstjórnin mun ekki lifa af brotthvarf Katrínar. Eins er ólíklegt að Vinstri græn lifi af setu í ríkisstjórn fram að næstu kosningum.

Því má segja að forsetaframboð væri björgunarfrek. Myndi bjarga pólitísku lífi Katrínar Jakobsdóttur og bjarga flokknum hennar frá því að falla af þingi.

Reisa Viðreisn við

Það sem færri vita er að nafnið á Viðreisn snerist ekki um að reisa Ísland við heldur að reisa við pólitískan feril Þorgerðar Katrínar. Og um leið að auka ítök manna eins og Helga Magnússonar, Þorsteins Pálssonar og Þórðar Magnússonar í þjóðlífinu.

Flokkurinn mælist nú með 7% fylgi en fékk 8,3% í síðustu kosningum. Það hefur fengið ótrúlega lítinn hljómgrunn að segja um hvert einasta úrlausnarefni í íslenskum stjórnmálum að rétt sé að ganga í Evrópusambandið. Nú þarf því að reisa flokkinn við og vænleg leið til þess er að koma flokknum í ríkisstjórn.

Því vinnur Þorgerður Katrín að því hörðum höndum þessa dagana að koma sér í stjórn. Þá verður auðvitað mörgum brögðum beitt og auðvitað kostur að hafa færri en fleiri hugsjónir.

Græða ekki allir fjórir?

Þá er spurningin hvort þetta sé ekki stórsigur fyrir alla fjóra flokkana, ríkisstjórnarflokkana þrjá og Viðreisn. Allir fjórir flokkarnir ættu möguleika að auka fylgi sitt og allir halda ráðherrabílunum nema auðvitað Vinstri græn, sem eru reyndar á móti öllum bílum nema ráðherrabílum.

Týr setur nokkurn fyrirvara við þetta og veltir fyrir sér stöðu Sjálfstæðisflokksins. Þetta mun auka fylgi Sjálfstæðisflokksins ef hann tekur aftur upp sjálfstæðisstefnuna og nær markverðum árangri í að hrinda henni í framkvæmd. Líkurnar á því ættu að aukast með Viðreisn innan borðs og Vinstri græn utan borðs.

Það er hins vegar svo að ef Sjálfstæðisflokkurinn næði engu fram í nýju samstarfi, ríkissjóður yrði rekinn áfram með halla og ríkið tútnaði áfram út með tilheyrandi verðbólgu, skattar áfram í hæstu hæðum meðal OECD ríkjanna svo eitthvað sé nefnt, þá væri flokkurinn í miklum vandræðum.

Því þá gæti hann ekki kennt Vinstri grænum um.

Týr er einn af föstum ritsjórnardálkum Viðskiptablaðsins