Blaðamennskan og störf blaðamanna hafa verið til umræðu að undanförnu. Tilefnið er ekki „vitundarherferð“ Blaðamannafélagsins um mikilvægi blaðamennskunnar í nútímasamfélagi.

Ástæðan fyrir því að störf blaðamanna hafa verið í deiglunni er framganga Stefáns Einars Stefánssonar þáttastjórnanda Spursmála sem er sýndur á vefsvæði Morgunblaðsins annars vegar og fréttaskýringar Maríu Sigrúnar Hilmarsdóttir sem sýnd var í Kastljósi í þar síðustu viku.

***

Eins og fjallað var um í síðasta fjölmiðlapistli ákvað Ingólfur Bjarni Sigfússon, ritstjóri Kveiks – öndvegisseturs rannsóknarblaðamanna ríkismiðilsins – á síðustu stundu að hætta við að birta fréttaskýringu áðurnefndrar Maríu í þættinum á dögunum. Eins og fram kom í fréttum á Vísi mun skýringin vera að Ingólfur Bjarni hafi ekki talið umfjöllun Maríu uppfylla gæðakröfur Kveiks og var Maríu í kjölfarið vikið úr ritstjórn þáttarins.

Það er sérstakt. Ekki síst vegna þess að gæðin á fréttaskýringum Kveiks gegnum tíðina hafa oftar en ekki verið lítil. Að lokum neyddist Ríkisútvarpið til þess að sýna fréttaskýringu Maríu í Kastljósi í síðustu viku.

Fréttaskýringin var betri en flest það efni sem boðið er upp á í Kveik. Hún fjallaði um hvernig borgarstjórn Reykjavíkur hefur fært milljarða króna í hendur olíufélaganna vegna samninga um að breyta bensínstöðvarlóðum í fasteignaþróunarreiti. Til þess að auka enn frekar á liðleikann í samningaviðræðum ákvað borgin enn fremur að fella niður öll innviðagjöld vegna þessa.

Þrátt fyrir að helstu efnisatriði málsins hafi verið kunn tókst Maríu að setja málið í auðskiljanlegt samhengi og var skýringin vel unnin. Eftirminnilegasta senan var án efa þegar Dagur B. Eggertsson gerir örvæntingarfulla tilraun í fundarherbergi í ráðhúsinu til að sýna fréttamanni einhver ákvæði í samningunum sem reyndist svo ekki þar að finna. Minnti þetta á bestu senur Ricky Gervais og Steve Carell úr bresku og bandarísku Office-þáttunum.

***

Erfitt er að sjá hvers vegna ritstjórn Kveiks taldi fréttaskýringuna ekki sýningarhæfa. Erfitt er að verjast þeirri hugsun að það hafi verið vegna þrýstings frá meirihlutanum í borginni. Að minnsta kosti vakna erfiðar spurningar. Að þeim var vikið í síðasta fjölmiðlapistli. Þar segir:

„Skiptir það einhverju máli að Stefán Eiríksson útvarpsstjóri kom þangað úr ráðhúsinu, þar sem hann var borgarritari -undir handarjaðri Dags og á honum nokkra skuld að gjalda? Eða á Ríkisútvarpið Reykjavíkurborg það að þakka að hafa fengið byggingarrétt undir fjölbýlishús á lóð sinni, en það fasteignabrask bjargaði RÚV fjárhagslega um hríð? Eða að RÚV fái umtalsverðar leigutekjur frá Reykjavíkurborg sem leigir hluta útvarpshússins í Efstaleiti? Nú eða að Einar Þorsteinsson borgarstjóri, sem þessa dagana vantar bæði fylgi og aura í borgarsjóð, er fyrrverandi samstarfsmaður Ingólfs Bjarna ritstjóra, Heiðars Arnar fréttastjóra og Stefáns útvarpsstjóra?”

***

Daginn eftir að fréttaskýringin var birt sendi meirihlutinn frá sér fréttatilkynningu um meintar staðreyndavillur í umfjöllun Ríkisútvarpsins. Þar var maldað í móinn og sagt að fjöldi íbúða á bensínstöðvarreitunum yrði ekki jafn mikill og að olíufélögin myndu ekkert endilega græða jafn mikið á samningunum og haldið var fram í þættinum.

Þetta er auðvitað tilraun til þess að drepa málinu á dreif og velta má fyrir sér hvort þessar mót-bárur hafi orðið til þess að Ingólfur Bjarni ákvað á síðustu stundu að birta ekki umfjöllun Maríu í Kveik? Þessar umvandanir breyta auðvitað engu um kjarna málsins: Borgin afhenti olíufélögunum mikil verðmæti með einu pennastriki og gekk svo lengra og felldi niður innviðagjöld af uppbyggingu á bensínstöðvarreitunum.

Athygli vakti að fjölmiðlar höfðu eftir Baldvini Þór Bergssyni að þessar umkvartanir væru nú komnar á borð skrifstofustjóra Ríkisútvarpsins. Hvers vegna fór það ekki á borð fréttastjóra, útvarpsstjóra eða annarra? Væntanlega vegna þess að allir eru vanhæfir vegna tengsla við aðila málsins.

Hvað um það? Það er einnig áhugavert að RÚV taki kvartanir borgarinnar svo föstum tökum. Í vetur helgaði Kveikur heilan þátt þeirri staðreynd að útflutningsfyrirtæki gera upp í öðrum myntum en krónum. Umfjöllunin var arfaslök og einkenndist af miklu þekkingarleysi. Fjölmargir gagnrýndu efnistökin. Bjarni Benediktsson, þáverandi fjármálaráðherra, var einn þeirra. Engar fréttir bárust af því hvort þær kvartanir hefðu borist á borð útvarpsstjóra, fréttastjóra eða þá launafulltrúa.

***

Bandaríkjamenn tala stundum um að menn bergi á göróttum Kool-Aid þegar þeir verða sanntrúaðir á delluna sem borin er fram fyrir þá. Óþarfi er að útskýra uppruna þessa orðtaks í samhengi þessara skrifa.

Dóra Björt Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Pírata, drekkur ansi mikið af Kool-Aid þessa dagana. Hún steig fram á ritvöllinn í síðustu viku og erindið var fyrst og fremst að vega að trúverðugleika Maríu Sigrúnar sem fréttamanns í stað þess að svara efnislega þeirri gagnrýni sem kom fram í fréttaskýringu hennar.

Grein Dóru er samsuða um hversu langt Íslendingar eru að baki „þroskuðum lýðræðisríkjum“ þegar kemur að faglegri fréttamennsku. Þegar kemur að efnis-atriðum málsins hefur Dóra lítið að segja annað en það að ekki sé víst að olíufélögin muni græða jafn mikið á samningunum og haldið hefur verið fram.

Þetta stenst ekki. Þegar fjárfestingakynningar olíufélaganna frá því að samið var við Reykjavíkurborg eru skoðaðar er augljóst að um mikilvæg verðmæti er að ræða fyrir þessi stóru félög. Þeir tala um mikil verðmæti og vilja hámarka hagnað af þessum lóðum fyrir hluthafa.

Skel hefur selt lóðarréttindi fyrir 2,9 milljarða króna en þeir seldu eignirnar inn í Reyr, félag sem 50% í þeirra eigu. Hagar hafa sett þessar eignir inn í Klasa, sem á að þróa lóðirnar áfram, en verðmætið þar er 3,9 milljarðar, því það fór sem ígildi hlutafjár í þessu félagi sem þeir eiga með Regin. Hér skal líka árétta að þeir innleystu 950 m.kr. hagnað þegar þeir seldu eignirnar inn í Klasa. Festi er búið að stofna sérfélagið Yrkir og það er alveg ljóst af öllum kynningum til fjárfesta að um mikil verðmæti er að ræða og vei þeim ef þeir eru að ýkja verðmætin. Einnig er augljóst að með því að selja þessar eignir inn í félög sem þeir eiga að hluta eða að fullu gera þeir ráð fyrir enn frekari hagnaði af þessum eignum.

***

Í þáttunum Spursmál hefur Stefán Einar tekið viðtal við frambjóðendur í forsetakosningunum. Þegar þetta er skrifað hefur hann fengið Baldur Þórhallsson, Höllu Hrund Logadóttur, Jón Gnarr og Katrínu Jakobsdóttur til sín í viðtal.

Óhætt er að segja að Stefán taki viðmælendur sína engum vettlingatökum. Nei, Stefán er aðgangsharður og vel undirbúinn spyrill og lætur viðmælendur sína ekki komast upp með að bjóða upp á marklaust málæði. Þáttastjórnandinn hefur sjálfur sagt að hann sæki sér fyrirmyndir í breska umræðuþætti á borð við Hard Talk og tekst honum það ágætlega upp.

Það sem skiptir máli í þessu samhengi er að Stefán Einar fer ekki í manngreinarálit á viðmælendum sínum. Þeir hafa allir þurft að svara erfiðum spurningum Stefáns. Það er fagnaðarefni, því forsetakosningarnar eru fyrst og fremst persónukjör og eiga kjósendur fulla heimtingu á að frambjóðendur geri grein fyrir skoðun sinni á umdeildum málum.

Þannig þurfti Katrín að svara óþægilegum spurningum um afstöðu sína gagnvart réttarhöldunum yfir Geir H. Haarde fyrir Landsrétti og önnur umdeild mál á pólitískum ferli sínum.

Baldur stjórnmálafræðiprófessor var -spurður út í hvernig hann kaus í þjóðaratkvæðagreiðslum um Icesave-samningana, en á þeim tíma var hann varaþingmaður Samfylkingarinnar og talaði fyrir því að þjóðin samþykkti afarsamningana umdeildu. Hann vill þó ekki kannast við það í dag og af viðtali Stefáns að dæma var hann varla með meðvitund þá daga sem þjóðaratkvæðagreiðslurnar fóru fram.

Stefán Einar sótti einnig hart að Höllu Hrund. Hún þurfti til að mynda að svara fyrir þá staðreynd að margir af helstu stuðningsmönnum hennar hafa þegið háar greiðslur fyrir þjónustu við Orkustofnun. Þetta voru bæði sjálfsagðar og eðlilegar spurningar sem eru byggðar á reikningum sem eru öllum aðgengi-legir á vefsvæðinu Opnir reikningar ríkisins.

***

Eigi að síður móðguðust margir yfir því að Stefán vogaði sér að spyrja forsetaframbjóðendur efnislegra spurninga um feril þeirra og álitamál. Þannig sárreiddist Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir fyrir hönd meðframbjóðanda sinna og skrifaði harðorða grein á Vísi um ósvífni Stefáns. Rithöfundurinn Kristín Helga Gunnarsdóttir hjó í sama knérunn og það gerði einnig sá sem skrifar dálkinn Orðið á götunni sem birtist á vefsvæðum DV og Eyjunnar.

Ástæðulaust er að rekja þau skrif frekar. En það er vissulega nöturlegt þegar áhrifafólk og þeir sem sitja fyrir í launsátri ráðast á blaðamenn fyrir það eitt að spyrja frambjóðendur réttmætra spurninga og láta þá ekki komast upp með neinn moðreyk í svörum.

Þessi skrif urðu til þess að Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður Blaðamannafélagsins, skrifaði eftirfarandi á samfélagsmiðil sinn:

„Ég lít á það sem skyldu mína að verja blaðamenn þegar að þeim er sótt með ómaklegum hætti og svara því að sjálfsögðu ákalli Stefáns Einars, jafnvel þótt hann sé ekki félagi í stéttarfélagi blaðamanna. Það er algjörlega ólíðandi að sótt sé að blaðamönnum vegna umfjöllunar þeirra. Enn ömurlegra er að sjá þegar ráðist er gegn fjölskyldum blaðamanna, líkt og þarna er gert.”

Hægt er að taka undir hvert orð.

Að lokum er rétt að taka fram að fjölmiðlarýnir er kunningi Stefán Einars og veit að hann er á köflum óalandi og óferjandi. Það breytir hins vegar ekki skoðun höfundar á ofangreindu.

Fjölmiðlarýni er einn af föstum dálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrir í blaðinu sem kom út 15. maí 2024