Skoðanakannanir sýna að Katrín Jakobsdóttir sækir umtalsvert fylgi til borgaralegra sinnaðra kjósenda sem eru hlynntir athafnafrelsi og frjálsum markaði í forsetakosningunum.

Það kemur Tý svo sem ekki spánskt fyrir sjónir og telur hann að meðfædd íhaldssemi og krafa um formfestu og stöðugleika skýri þennan stuðning.

Í ljósi þessa þykir Tý umhugsunarvert hvers vegna ummæli Katrínar um beitingu málskotsréttarins í kappræðum frambjóðendanna í Ríkisútvarpinu á dögunum hafa ekki fengið meiri athygli. Þar sagði Katrín að hún myndi beita málskotsréttinum ef ráðist yrði í sölu á Landsvirkjun.

***

Nú tala fáir fyrir því að ríkið selji Landsvirkjun í heild sinni. En margir tala fyrir þeirri hugmynd að ríkið selji minnihluta í Landsvirkjun til íslenskra lífeyrissjóða. Það er margt sem mælir með þessari hugmynd. Þetta væri góð fjárfesting fyrir íslenska lífeyrissjóði og þar af leiðandi fyrir almenning á Íslandi.

Á sama tíma myndi ríkið losa um verulegt eigið fé sem er bundið í eignarhluta í Landsvirkjun. Fordæmi eru fyrir fjölbreytni í eigendahóp Landsvirkjunar og aðkoma lífeyrissjóða ætti ekki að valda áhyggjum að með því væri stigið fyrsta skrefið í átt að allsherjareinkavæðingu.

Frændur okkar í Danmörku og Noregi hafa þennan háttinn á. Ríkið á kjölfestuhlut í Norsk Hydro annars vegar og Örsted hins vegar (sem Danir illu heilli breyttu nafni félagsins úr Dong fyrir nokkrum árum).

***

Rétt er að benda á að löggjafinn hefur nú þegar opnað fyrir eignarhald lífeyrissjóða að hluta á veitufyrirtækjum í raforkukerfinu – starfsemi sem er mikilvægari hvað varðar samfélagsþjónustu en vinnsla og sala raforku.

Týr telur brýnt að Katrín taki af öll tvímæli hvort hún myndi beita sér gegn slíkum framfarasporum ef hún ber sigur úr býtum í forsetakosningunum og hvort hún myndi virkilega beita málskotsréttinum í þeirri baráttu.

Týr er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 29. maí.