Tilkoma spunagreindar (e. generative artificial intelligence, GenAI) hefur stóraukið almenna vitneskju um möguleika gervigreindar (e. artificial intelligence) og kollvarpað væntingum um hraða, eðli og umfang sjálfvirknivæðingar. Í fyrsta sinn getur almenningur nýtt gervigreind til þess að greina hrágögn, skapa texta, hanna myndir og framleiða myndbönd á tiltölulega notendavænan og einfaldan hátt. Þessi útvíkkun á notkunarmöguleikum gervigreindar mun hafa víðtæk samfélagsleg og efnahagsleg áhrif.

Við trúum því að Ísland eigi að taka þessari tækni fagnandi og að marka sér skýra stefnu, hlúa að uppbyggingu sérhæfðs mannauðs og innleiða lausnir á þessu sviði eins fljótt og auðið er. Þannig má leggja grunninn að næstu bylgju stafrænnar væðingar á Íslandi.

Til lengri tíma gætu efnahagsleg áhrif spunagreindar numið ~6-8.000 milljörðum dollara á heimsvísu samkvæmt spám McKinsey Global Institute (MGI). Fyrir Ísland gætu áhrifin numið ~80-140 ma.kr. á næstu 10-15 árum, eða sem nemur 2-4% af landsframleiðslu. Mest verða áhrifin í tæknigeiranum (t.d. hugbúnaðarþróun) og í opinbera geiranum (t.d. heilbrigðis- og menntakerfinu).

Spunagreind er ólík hefðbundinni sjálfvirknivæðingu þar sem henni er ekki ætlað að leysa líkamleg verkefni, líkt og t.d. þjarkar gera í iðnaði, heldur frekar þekkingartengd verkefni, t.d. sérhæfða heilbrigðisþjónustu og kennslustörf. Samkvæmt greiningu MGI þá hefur tilkoma spunagreindar t.a.m. tvöfaldað mögulega sjálfvirknivæðingu í störfum sem krefjast meistara- eða doktorsprófs, úr ~30% verkefna upp í ~60% verkefna. Á sama tíma eru möguleg áhrif spunagreindar á sjálfvirknivæðingu verkefna sem krefjast eingöngu grunn- eða menntaskólaprófs mun mildari, eða hækkun úr ~55% yfir í ~65% verkefna.

Ísland stendur vel að vígi til frekari hagnýtingar gervigreindar þar sem þjóðin er vel menntuð, með sterka tækniinnviði og stuttar boðleiðir. Þá leiðir smæð þjóðarinnar til lægra flækjustigs við hönnun og innleiðingu lausna, t.d. vegna einfaldari gagnagrunna og færri stofnana. Á móti vegur minna aðgengi að sérhæfðu vinnuafli, en hlutfall tæknistarfa er talsvert lægra á Íslandi samanborið við þau ríki sem við berum okkur helst saman við.

Tækifæri til hagnýtingar eru ekki síst til staðar innan opinbera þjónustugeirans. Mikið af þeirri þjónustu sem hið opinbera veitir krefst sérfræðiþekkingar en er á sama tíma tiltölulega stöðluð. Sem dæmi má nefna þjónustu símavera, svör við fyrirspurnum til stofnana, greiningu á líðan starfsfólks, gagnvirka fjarkennslu, stuðning við heimanám, samkeyrslu sjúkraskrár við fyrirliggjandi þekkingu fræðasamfélagsins og svo mætti lengi telja. Hagnýtingin getur verið fólgin í aukinni skilvirkni en ekki síður í auknum gæðum þjónustu.

Að lokum er vert að nefna framlag spunagreindar til málverndar. Öfugt við ýmsa anga tækniþróunar getur spunagreind styrkt framtíðargrunn íslensku og greitt fleirum leiðina inn í hinn stafræna heim. Íslenska var fyrsta tungumálið sem ChatGPT, skapandi mállíkan fyrirtækisins OpenAI, lærði að tala á eftir enskunni. Tækninni fer svo hratt fram að nýjustu útgáfu líkansins ferst betur úr hendi að leysa verkefni á íslensku en fyrra líkan gerði á ensku. spunagreind myndar því trausta brú milli tækninnar og tungumálsins.

Það er útséð að spunagreind býður uppá stór tækifæri til framfara sem við hvetjum stjórnvöld, fyrirtæki, stjórnvöld og einstaklinga til að nýta eftir fremsta megni. Framtíðin er björt, sérstaklega ef við sjáum til þess að ljósin séu kveikt.

Höfundar eru starfsmenn McKinsey & Company á Íslandi og á Norðurlöndum.

Greinin birtist fyrst í sérblaði Viðskiptablaðsins um Viðskiptaþing.