Fasteignafélagið Reginn þurfti að bíta í það súra epli að falla frá fyrirhugaðri yfirtöku á Eik. Hluthafar Regins fengu þó ekki mikinn tíma til að svekkja sig á þessu, því skömmu síðar tilkynnti Reginn um að nafni félagsins yrði breytt í Heimar.

Félagið segir nafninu ætlað að styðja við stefnu þess sem feli í sér „að búa til eftirsótta borgarkjarna í samræmi við aukna umhverfisvitund, breyttar samgöngur, sjálfbærni og ný viðhorf“.

Hrafnarnir trúa þessari skýringu mátulega mikið og velta fyrir sér hvort upphaflega hafi staðið til að þetta yrði nafn sameinaðs félags. Er ljóst var að yfirtakan gengi ekki í gegn hafi stjórnendur Regins talið ótækt að kostnaðarsöm vinna við nýtt nafn og vörumerki færi fyrir bí.

Einnig má ætla að forsvarsmenn Regins hafi verið langþreyttir á að vera ruglað saman við sinn helsta keppinaut, Reiti.

Hver sem raunveruleg skýring nafnabreytingarinnar er telja hrafnarnir stærstu tíðindin þó felast í því að Halldór Benjamín Þorbergsson stendur frammi fyrir stórri breytingu. Hann var áður þekktur undir listamannsnafninu Halldór Benjamín en mun héðan í frá vera þekktur sem Halldór í Heimum.

Huginn og Muninn er einn af föstu skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í Viðskiptablaðinu.