Nú þegar tekur að vora og Veitur hafa af einhverjum ástæðum ákveðið að loka tveimur leiðum í hverfið mitt, neyðist ég enn frekar til að leggja bílnum og nota virka ferðamáta. Ég kvarta ekki undan því, enda er ég svo heppin að flest sem ég sæki er í göngu- eða hjólafæri.

Nú þegar tekur að vora og Veitur hafa af einhverjum ástæðum ákveðið að loka tveimur leiðum í hverfið mitt, neyðist ég enn frekar til að leggja bílnum og nota virka ferðamáta. Ég kvarta ekki undan því, enda er ég svo heppin að flest sem ég sæki er í göngu- eða hjólafæri.

Á vorin verður allt skemmtilegra og betra. Á leið til vinnu áðan sá ég tvo menn við byggingavinnu hlusta á Sólarsamba á hæsta styrk, börn renna sér í rennibraut, fólk í fæðingarorlofi kjá framan í barn í vagni, kisu velta sér í sólarblett á gangsétt og reyndar eina rottu hlaupa yfir bílaplan í Sóltúni. Blóm eru farin að springa út og allt er að verða grænt, sólin er hátt á lofti og það er hægt að skilja úlpuna eftir heima.

Átakið hjólað í vinnuna er í fullum gangi og það er ekki margt sem gleður mig meira en að sjá alvöru umferð af hjólandi fólki á stígunum. Það minnir mig á námsárin í Kaupmannahöfn. Hjólreiðar eru hagkvæmasti ferðamátinn, bæði fyrir þau sem hjóla en líka innviðina. Taka lítið pláss og eru ódýrir í framkvæmd í samanburði við allt sem er gert fyrir ökutæki.

Allar rannsóknir sýna að fólk sem hjólar til vinnu er hamingjusamast á leið sinni. Næst hamingjusamast er fólkið sem gengur. Boris Johnson benti líka á að fólk sem hjólar léttist um 0,75 kg meira á ári en þau sem keyra. Búbót á tímum þar sem megrunarlyf tröllríða öllu.

Svo er auðvitað ekkert betra en að fara hratt yfir, upplifa nærumhverfi sitt, ná tengingu við annað fólk, fá vind í hárið og smá sól í andlitið og sinnið.