Ársskýrsla Hagsmunasamtaka heimilanna er að mati hrafnanna mjög vanmetið lesefni og skemmta þeir sér konunglega um þetta leyti á ári hverju er ársskýrsla síðasta árs lítur dagsins ljós á heimasíðu samtakanna.

Megininntak skýrslnanna er yfirleitt ávarp formannsins Ásthildar Lóu Þórsdóttur þar sem hún hælir sjálfri sér og samtökunum á hvert reipi. Engin breyting var á því í nýrri ársskýrslu fyrir árið 2023 og fullyrðir formaðurinn m.a. að samtökin standi sig mun betur en umboðsmaður skuldara í ráðgjöf til lántakenda.

Það sem hröfnunum þótti þó áhugaverðast í ársskýrslunni er að samtökin hækka félagsgjöldin á þessu ári, úr 4.900 krónum á ári í 5.990 krónur, eða um 20%. Alls greiddu 1.688 manns félagsgjöld til samtakanna í fyrra en þau voru rekin með 4,5 milljóna króna tapi. Tapið skýrist einkum af því að ráðinn var starfsmaður í fullt starf til samtakanna.

Verður að teljast ansi kaldhæðnislegt að formaður samtakanna, sem m.a. hefur ítrekað hneykslast á gjaldtöku bankanna, skuli sjálf hækka félagsgjöldin svo verulega. Auk þess lét besti vinur Ásthildar, Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, öllum illum látum er sveitarfélög boðuðu gjaldskrárhækkanir undir lok síðasta árs.

Huginn og Muninn er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í Viðskiptablaðinu.