Á Neytendastofu starfa tíu manns sem þiggja á annað hundrað milljónir í laun frá skattgreiðendum á hverju ári. Án þessara fjárheimilda væri staða neytenda á Íslandi í fullkominni óvissu.

Velkist einhver í vafa um mikilvægi Neytendastofu í íslensku samfélagi þá bendir Týr hinum sömu á að skoða ársskýrslu stofnunarinnar. Þar kemur fram að helstu verkefni stofnunarinnar í fyrra hafi meðal annars falist í að gera níu athugasemdir við heimasíður einstaklinga „þar sem skilmálar voru ekki í samræmi við lög“.

Fimmtíu athugasemdir voru gerðar við Instagram síður áhrifavalda sem gerðu ekki nægilega greinargóð skil á auglýstu efni. En alvarlegustu brotin sem komu á borð Neytendastofu voru vafalaust ásakanir um brot á fánalögum. Tvö slík mál voru til úrlausnar hjá Neytendastofu í fyrra. Týr efast ekki um að Þrúðmar Freyr Jónsson á Höfn í Hornafirði hugsi sig tvisvar um áður en hann splæsir íslenska fánanum á mynd með Sörunum sem hann selur á Facebook-síðunni That‘s One Tasty Meatball á aðventunni.

Auk þess greip Neytendastofa inn í þegar ljóst var að Gerður Arinbjarnardóttir vogaði sér að stilla upp gleðigöndrum út um allt er hún auglýsti heimili sitt til sölu. Þá varð Tý hugsað til orða Winston gamla Churchill: Aldrei hafa svo margir átt svo mikið fáum að þakka.

Í ljósi þess grundvallarhlutverks sem Neytendastofa gegnir í íslensku samfélagi hefur Lilja Alfreðsdóttir, ráðherra íslenska dansflokksins og rafrænna skilríkja, leitað til stofnunarinnar til að hindra atlögu almennings gegn íslenskri tungu. Búið er að undirrita viljayfirlýsingu milli ráðuneytis Lilju og Neytendastofu um að síðarnefnda stofnunin taki við kvörtunum fólks yfir auglýsingum sem eru hvorki í bundnu máli né ortar með fornyrðislagi.

Þá kemur sér vel að einn af tíu starfsmönnum Neytendastofu sinnir starfi móttökuritara.

Týr er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins.