Blaðamönnum á fréttamiðlinum Vísi þykir ákaflega fréttnæmt ef Gunnar Smári Egilsson, áhrifavaldur á samfélagsmiðlum og stofnandi Sósíalistaflokksins þann síðari, hefur skoðun á einhverju áberandi á Vísi. Eins og flestir vita hefur Gunnar Smári skoðanir á öllu þannig að fréttir af skoðunum hans eru ansi áberandi á Vísi.

Á þriðjudag birtist fréttaskýring á Vísi og virðist tilefni hennar hafa verið að Gunnar Smári birti aðsenda grein á miðlinum fyrr um daginn. Í þeirri grein gerist Gunnar sekur um ýmsar rangfærslur um skattkerfið í þeim tilgangi að draga fram mynd af meintu ranglæti á milli þeirra efnuðu og þeirra sem minna hafa milli handanna í skattkerfinu. Í stuttu máli felst ranglætið í því að þeir efnuðu borga 22% fjármagnstekjuskatt en ekki 46% skatt eins og launþegar. Bæði Ólafur Björn Sverrisson, sem skrifar fréttina, og Gunnar Smári skauta hins vegar alfarið fram hjá þeirri staðreynd að flestir þeir sem hafa fjármagnstekjur sem einhverju máli skipta eru með eignir sínar í félögum sem borga svo tekjuskatt af hagnaði þegar vel árar. Samanlagt hlutfall þeirrar skattheimtu og fjármagnstekjuskattsins er því hærra en neðsta tekjuskattsþrepið og litlu lægra en milliþrepið.

Fréttaskýringin Vísis leggur einnig út frá frétt Stundarinnar um skattlagningu samlagsfélaga. Í frétt Vísis segir:

Algengt sé meðal listamanna og annarra þjóðþekktra einstaklinga, að stofna svokölluð samlagsfélög utan um starfsemi sína. Páll Óskar, Bríet og Herra Hnetusmjör eru tekin sem dæmi en öll eru þau sögð vera með laun sem nema um nokkrum hundruðum þúsunda. Öll eigi þau sameiginlegt að reka samlagsfélög utan um starfsemi sína, sem velta tugum milljónum. Tekjur í gegnum slík félög birtast aldrei á hefðbundnum tekjulistum, nema þær séu greiddar út sem hefðbundnar launatekjur. Fyrir arðgreiðslur frá slíkum félögum er einungis greiddur fjármagnstekjuskattur, 22 prósent, í stað hefðbundins launtekjuskatts sem er á bilinu 31-46 prósent.”

Hér er einfaldlega farið með rangt mál. Þær tekjur sem renna inn í samlagsfélög eru ekki háðar útgreiðslu arðs heldur getur eigandi félagsins ráðstafað þeim hvenær sem er. Á móti kemur að eigandinn er persónulega ábyrgur fyrir öllum skuldum þess. Þau borga 37,6% tekjuskatt.

Ritstjórnin lét sér þetta ekki nægja heldur ákvað að bíta
höfuðið af skömminni með laufléttri „leiðröngningu“. Var þess getið að í fyrri útgáfu hefði verið fullyrt að samlagsfélög greiddu aðeins 22% fjármagnstekjuskatt, sem að sjálfsögðu er helbert kjaftæði. Leiðréttingin fólst í því að fullyrða að af tekjum samlagsfélaga greiddist 20% tekjuskattur og síðan 22% fjármagnstekjuskattur. Það er auðvitað rakin vitleysa líka og þarf ekki annað en að glugga í lög um tekjuskatt til að komast að hinu rétta.

Svona augljósar staðreyndar-villur eru ekki efnilegar vilji fjölmiðill láta taka mark á sér. En að sama skapi er það ákveðið afrek að í leiðréttingunni takist að innihalda staðreyndavillur eins og sjá má af lestrinum hérna fyrir ofan.

Fjölmiðlarýni er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Pistilinn birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út 25. ágúst 2022.