Í kvöldfréttatíma Ríkisútvarpsins á föstudag voru Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sakaðar um ósannsögli. Fréttin fjallaði um með hvaða hætti Norðurlandaþjóðirnar aðstoða Palestínumenn á Gaza-svæðinu og vísað til orða Guðrúnar um að sú aðstoð væri með öðrum hætti en komið hefur á daginn.

Það kom á daginn að ríkisfjölmiðillinn og Dagný Hulda Erlendsdóttir fréttamaður fóru með staðlausa stafi, mjög greinilega vegna ákefðar fréttamannsins ef ekki fréttastofunnar um málstaðinn. Fréttin vísaði til orða sem Guðrún lét falla í samtali við Morgunblaðið rétt fyrir áramót. Framsetningin var ónákvæm að mati ráðherrans þannig að hún skýrði mál sitt frekar fyrir Morgunblaðinu nokkrum dögum síðar.

Guðrún benti á þetta á Facebook-síðu sinni og óskaði eftir því að Ríkisútvarpið leiðrétti fréttina. En hver eru viðbrögð RÚV? Jú, sami fréttamaður skrifar nýja frétt: Svo óljósa að lesandanum fyrirgefst þó að hann haldi að ráðherrarnir hafi verið að játa á sig sakir! Tónninn er svolítið sá að eitthvað hafi breyst við nýframkomnar upplýsingar. Þær voru þó ekki nýrri en svo að þær höfðu birst í öðrum miðlum, en farið fram hjá fréttahauknum sem ugglaust verður rannsóknarblaðamaður áður en haninn galar þrisvar.

Af hverju leiðrétti RÚV ekki einfaldlega fréttina fullum fetum, dró hana til baka og bað áhorfendur og ráðherrana forláts? Er það sannfæringin um að hafa samt rétt
fyrir sér, jafnvel þegar þau hafa rangt fyrir sér? Eða bara þetta gamla hjá RÚV, að geta aldrei leiðrétt rangar fréttir, heldur í mesta lagi segja aðra örlítið réttari og láta sem málinu sé lokið?

Í ljósi þessa var kyndugt að lesa frétt á Samstöðinni á mánudag. Þar er haft eftir Heiðari Erni Sigurfinnssyni, fréttastjóra RÚV, að athugasemdir Guðrúnar breyti ekki því sem kom fram í fréttinni að íslensk stjórnvöld aðstoði ekki við fjölskyldusameiningar frá Gaza með sama hætti og stjórnvöld á hinum Norðurlöndunum. Gott og vel en fréttin snérist ekki eingöngu um það atriði. Hún snérist um ásakanir RÚV um ósannsögli ráðherranna.

***

Sem kunnugt er þá eru uppi ásakanir á hendur starfsmönnum Flóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna í Palestínu (UNRWA) um að þeir hafi tekið þátt í skipulagningu hryðjuverkaárásar Hamas samtakanna á Ísrael fyrr í vetur. Þessar ásakanir hafa orðið til þess að stærstu fjárhagslegu bakhjarlar hjálparsamtakanna hafa fryst greiðslur til þeirra þar til málið hefur verið kannað ofan í kjölinn.

Íslensk stjórnvöld skipuðu sér í þennan hóp ásamt Bandaríkjunum, Þýskalandi, Bretlandi, Ítalíu og sjálfu Evrópusambandinu svo einhver dæmi séu tekin. Þetta vekur ekki mikla furðu enda er alvanalegt að Ísland skipi sér í flokk með vestrænum lýðræðisríkjum í alþjóðamálum. Að sama skapi er ekki erfitt að hafa skilning á þeirri ákvörðun að frysta greiðslur til stofnunarinnar meðan rannsókn fer fram. Í flestum tilfellum halda þessi ríki áfram stuðningi við hjálparstarf í Palestínu þó svo að greiðslur renni ekki tímabundið til þessarar ákveðnu stofnunar.

Samt sem áður hafa ákveðnir fjölmiðlar reynt að gera þessa ákvörðun tortryggilega. Hún er það ekki þegar litið er til íslenskrar utanríkisstefnu í sögulegu samhengi. Það var þannig æði sérstakt að hlusta á Guðrúnu Sóleyju Gestsdóttur stjórna Kastljósinu á fimmtudaginn í síðustu viku. Þar ræddi hún við Birgi Þórarinsson þingmann og Láru Jónasdóttir alþjóðasamskiptafræðing um UNRWA og ákvörðun íslenskra stjórnvalda.

Það var ekkert rætt í hvaða alþjóðlega samhengi ákvörðun íslenskra stjórnvalda var tekin. Aftur á móti var því ranglega haldið fram í þættinum að Evrópusambandið hefði ekki ákveðið að endurskoða greiðslur sínar til samtakanna. Svo spurði þáttarstjórnandi undir lokin hvort þessi ákvörðun íslenskra stjórnvalda liti ekki illa út í augum umheimsins. Þarna er talað eins og að íslensk stjórnvöld séu á allt annarri vegferð en helstu vina- og bandaþjóðir meðal vestrænna lýðræðisríkja.

Það sama var uppi á teningnum í útvarpsþættinum Vikulokunum á Rás 1 á laugardag. Þar spurði Sunna Valgerðardóttir þáttarstjórnandi Hildi Sverrisdóttur, þingflokksformann Sjálfstæðisflokksins, hvort ákvörðunin um að frysta greiðslurnar væri til marks um einhver þáttaskil í áherslum flokksins í utanríkismálum. Þá spurði hún hvort þessi ákvörðun liti ekki illa út á pappír – á pappír hverra var ekki ljóstrað upp í samtalinu.

Að lokum er rétt að taka fram að Bandaríkin og aðildarríki Evrópusambandsins greiða um 75% af rekstrarkostnaði UNRWA og þar af leiðandi skiptir frysting greiðslna verulegu máli fyrir starf samtakanna. Ætti ákvörðunin um að fresta greiðslunum fyrst og fremst að vera til marks um alvarleika þeirra ásakana sem hafa komið fram.***

Meira um Ríkisútvarpið og ástandið á Gaza. Í Speglinum á mánudag í síðustu viku fékk Ævar Örn Jósepsson fréttamaður yfirvegaða og hlutlausa úttekt hjá Sveini Rúnari Haukssyni stjórnarmanni í félaginu Ísland-Palestínu á stöðu mála eftir að „nokkur ríki“ hefðu ákveðið að frysta greiðslur til UNRWA og „Alþjóðaglæpadómstóllinn í Haag ákvað að taka til efnislegrar meðferðar kæru Suður-Afríku á hendur Ísraelsríki fyrir brot á alþjóðalögum um þjóðarmorð“.

Það er kannski í anda kappsins sem hleypur í kinn sumra fréttamanna þegar kemur að ástandinu fyrir botni Miðjarðarhafs að þetta hefur ekki enn verið leiðrétt. Alþjóðaglæpadómstóllinn í Haag hefur ekki tekið neinar kærur frá Suður-Afríkumönnum á hendur Ísraelsmönnum til umfjöllunar. Það hefur hins vegar Alþjóðadómstóllinn, sem einnig er staðsettur í Haag, hins vegar gert.

Þetta er brot úr fjölmiðlarýni Viðskiptablaðsins sem birtist í blaðinu sem kom út 7. febrúar. Greinina má lesa í heild sinni hér.