Óðinn fjallaði í fyrri hluta pistilsins í Viðskiptablaðinu í gær um pilsfaldskapítalismann í læknastétt. Eftir lesturinn hljóta einhverjir að velta fyrir sér hvort þessi ömurlega tegund af kapítalisma sé kennd á sérstökum námskeiðum í læknadeild.

Í seinnihlutanum er fjallað um eitthvert mesta grín íslensk hlutabréfamarkaðar sem sent út af Marel aðfaranótt síðasta föstudags.

Þar var á ferð „óskuldbindandi viljayfirlýsing varðandi mögulegt tilboð í öll hlutabréf í félaginu.“

Óðinn veit ekki um neitt sem settir hafa verið eins margir fyrirvarar við á íslenskri tungu, og eru þá yfirlýsingar framsóknarmanna í aðdraganda allra kosninga frá stofnun flokksins þann 16. desember 1916 meðtaldar.

Hér á eftir er stutt brot úr pistili Óðins en hann má lesa í fullri lengd hér.

Pilsfaldskapítalismi í læknastétt og viljayfirlýsing um að hækka hlutabréfaverð

Fátt gleður Óðinn meira en þegar hann sér fólk og fyrirtæki hagnast mikið. Skilyrði gleðinnar eru reyndar að fólkið geri það á markaði, þar sem samkeppni er, og alls ekki í skjóli ríkisins.

Viðskiptablaðið var með ágæta umfjöllun um samlagshlutafélögí síðustu viku. Þar kom fram að gríðarlegur hagnaður er af mörgum félögum sem starfa í greinum sem njóta lögverndar ríkisins. Óðinn ætlar ekki að gera þetta persónulegt og nefna einstaka persónur.

Forsíða Viðskiptablaðsins í síðustu viku.

Í krafti stöðu sinnar hafa læknar og tannlæknar um áratugaskeið verndað sjálfa sig persónulega með því að takmarka fjölda þeirra sem bæði getað menntað sig í viðkomandi sérgrein, og ekki síður þá sem koma erlendis frá og sækja um læknaleyfi. Sömu sögu er að segja um margar aðrar starfsstéttir, til dæmis hjúkrunarfræðinga.

***

Sami fjöldi en íbúum fjölgað um 57%

Óðinn fjallaði um fjöldatakmarkanir í tannlæknadeild í pistli fyrir tæpum tveimur árum. Þar kom fram að fjöldi nemenda sem gátu hafið námið hefur verið óbreyttur frá 1983. Átta talsins. Á sama tíma fjölgaði íbúum á Íslandi úr 235 þúsund í 369 þúsund eða um 57%.

Óðinn benti á í pistlinum að árið 2019 skrifuðu þrír tannlæknar, þeir Börkur Thoroddsen, Svend Richter og Sigfús Þór Elíasson, grein í Tannlæknablaðið. Þeir skrifuðu grein í blaðið um sama efni árið 2008. Tveir þeirra eru fyrrum starfsmenn tannlæknadeildar, dósent og prófessor. Í greininni sögðu þeir meðal annars:

Með svipuðum fjölda tannlækna frá Tannlæknadeild Háskóla Íslands og í ljósi verulegrar aukningar á þátttöku hins opinbera í tannlækningakostnaði aldraðra og öryrkja frá 1. september 2018 og nánast fríum tannlækningakostnaði barna sem tók að fullu gildi 1. janúar 2018, munu verkefni íslenskra tannlækna fara vaxandi.
Fleiri íbúar verða á hvern tannlækni hér á landi en í Danmörku, Noregi og Svíþjóð.
Tannlækningar eldri borgara er og verður verkefni sem takast verður á við. Tannvernd tenntra, lasburða aldraðra einstaklinga inni á vistheimilum verður krefjandi og tímafrekt viðfangsefni. Telja verður að atvinnuhorfur tannlækna séu því góðar.

Tannlæknir að bora eftir gulli.

Þessir sömu menn vanmátu þörf á tannlæknum á Íslandi svo mikið í greininni árið 2008 að tugi tannlækna vantar nú á markaðinn. Þeir sem njóta góðs af því eru starfandi tannlæknar sem græða gríðarlegar í skjóli skortsins, sem stéttin bjó sjálf til innan ríkisrekna háskólans.

***

Tannlæknar brosa hringinn

Á lista Viðskiptablaðsins er tannlæknastofa sem hagnaðist um 101 milljón króna en velta félaganna fæst ekki uppgefin. Á heimasíðu stofunnar kemur hins vegar fram að aðeins 3 tannlæknar starfa þar. Hagnaður hvern tannlækni er samkvæmt þessu 33 milljónir króna, eða 2,75 milljónir króna á mánuði.

Hvernig fara tannlæknarnir að því að ná svo óskaplegum hagnaði? Af hverju eru Marel, Icelandair eða Eimskip ekki að nýta sér krafta slíkra meistara í viðskiptum?

Pistill Óðins birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út í gær. Áskrifendur geta lesið pistilinn í fullri lengd hér.