Eins og hrafnarnir fjölluðu um fyrir tveimur vikum þá var öllu tjaldað til á dögunum þegar 1.700 metra göngustígur var vígður í Mosfellsbæ á dögunum.Ekki var minna um lúðrablástur þegar átaksverkefni um að grunnskólanemar labbi í skólann var sett í vikunni.

Athöfnin fór fram í Melaskóla og minnti um margt setningu flokksþinga í ráðstjórnarríkjunum sálugu. Þrír ráðherrar, hvorki meira né minna, ávörpuðu grunnskólanemendur og hvöttu þá til að labba í skólann: Það voru þeir Ásmundur Daði Einarsson barnamálaráðherra, Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra.

Skipuleggjendum var ljóst að þetta var nemendum ekki nóg hvatning þannig að Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri og Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Samgöngustofu, voru líka kölluð til.

Athöfnin hófst á miðvikudagsmorgun og stóð enn yfir þegar blaðið fór í prentun.

Huginn & Muninn er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Pistilinn birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út 8. september 2022.