Það eru engar fréttir að margt á vinnumarkaði er að breytast. Störf eru að hverfa og önnur að verða til. Einstaklingar hafa orðið aðrar hugmyndir um hvernig, hvar og hvenær þau vilja vinna og hefur þetta áhrif á ráðningar og mönnun vinnustaða.
Of fáar eða of margar umsóknir?
Fréttir hafa birst frá íslenskum vinnustöðum sem auglýsa eftir fólki en fá færri umsóknir en búist var við og eru vísbendingar um að fólk sæki ekki eins um störf og áður.
Linkedin hefur birt tölur úr sínum rannsóknum sem sýna að á hverjum tíma eru um 70% vinnuafls þokkalega sátt í starfi og því ekki í virkri atvinnuleit, en 90% þess hóps samt til í að heyra af spennandi tækifærum. Það er því hópur sem gæti verið áhugavert fyrir vinnustaði að komast í samband við.
Einnig heyrast sögur af vinnustöðum sem auglýsa og fá mikið magn af umsóknum sem verja þarf miklum tíma í að lesa í gegnum og leggja mat á en svo uppfyllir jafnvel lítið brot umsækjenda auglýstar kröfur eða væntingar vinnustaðarins.
Það er því ljóst að hegðun fólks á vinnumarkaði er að breytast og þau sem sinna ráðningum þurfa að laga sig að því, enda hefur góð mönnun áhrif á árangur vinnustaða, og í ljósi framangreinds þurfa ráðningar og ráðningaraðferðir að taka breytingum.
Ný rannsókn um breytingar á vinnumarkaði
Linkedin gerði nýlega stóra alþjóðlega rannsókn sem byggði á viðtölum við tuga alþjóðlegra stjórnenda, könnun meðal þúsunda sem starfa við ráðningar og á gögnum úr gagnagrunni Linkedin.
Í niðurstöðunum kemur fram að þau sem starfa við ráðningar séu í lykilhlutverki á vinnumarkaði og fyrir einstaka vinnustaði. Þau geti verið og eigi að vera stefnumótandi, með góða aðlögunarhæfni og vel tengd því sem vinnuafl vill, hvaða hæfni það býr yfir og hvernig starfsferill þeirra getur þróast með vinnustöðum.
Í skýrslunni eru settar fram 17 spár sem gott getur verið fyrir stjórnendur og þau sem starfa við ráðningar að vera meðvituð um, til undirbúnings breyttri framtíð, og er hér stutt samantekt á þeim.
Ímynd vinnustaða (e. Employer Branding) og samkeppni um fólk
Þó eitthvað dragi úr ráðningum samhliða efnahagslegri óvissu er samkeppni um gott fólk ekki að minnka. Til að ná eða viðhalda samkeppnishæfni um hæfasta fólkið þurfa vinnustaðir að geta mætt á hverjum tíma því sem fólk hefur væntingar um. Hvað vinnustaðir standa fyrir í hugum fólks þarf því stöðugt að meta og endurskoða.
Linkedin skoðar mánaðarlega hvaða þætti fólk horfir helst á þegar það íhugar nýtt starf. Núna eru það laun, jafnvægi vinnu og einkalífs, sveigjanlegt vinnufyrirkomulag, þróun í starfi og aukning hæfni.
Það sem er að hækka hraðast er sveigjanlegt vinnufyrirkomulag, laun, styðjandi yfirmenn, skýr markmið frá stjórnendum og starfsöryggi.
Hæfni vinnuafls
Ráðningar munu fara að snúast mun meira um þá hæfni sem fólk býr yfir, umfram prófgráður eða árafjölda í starfsreynslu. Það skiptir máli að vera með á hreinu hvaða hæfni þarf fyrir hvert starf eða verkefni, einnig hvernig staðfesta má eða sannreyna þá hæfniþætti sem fólk segist hafa yfir að ráða. Þessi nálgun eykur þann fjölda sem velja má úr til að ráða.
Áhersla á fjölmenningu og inngildingu mun halda áfram að vera mikil. Bæði skiptir það vinnuafl miklu máli, ekki síst yngstu kynslóðina á vinnumarkaðnum, og hefur einnig góð áhrif á rekstur vinnustaða.
Tæknin nýtt til að bæta ráðningar
Gervigreind má nýta til að minnka handavinnu í ráðningum, draga úr kostnaði og stytta tímann sem hver ráðning tekur. Hafa þá meiri tíma til að eiga samskipti við mögulegt starfsfólk, hlusta og skilja hvað skiptir það máli.
Tæknina má einnig nýta til að vinna gegn mannlegum hugsanavillum (e. Bias) sem oft verða til þess að vinnustaðir ráða ekki hæft og gott fólk.
Framtíðin í ráðningum liggur hjá þeim sem vilja endurskoða nálgun við ráðningar og ráðningaraðferðir.
Höfundur er stjórnunarráðgjafi, stjórnendaþjálfi og annar stofnenda Opus Futura.