Nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins, með Birgi Þórarinsson í fararbroddi, vilja að forsætisráðherra skipi nefnd til að undirbúa viðburð til minningar um Tyrkjaránið sem fram færi á 400 ára afmæli atburðarins árið 2027.

Þingmennirnir eru greinilega innblásnir af nýrri stefnu formanns Blaðamannafélags Íslands, Sigríðar Daggar Auðunsdóttur, því þeir vilja að nefndin standi einnig fyrir málþingi og stofnun fræðslusjóðs auk þess að festa kaup á minnisvarða.

Loks leggja þingmennirnir til að Íslensk erfðagreining rannsaki „ummerki ránsins í erfðamengi Íslendinga á Íslandi og finna blandaða afkomendur Íslendinga í Alsír“.

Áætlað er að herlegheitin kosti 40 milljónir króna.

Hrafnarnir eru að sjálfsögðu ekki mótfallnir því að þessara tímamóta sé minnst í formi viðburðar í Vestmannaeyjum þar sem bæjarbúar fá minnisvarða að gjöf. Hvort það þurfi heila nefnd til að skipuleggja viðburðinn efast hrafnarnir aftur á móti verulega um. Að auki þykir þeim allt annað sem nefnt er í tillögunni, erfðarannsóknir, málþing og fræðslusjóður, vera algjör peningasóun.

Huginn og Muninn er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í Viðskiptablaðinu.