Eins og margir aðrir Íslendingar eru hrafnarnir enn að ná sér eftir fagnaðarhöld gærdagsins. Tilefni fagnaðarins var að sjálfsögðu staðfesting þess að framsækið og árangursríkt ríkisstjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri grænna heldur áfram út kjörtímabilið undir stjórn Bjarna Benediktssonar.

Hrafnarnir lifðu í þeirri trú að Sjálfstæðisflokkurinn liti á fjármálaráðuneytið sem lang mikilvægasta ráðuneytið, enda hefur flokkurinn haft það ráðuneyti undir sinni stjórn í rúman áratug. Nú virðist Bjarni, formaður flokksins, hins vegar vilja stíga síðasta dansinn í stjórnmálunum sem æðsti ráðamaður þjóðarinnar. Svo umhugað virðist Bjarna um að „hætta á toppnum“ að hann var til í að gefa dýralækninum Sigurði Inga Jóhannssyni fjármálaráðuneytið. Raunar kann þetta þó að vera til marks um að Sjálfstæðismenn hafi áttað sig á að ríkisfjármálin séu í það miklum ólestri að staðan verði lítið verri þó að eyðsluklónum í Framsókn sé treyst fyrir að halda um ríkispyngjuna.

Þó að ríkisrekstur sé í eðli sínu nokkuð ólíkur almennum atvinnurekstri væru hrafnarnir til í að stjórnvöld tileinkuðu sér að reka ríkið í auknum mæli eins og vel rekið fyrirtæki. Flestir fyrirtækjaeigendur sætta sig t.d. illa við langvarandi taprekstur og gæta þess að eyða ekki um efni fram.

Raunar er áhugaverður samkvæmisleikur að heimfæra tíð stólaskipti núverandi ríkisstjórnar yfir á rekstur einkafyrirtækja. Í mörgum einkafyrirtækjum eru starfandi forstjóri, fjármálastjóri, rekstrarstjóri, markaðsstjóri, mannauðsstjóri og hjá þeim allra ábyrgustu sjálfbærnistjóri. Varla kynni það góðri lukku að stýra ef þessir stjórnendur væru á sífelldu flakki milli stjórnendastaða, eða hvað?

Ríkissjóður ehf.

Ímyndum okkur að ríkisstjórnin sé einkafyrirtækið Ríkissjóður ehf. Félagið gekk í gegnum endurskipulagningu árið 2017 og ákveðið að fjölga í framkvæmdastjórn úr átta manns í tíu. Stjórnendur sem ráðnir voru til verksins, til næstu fjögurra ára, sátu flestir sem fastast út tímabilið.

Umræddir stjórnendur fengu svo umboð sitt endurnýjað frá hluthöfum sínum til fjögurra ára til viðbótar en um leið ákveðið að stokka upp hlutverkaskiptingunni og fjölgað á ný í framkvæmdastjórninni úr tíu manns í tólf. Að lokum náðu stjórnendur samkomulagi um hlutverkaskiptingu undir stjórn sama forstjóra og áður, Katrínar Jakobsdóttur. Bjarni Benediktsson var áfram fjármálastjóri og Sigurður Ingi Jóhannsson var áfram rekstrarstjóri en fékk aukin völd þar sem verkefni sem heyrðu áður undir ýmis önnur svið færðust til hans. Aðrar stöður í framkvæmdastjórn röðuðust á fólk úr ýmsum áttum en ákveðið var að Jón Gunnarsson yrði yfirlögfræðingur í tæplega tvö ár og Guðrún Hafsteinsdóttir, regluvörður, tæki svo við keflinu.

Margt hefur gengið á í rekstri félagsins og reksturinn heilt yfir gengið erfiðlega. Heimsfaraldur setti vissulega strik í reikninginn en að sama skapi var ráðist í mörg kostnaðarsöm gæluverkefni sem engu skiluðu fyrir reksturinn nema auknum skuldum.

Að tveimur árum liðnum í kjölfar athugasemda eftirlitsaðila um framkvæmd verkefnis sem var á borði fjármálastjórans Bjarna Benediktssonar var ákveðið að hann skyldi skipta um starf við framkvæmdastjóra viðskiptaþróunar og útibúanets, Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttur.

Forstjórinn vill í hlýjan faðm ríkisins

Nokkrum mánuðum síðar sér forstjórinn, sem er farin að finna fyrir einkennum kulnunar þar sem erfitt getur verið að sameina ólíkan og stóran hóp framkvæmdastjórnar um hinar einföldustu ákvarðanir, starfsauglýsingu þar sem auglýst er eftir forstöðumanni ríkisstofnunarinnar Gljúfrasteins – hús skáldsins. Auk góðra launa fylgja ýmis fríðindi starfinu, svo sem stytting vinnuvikunnar, ríflegt sumarfrí og líkamsræktar- og samgöngustyrkur.

Forstjórinn, sem er vongóð um að hreppa starfið í ljósi starfsreynslu sinnar og þekkingar, ákveður að sækja um og segir um leið starfi sínu hjá Ríkissjóði ehf. lausu. Umtalað hefur verið að forstjórinn, sem þykir mikill mannasættir, hafi leikið lykilhlutverk í að binda saman miðju fyrirtækisins og verður því uppi fótur og fit er hún stekkur frá borði. Hluthafar óttast það versta og sjá jafnvel fyrir sér að þurfa að manna framkvæmdastjórnina upp á nýtt. Til að forðast það að mikilvæg þekking og stöðugleiki glatist kalla þeir þó framkvæmdastjórnina saman til að finna lausnir.

Óvæntar stöðuhækkanir

Eftir japl, jaml og fuður tekst að endurskipuleggja framkvæmdastjórnina fjölmennu. Ákveðið er að þróunarstjórinn og fjármálastjórinn fyrrverandi, sem talið er líklegt að setjist í helgan stein að einu og hálfu ári liðnu til að sinna öðrum hugarðarefnum sínum, taki við forstjórastöðunni. Fjármálastjórinn, ung og efnileg kona sem talin er líkleg til stórræða í framtíðinni, er send aftur heim í sitt gamla starf sem framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar og útibúanets. Rekstrarstjórinn, sem seint verður talinn með góða kostnaðarvitund, leysir hana af hólmi. Gæðastjóri félagsins Svandís Svavarsdóttir, sem þótti völt í sessi sökum stórra mistaka í starfi og ljóst er að muni kosta fyrirtækið formúgu, fær óvænta stöðuhækkun og tekur við rekstrarstjórninni. Loks fær verkefnastjóri á sjálfbærnisviði fyrirtækisins Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, harðduglegur starfsmaður sem þó þykir lítið leiðtogaefni, stöðuhækkun í starf gæðastjóra.

Vel fór á með Bjarna og Katrínu við forstjóraskiptin.
© Sigurjón Ragnar Sigurjónsson (SigurjonRagn)
Afsannar Bjarkey kenningu samstarfsmanna sinna um að hún sé ekki leiðtogaefni?
© Eyþór Árnason (Eyþór Árnason)

Breytingarnar vöktu mismikla lukku meðal starfsmanna. Þeir voru þó flestir á því að ljósið í myrkrinu væri að Lilja Alfreðsdóttir, framkvæmdastjóri sjálfbærni, menningar og inngildingar, héldi sínu starfi og gæti því unnið áfram að nýrri jafnréttisstefnu fyrirtækisins. Vonir standa til um að það verði fyrsta OVD-vottaða sjálfbærnistefna sem Vinnueftirlitið veitir fyrirtæki á almennum vinnumarkaði.

Leiðtogi sjálfbærni, menningar og inngildingar.
© Eyþór Árnason (Eyþór Árnason)
Gæðastjórinn býr sig undir að taka við lyklunum af skrifstofu rekstrarstjóra.
© Eyþór Árnason (Eyþór Árnason)

Til að hressa upp á ímynd fyrirtækisins ákveður framkvæmdastjórnin að gera markaðsdeild Nova tilboð sem hún getur ekki hafnað. Um leið er starfstitill forstjórans uppfærður og hann gerður að skemmtanastjóra. Loks er ákveðið að standa fyrir fundaröð um gervigreindina þar sem leitast verður eftir svörum við því hvort hún sé komin til að vera.

Ofangreind smásaga, sem kann að hljóma eins og handrit af nýjum þætti af Bílastæðavörðunum, sýnir svart á hvítu hve óreiðu- og farsakennt ríkisstjórnarsamstarfið hefur verið og mun væntanlega vera áfram út kjörtímabilið.