Ólíkt tilboðsþyrstum Íslendingum draga Hrafnarnir það yfirleitt fram í miðjan desember að hefjast handa við jólagjafakaup. Ástæðan fyrir því er sú að þá gefur Rannsóknarsetur verslunarinnar út hver komi til með að vera jólagjöf yfirstandandi árs.

Hröfnunum til mikillar ánægju náði málflutningur Fjölmiðlanefndar um að samverustund væri besta gjöf sem fólk getur gefið sínum nánustu til Magnúsar Sigurbjörnssonar og hans fólks hjá rannsóknarsetrinu. Með gagnadrifinni nálgun tók sjö manna jólanefnd rannsóknarsetursins ákvörðun um að samverustund sé jólagjöf ársins 2023.

Þótti nefndinni samverustund eiga vel við „tíðarandann í íslensku samfélagi í dag“ og benti á að samverustundir geti þýtt svo margt. Hvort sem það sé gjafabréf í bíó eða út að borða, þá geti það einnig þýtt klukkutíma tiltektarheimsókn til ömmu og afa.

Hrafnarnir sjá því fram á sparnaðarsöm jól og taka því fagnandi að samverustund með fjölskyldu og vinum hljóti loks brautargengi í tíðaranda landsmanna.

Huginn og Muninn er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í Viðskiptablaðinu.