Það eru ófrýnilegar lýsingar sem ýmsar gamlar ferðaheimildir útlendinga um Ísland höfðu að geyma um reynslu þeirra af landi og þjóð hér fyrr á öldum, sem voru ekki til þess fallnar að kveikja áhuga á Íslandsferðum. Þannig fjallaði þýski kaupmaðurinn Gories Peerse í rituðum heimildum frá 16 öld að hér væri veðralag ekki upp á marga fiska, bændur töldu Heklu vera innganginn að helvíti sem stanslaus strókur stæði upp úr og að jarðskjálftar og eldgos yllu hér hamförum. Þá gaf hann vistarverum grálúsugra landsmanna ekki háa einkunn, sem hann sagði vera að hluta til neðanjarðar.
Það eru ófrýnilegar lýsingar sem ýmsar gamlar ferðaheimildir útlendinga um Ísland höfðu að geyma um reynslu þeirra af landi og þjóð hér fyrr á öldum, sem voru ekki til þess fallnar að kveikja áhuga á Íslandsferðum. Þannig fjallaði þýski kaupmaðurinn Gories Peerse í rituðum heimildum frá 16 öld að hér væri veðralag ekki upp á marga fiska, bændur töldu Heklu vera innganginn að helvíti sem stanslaus strókur stæði upp úr og að jarðskjálftar og eldgos yllu hér hamförum. Þá gaf hann vistarverum grálúsugra landsmanna ekki háa einkunn, sem hann sagði vera að hluta til neðanjarðar.
Það hefur ekki verið til að auka ferðaviljann til Íslands þegar að bókin Islandia kom út í Hollandi árið 1607 eftir mann að nafni Ditmar Blefken. Í henni greinir hann frá meintri Íslandsferð sinni árið 1563 þar sem lýsinganna svipar mjög til þeirra sem Peerse dró upp af landi og þjóð. Bók Blefken var gefin út margsinnis og á hinum ýmsum tungumálum og var ítrekað vísað til hennar allt fram á 18. öld. Má því ætla að hún hafi verið undirstaða vitneskju útlendinga um landið um langa hríð.
Það er áhugavert að renna í gegnum gamlar frásagnir sem þessar. Að sama skapi er hægt að fullyrða að frá því þær voru ritaðar, og fleiri til, hafi vitund umheimsins um Ísland breyst mikið og aðdráttarafl landsins aukist til muna eins og við þekkjum í dag. Þar hefur ferðaþjónustan haft mikið að segja, en í henni urðu mikilvæg tímamót þann 11. nóvember 1998 þegar að ýmis hagsmunasamtök í ferðaþjónustunni sameinuðust undir hatti nýstofnaðra Samtaka ferðaþjónustunnar.
Mikið vatn runnið til sjávar
Mikið vatn hefur runnið til sjávar frá árinu 1998 en það ár komu 232.000 ferðamenn til landsins og gjaldeyristekjur af erlendum ferðamönnum 26.3 milljarðar og 12.9% af útfluttri vöru og þjónustu. Þá var Ísland tiltölulega óþekkt sem ferðaþjónustuland, árstíðasveifla var mikil og lítil ferðaþjónusta í boði utan háannar. Fá flugfélög flugu hingað til lands í upphafi 21. Aldarinnar og framboð af gistirými lítið. Ferðaþjónustufyrirtækin voru oftar en ekki lítil fjölskyldufyrirtæki sem rekin voru af áhugafólki og frumkvöðlum og ekki var beint litið á greinina sem alvöru atvinnugrein.
Á þessum tíma hefur íslenskt atvinnulíf tekið töluverðum breytingum og í dag er ferðaþjónustan orðin burðarás í íslensku hagkerfi. Árið 2022 námu gjaldeyristekjur greinarinnar til að mynda tæpum 450 milljörðum króna, og útlit er fyrir að þær verði töluvert hærri fyrir árið í ár þegar um tíu sinnum fleiri ferðamenn sækja landið en árið 1998. Fjölbreytt flóra ferðaþjónustufyrirtækja hefur spottið upp og fjöldi ferðamanna er farinn að heimsækja landið utan sumartíma samhliða stórauknu flugframboði til og frá landinu.
Stærsta sjálfsprottna byggðaaðgerð Íslandssögunnar
Ferðaþjónusta hefur allaf verið og verður háð utanaðkomandi þáttum s.s. gengi, olíuverði, heimskreppum, náttúruhamförum, hryðjuverkum og stríðum eins og nú geysa. Þessir þættir hafa áhrif á ferðavenjur fólks og samkeppnishæfni áfangastaða til hins betra eða verra. Þetta kom bersýnilega í ljós árið 2010 þegar að gjósa tók í Eyjafjallajökli, gos sem kom Íslandi raunverulega á kortið og minnti á hversu stutt hin mikla náttúrufegurð landsins er frá Evrópu.
Á þessum tíma hefur náðst gríðarlega mikill árangur í að byggja Ísland upp sem áfangastað. Það finna þeir erlendu ferðamenn sem hingað koma með reglulegum hætti sem og við heimamenn sem njótum þeirrar fjölbreyttu þjónustu og afþreyingar sem hefur skotið upp kollinum hringinn í kringum landið en ferðaþjónustan er í senn stærsta sjálfsprottna byggðaaðgerð Íslandssögunnar þar sem eldhugar og frumkvöðlar hafa leyft sköpunarkrafti sínum að blómstra. Því kynntust Íslendingar rækilega á ferðum sínum innanlands árin 2021 og 2022.
Það vill oft gleymast í amstri dagsins að með uppgangur ferðaþjónustunnar skipti miklu máli í upprisu landsins úr alvarlegu fjármálakreppuástandi með minnkandi atvinnuleysi og aukinni verðmætasköpun.
Í dag er greinin stærsta gjaldeyrisskapandi atvinnugrein landsins, með tilheyrandi stuðningi við gengi krónunnar og styrkari óskuldsettum gjaldeyrisforða fyrir þjóðarbúið. Þetta skiptir miklu máli fyrir Ísland. Enda var það ekki af ástæðulausu að stjórnvöld réðust í fordæmalausar stuðningsaðgerðir við ferðaþjónustuna á tímum heimsfaraldursins. Sú sterka viðspyrna ferðaþjónustunnar sem við höfum séð síðan þá hefur enn og aftur sannað mikilvægi greinarinnar og sýnt fram á hversu mikil aðlögunar íslenskrar ferðaþjónustu er þegar að hún stendur andspænis stórum áskorunum.
Í sátt við land og þjóð
Miklum og örum vexti ferðaþjónustunnar hafa einnig fylgt veigamiklar áskoranir sem lagt hefur verið kapp á að vinna með svo greinin þrífist sem best í sátt við náttúru og menn, með betri og aukinni dreifingu ferðamanna á sama tíma og henni er sköpuð samkeppnishæf umgjörð.
Framtíðarsýn íslenskrar ferðaþjónustu er að vera leiðandi í sjálfbærri þróun á grunni efnahags-, umhverfis- og samfélagslegs jafnvægis. Í því felst að ferðaþjónustan sé arðsöm og samkeppnishæf í sátt við land og þjóð, að ferðaþjónustan stuðli að bættum lífskjörum og hagsæld á Íslandi og að ferðaþjónustan sé þekkt fyrir sjálfbæra þróun, gæði og einstaka upplifun. Í uppfærðum stefnuramma ferðaþjónustunnar til 2030 eru 12 áherslur sem deilast á lykilstoðirnar fjórar; efnahag, samfélag, umhverfi og gesti.
Í maí á þessu ári skipaði ég sjö starfshópa sem falið er að vinna tillögur að aðgerðum í aðgerðaáætlun fyrir ferðaþjónustustefnu til 2030. Gert er ráð fyrir að stefnan og aðgerðaáætlunin verði lögð fyrir Alþingi í formi tillögu til þingsályktunar á vorþingi 2024.
Verkefnið í heild sinni er leitt af stýrihópi á vegum menningar- og viðskiptaráðuneytisins. Aðgerðaáætlunin mun fylgja eftir þeirri framtíðarsýn, markmiðum og áherslum sem koma fram í ferðaþjónustustefnu til 2030. Stefnan og aðgerðaáætlunin er unnin í þéttu og góðu samstarfi ráðuneytisins, ferðamálastofu, sambands íslenskra sveitarfélaga og SAF. Í slíkri vinnu er mikilvægt að snúa bökum saman og að traust ríki milli aðila.
Í fremstu röð
Við erum öll sammála um að það er markmið okkar Ísland verði í fremstri röð þegar kemur að fagmennsku og gæðum, að Ísland verði áfangastaður sem er þekktur fyrir góða gestrisni, trausta innviði og upplifun á heimsmælikvarða. Ferðaþjónustan má ekki eingöngu snúast um ferðamenn heldur líka um starfsmenn og heimamenn. Sjálfbær ferðaþjónusta í sátt við land og þjóð er það sem við öll viljum.
Ég vænti áfram mikils af því góða samstarfi sem ég og mitt ráðuneyti höfum átt við SAF. Það skiptir stjórnvöld máli að eiga góða samstarfsfélaga líkt og SAF til þess að sækja fram fyrir land og þjóð. Á þessum tímamótum vil ég óska SAF til hamingju 25 ára samtakamátt og áframhaldi velfarnaðar inn til framtíðar.
Greinin birtist í afmælisblaði Samtaka ferðaþjónustunnar, Samtaka í 25 ár.