Mögulegt er að notast við þjóðhagslíkan Seðlabanka Íslands í heild sinni og opinbera spá bankans til að leysa út fyrir raunvaxtaferli. Raunvextir á 7 daga veðlánum Seðlabankans verða um 1,4% í lok árs 2025 að því gefnu að nýjasta opinbera þjóðhagsspá bankans rætist. Með öðrum orðum raunvextir munu jafnast á við stig jafnvægisraunvaxta sem þjóðhagslíkanið inniheldur. Þeir eru nú um 3,6% miðað við vænta verðbólgu eða álíka háir og árin 2014 til 2016.

Líkan bankans og þjóðhagsspá frá því í febrúar gefa til kynna að meginvextir peningastefnunefndar fari hratt lækkandi frá næstkomandi ársfjórðungi yfir á næsta ár miðað við þær forsendur sem sérfræðingar bankans gefa sér um þróun annarra hagstærða. Reynist spáin rétt munu vextir helmingast á tímabilinu samhliða tveggja prósentustiga hjöðnun verðbólgu.

Næsta spá bankans verður birt 8. maí næstkomandi ásamt vaxtaákvörðun og verður áhugavert að sjá hvort vaxtaferillinn haldist óbreyttur. Sér í lagi þar sem bankinn vanspáði mikið verðbólgu á fyrsta ársfjórðungi ásamt því að nýir þjóðhagsreikningar Hagstofu Íslands sýna mun meiri framleiðsluspennu hagkerfisins – sem stafar að einhverju leyti af vanmati á núverandi fjármunastokki hagkerfisins og þar af leiðandi framleiðslugetu. Til viðbótar leggst kröftugri vöruútflutningsferill sökum minni óvissu vegna virðulegs árangurs Alvotech við öflun markaðsleyfis og sölusamninga líftæknilyfja vestanhafs síðla febrúar og í apríl síðastliðnum. Aukinheldur hefur heimsmarkaðsverð hrávöru farið hækkandi frá þjóðhagsspá í febrúar.

Markaðsaðilar vænta sömuleiðis lækkun vaxta á næstunni samkvæmt nýjustu könnun Seðlabankans. Aftur á móti gera þeir ráð fyrir að vextir lækki hægar en þjóðhagslíkanið miðað við síðustu opinberu spá bankans. Markaðsaðilar töldu í lok janúar að vextirnir myndu lækka um tæplega 200 punkta fram til mars 2025 og að raunvextir verði þá 2,9%. Seðlabankinn mun birta niðurstöður nýjustu könnunar meðal markaðsaðila á morgun 2. maí.

Myndin sýnir hvernig markaðsaðilum hefur farnast frá árinu 2012 við að spá veðlánavöxtum eitt ár fram í tímann. Það hefur reynst þrautinni þyngra þar sem vextir eru háð stærð af hagsveiflu og væntingastjórnun peningastefnunefndar. Í 70% tilvika hafa væntingar þeirra reynst frábrugðnar vöxtum á næstlíðandi ársfjórðungi – einkum síðastliðin þrjú ár þar sem þeir hafa reiknað með umtalsvert lægri vöxtum en raungerðist. Í 87% tilvika voru væntingarnar frábrugðnar vöxtum þarnæsta fjórðungs. Hlutfallið nálgast 100% eftir því sem væntingar lengra í framtíðina eru skoðaðar. Undanfarin ár hafa væntingarnar verið langtum neðar en það sem raungerðist, t.d. í lok árs 2022 töldu markaðsaðilar að veðlánavextir yrðu 5,9% á 4. fjórðungi 2023 en þeir reyndust 10%.

Grein þessi er einungis rituð og birt í upplýsingaskyni og skal ekki með neinum hætti líta á hana sem fjárfestingarráðgjöf. Hún byggir á opinberum upplýsingum sem tiltækar voru er hún var rituð. Helstu heimildir eru m.a. efnahagslegar skýrslur, birt uppgjör og upplýsingar sem hafa verið birtar opinberlega. Skoðanir og spár geta breyst án fyrirvara, t.d. með tilkomu nýrra upplýsinga. Hafa skal í huga að þær upplýsingar sem fram koma í greininni geta verið rangar þrátt fyrir að reynt hafi verið að koma í veg fyrir það. Viðskiptablaðið getur ekki borið ábyrgð á röngum upplýsingum og afleiðingum þeirra.