Hrafnarnir hefðu haldið að verðbólguþjakaðir landsmenn tækju nýafstöðnum tilboðsdögum fagnandi en Unnur Freyja Víðisdóttir, sérfræðingur í miðlalæsi hjá Fjölmiðlanefnd, var fljót að leiðrétta þann misskilning.

Mörg nýyrði tengd kvíða, á borð við loftslagskvíða og sóttkvíða, hafa rutt sér til rúms á síðustu árum og sérfræðingur Fjölmiðlanefndar kynnti enn einn kvíðann til sögunnar; tilboðskvíða.

Í aðsendri grein á Vísi jós hún úr viskubrunni sínum með því að benda á að einfaldasta leiðin til að spara pening sé að eyða honum ekki. Þá benti hún fólki á að bestu gjafirnar sem það geti gefið þeim sem þeim þyki vænst um fáist hvorki úr hillum verslana né í netverslunum. Mikilvægt sé að setja upp „miðlalæsisgleraugun“ og temja sér gagnrýna hugsun, því undir snjóflóði af því sem kunni að virðast frábært tilboð geti leynst gildrur fjársvikara. „Þegar öllu er á botninn hvolft er ást, umhyggja og gæðastundir það dýrmætasta sem við getum gefið okkar nánustu um jólin og þeim gjöfum er ekki hægt að pakka inn og troða undir tré.“

Hafi einhverjir efast um mikilvægi Fjölmiðlanefndar hlýtur þessi pistill að hafa slegið öll vopn úr höndum efasemdafólks.

Huginn og Muninn er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í Viðskiptablaðinu.