Hrafnarnir sjá að Samkeppniseftirlitið hefur loksins heimilað kaup Kaupfélags Skagfirðinga og Háa Kletts á Gleðipinnum sem rekur nokkra skyndibitastaði á höfuðborgarssvæðinu. Meðal þeirra eru American Style og Hamborgarafabrikkan. Það ætti ekki koma neinum á óvart að majónes og kaldar sósu koma mikið við sögu í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins um að heimila kaupin.

Eins og lesendur Viðskiptablaðsins vita þá telur Samkeppniseftirlitið markaðinn með kaldar sósur var einn af grundvallarmörkuðum íslenska hagkerfisins samanber hið mikla rit eftirlitsins um sósumarkaðinn sem var gefið út þegar eftirlitið ákvað að heimila ekki kaup Kaupfélags Skagfirðinga á Gunnars Majónes. Mikill kraftur í starfi eftirlitsins fer í að fylgjast með markaðnum með kaldar sósu og hinum fjölmörgu undirmörkuðum hans.

Í stuttu máli heimilar Samkeppniseftirlitið kaupin eftir að fallist var á skilyrði sósusviðs eftirlitsins um að Múlakaffi taki við framleiðslu og framleiðslurétti á Hamborgarfabrikkusósum. Á þetta ekki eingöngu sjálft flaggskipið: Hamborgarafabrikkusósan, heldur falla Ladda-sósan og Bó-sósan jafnframt þar undir.

Staðið vörð um markaðinn með kaldar sósur

Með þessari aðgerð náði Samkeppniseftirlitið að standa vörð um jafnvægið á markaðnum með kaldar sósur. Eða eins og segir í ákvörðun eftirlitsins: „Umræddar sósur og sá efnahagslegi styrkleiki sem þeim fylgir færist því ekki til KS við kaupin.“

Enn fremur segir í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins:

„Með þeim breytingum á kaupsamningi málsins samkvæmt ákvörðun samrunaaðila, verða lárétt áhrif samrunans á markaði fyrir tilbúnar kaldar sósur mun minni en ella. Þau skaðlegu áhrif sem Samkeppniseftirlitið upplýsti samrunaaðila um, m.a. á fundum vegna rannsóknarinnar eru því mun minni en rannsókn eftirlitsins leiddi í ljós. Enda yfirtekin framleiðsla og framleiðsluréttur á sósum mun minni en annars hefði orðið, og þar með talinn mögulegur vöxtur KS á umræddum markaði. Þau láréttu áhrif á markaði fyrir tilbúnar kaldar sósur sem samruninn hefur í för með sér fela því í sér óverulega aukningu samrunaaðila sem ekki gefur tilefni til íhlutunar að mati Samkeppniseftirlitsins.“

Hrafnarnir taka undir hvert orð Samkeppniseftirlitsins og þakka Óðni fyrir þennan óþreytandi varðmanns um markaðinn með kaldar sósur á Íslandi sem Páll Gunnar Pálsson sannarlega er.

Huginn og Muninn er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins.