Eins og allir vita ríkir gríðarlegt aðhald í rekstri Reykjavíkurborgar og hafa Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Einar Þorsteinsson formaður borgarráðs gefið það út að ekki verði lengur ráðið í störf að óþörfu.

Hrafnarnir hafa skilning á þeirri stefnu ekki síst í ljósi þeirrar staðreyndar að álíka margir sóttu sérstakan millistjórnendadag Reykjavíkurborgar í Hörpu og leiðtogafund Evrópuráðsins á dögunum eða um 800 manns.

Þetta þýðir með öðrum orðum að borgin hefur einungis látið sér duga að ráða í brýn störf á borð við verkefnastjóra framtíðar á umhverfissviði.

Um starfsvið sagði í auglýsingu: „verkefnastjórarnir taka þátt í mótun nýrrar verkefnastofu, þar sem unnið er eftir hugmyndafræði verkefnastjórnunar og verkefnum er fylgt eftir frá upphafi til enda þvert á verkþætti og ábyrgðarsvið fagskrifstofa“.

En hrafnarnir sjá að það er mannahallæri hjá borginni og nú auglýsir hún eftir umsóknum um starf „skrifstofustjóra íþróttaborgarinnar“. Ekki kemur það hröfnunum á óvart um að er að ræða nýtt svið sem meirihlutinn var að stofna til viðbótar við hina býsönsku stjórnsýslu borgarinnar.

Huginn og Muninn er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins.