Þrátt fyrir tugmilljarða bókhaldslegan hagnað á undanförnum árum dylst fáum að fjárhagsstaða Félagsbústaða, stærsta íbúðafélags landsins, stendur illa.
Það liggur í augum uppi að hækka þurfi leiguverð til að tryggja fjárhagslega sjálfbærni félagsins, líkt og stjórnendur félagsins hafa kallað eftir, en velferðarsvið borgarinnar virðist vera á öðru máli.
Týr hefur verið að stytta sér stundir við að lesa fundargerðir velferðarráðs að undanförnu. Þar koma fram ítrekaðar áhyggjur yfir bágri fjárhagsstöðu félagsins hvers reikningar hafa verið fegraðir undanfarin ár með sífelldri hækkun á mati fasteigna sem aldrei stendur til að selja.
En sósíalistarnir í velferðarráði eru með lausn á vandamálinu. Á fundi í júlí í fyrra kom Trausti Breiðfjörð Magnússon borgarráðsfulltrúi sósíalista með lausnina. Í fundargerðinni kemur fram eftirfarandi tillaga frá honum:
„Borgarráð samþykkir að Reykjavíkurborg ráðist í átak til að útrýma biðlistum eftir félagslegu húsnæði. Þar er átt við almennt félagslegt húsnæði, húsnæði fyrir fatlað fólk, þjónustuíbúðir aldraðra og húsnæði fyrir heimilislausa með miklar og flóknar þjónustuþarfir. Það verði gert með því að hefja stórfellda uppbyggingu félagslegra íbúða.
Eigið fé Félagsbústaða nam í árslok 2022, 83.767 m.kr. og eiginfjárhlutfall félagsins var 56,1%. Fasteignafélög á markaði eru með um 30% eiginfjárhlutfall. Eigið fé Félagsbústaða umfram þessi mörk gæti því staðið undir byggingum íbúða. Meira en nóg til þess að vinda ofan af biðlistum eftir félagslegu húsnæði.”
Með öðrum orðum vill sósíalistinn breyta Félagsbústöðum í skuldsett leigufélag í líkingu við fasteignafélögin sem eru skráð í Kauphöllina. Ljóst er að Trausti Breiðfjörð hefur lært mikið af Gunnari Smára Egilssyni framkvæmdastjóra Sósíalistaflokksins. En það er önnur saga.
Borgin þvælist aftur fyrir
Viðskiptablaðið fjallaði í vikunni um fjárhagsstöðu Félagsbústaða, dótturfélags Reykjavíkurborgar sem leigur út um 3.100 íbúðir. Stjórn félagsins lýsir áhyggjum af stöðunni í ársreikningnum en 400 milljónir hafi vantað upp á í árslok til að veltufé frá rekstri nægi fyrir afborgunum langtímalána.
Eigi að síður hafi tillaga Félagsbústaða um 1,1% hækkun leiguverðs ekki fengið brautargengi í velferðarráði borgarinnar. Hækkunarþörfin er í dag metin á 6,5%.
Sandra Hlíf Ocares, varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins sem situr í velferðarráði, sagði við Viðskiptablaðið að sér hafi brugðið við þessar fréttir enda kannaðist hún ekki við að slík tillaga hafi verið lögð fram. Fundargerðir staðfesti það.
Framkvæmdastjóri Félagsbústaða, Sigrún Árnadóttir, vísaði þessu á bug og sagði tillöguna hafa verið lagða fram samhliða kynningu fyrir velferðarráð um breytingu á leiguverðsgrunni í maí 2023. Þess má geta að Sandra Hlíf var ekki viðstödd þann fund og kynningin var ekki birt á vef borgarinnar. Þegar endanlegar tillögur frá Félagsbústöðum voru lagðar fyrir velferðarráð af sviðsstjóra velferðarsviðs í september sl. fylgdi tillaga um leiguverðshækkun ekki með.
Týr skilur ekki fyllilega hvað gekk á bak við tjöldin en fyrirliggjandi gögn gefa til kynna að annað hvort sé um samskiptaklúður að ræða eða að borgin hafi tryggt að tillaga um hækkun leiguverðs yrði ekki tekin fyrir. Það er þó víst að málið er hið vandræðalegasta fyrir alla hlutaðeigandi aðila.
Týr leggur til einfalda breytingu sem ætti að koma í veg fyrir vandræðagang af þessi tagi aftur: að stjórn Félagsbústaða fái einfaldlega ákvörðunarvald yfir leiguverði félagsins fremur en að verðbreytingar þurfi að fara í gegnum bæði velferðar- og borgarráð. Varla telja borgarfulltrúar að stjórnendur Félagsbústaða myndu að öðrum kosti ganga gegn hlutverki félagsins um að tryggja framboð félagslegs leiguhúsnæðis með ábyrgum hætti.
Það sést hvað best á fyrirhugaðri hlutafjáraukningu Ljósleiðarans, dótturfélags Orkuveitu Reykjavíkur, að aðkoma borgarinnar sem eigenda leiði oftast af sér óþarfa tafir sem eru ekki til hagsbóta, hvorki fyrir dótturfélögin sjálf eða viðskiptavina þeirra.
Týr er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins.