Týr sér að ríkisstjórnin ætlar að beita öllum ráðum til þess að koma böndum á viðvarandi hallarekstur hins opinbera. Aðhald og ráðdeild er í öndvegi í ríkisrekstrinum.

Ágætt dæmi um það er að utanríkisráðuneytið hefur óskað eftir fjárheimild frá Alþingi til að stofna sendiráð á Spáni. Í minnisblaði frá ráðuneytinu kemur fram að helstu rökin fyrir stofnun sendiráðs í Madríd séu þau að Spánn sé stórt land og þar búi fullt af fólki. Auk þess benda starfsmenn utanríkisráðuneytisins í minnisbréfinu á að spænsk stjórnvöld hyggist flytja skrifstofu aðalræðismanns Spánar í stærri skrifstofu á Suðurgötu á næstunni.

***

Týr sér að ríkisstjórnin ætlar að beita öllum ráðum til þess að koma böndum á viðvarandi hallarekstur hins opinbera. Aðhald og ráðdeild er í öndvegi í ríkisrekstrinum.

Ágætt dæmi um það er að utanríkisráðuneytið hefur óskað eftir fjárheimild frá Alþingi til að stofna sendiráð á Spáni. Í minnisblaði frá ráðuneytinu kemur fram að helstu rökin fyrir stofnun sendiráðs í Madríd séu þau að Spánn sé stórt land og þar búi fullt af fólki. Auk þess benda starfsmenn utanríkisráðuneytisins í minnisbréfinu á að spænsk stjórnvöld hyggist flytja skrifstofu aðalræðismanns Spánar í stærri skrifstofu á Suðurgötu á næstunni.

***

Erfitt er að andmæla jafn fáguðum rökum. Samkvæmt minnisblaðinu mun það kosta íslenska skattgreiðendur um 150 milljónir á ári að halda úti sendiráði í Madríd. Gert er ráð fyrir að tveir starfsmenn utanríkisþjónustunnar muni starfa í sendiráðinu.

Týr veltir fyrir sér hvað þeir starfsmenn muni eiginlega dunda sér við á skrifstofutíma. Vissulega eiga Íslendingar og Spánverjar í miklum menningarlegum og viðskiptalegum tengslum og hafa gert um langa hríð.

Þau tengsl hafa blómstrað og gefið ríkulegan ávöxt þrátt fyrir að Ísland hafi ekki haldið úti sendiráði á Íberíuskaganum. Rétt er að taka fram að spænsk stjórnvöld hafa ekki séð sérstaka ástæðu til þess að halda úti sendiráði á Íslandi. Sendiherra Spánar gagnvart Íslandi býr í Ósló og Týr veit ekki til þess að það hafi skapað sérstök vandamál í samskiptum þjóðanna.

***

Óstjórn hefur verið á ríkisfjármálunum undanfarin ár. Hallareksturinn er viðvarandi. Því miður virðast ráðamenn hafa af þessu litlar áhyggjur. Ábyrgðarleysið virðist vera rótgróið þegar kemur að meðferð skattfjár borgara þessa lands. Delluhugmyndir um nauðsyn stofnunar sendiráðs á Spáni eru til marks um þetta ábyrgðarleysi.

Að lokum má svo velta fyrir sér hver hefur verið að óska eftir stofnun sendiráðs á Spáni. Eru það sjávarútvegsfyrirtæki? Fasteignasölur? Fulltrúar ferðaþjónustunnar? Eða eru það fyrst og fremst starfsmenn utanríkisþjónustunnar?

Týr er enn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist fyrst í blaðinu sem kom út 15. maí 2024.