Týr sér að ríkisstjórninni er full alvara með að koma böndum á óhefta aukningu ríkisútgjalda til þess að ná niður verðbólgunni.

Ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að styrkja bílaleigur, sem högnuðust um 5,5 milljarða í fyrra, um einn milljarð til þess að kaupa rafbíla var aðeins forsmekkurinn að því sem koma skal.

Týr sér að ríkisstjórninni er full alvara með að koma böndum á óhefta aukningu ríkisútgjalda til þess að ná niður verðbólgunni.

Ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að styrkja bílaleigur, sem högnuðust um 5,5 milljarða í fyrra, um einn milljarð til þess að kaupa rafbíla var aðeins forsmekkurinn að því sem koma skal.

Tilkynnt hefur verið að ríkið muni frá og með næstu áramótum styrkja einstaklinga og fyrirtæki til kaupa á rafbílum. Styrkurinn nemur um 900 þúsund krónur á hvern rafbíl sem einstaklingur og fyrirtæki festa kaup á.

***
Morgunblaðið hefur heimildir fyrir því að verja eigi 30 milljörðum í þessa styrki fram til ársins 2027 eða sem nemur 7,5 milljörðum á ári. Samkvæmt fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir að hallinn á rekstri ríkisins verði um 50 milljarðar á næsta ári.

Tý þykir einsýnt að þetta furðulega mál ásamt öðrum fyrirsjáanlegum útspilum í tengslum við kjarasamninga muni leiða til þess að hallinn verði hátt í 200 milljarðar þegar allt er yfirstaðið. Vonandi hefur hann rangt fyrir sér.

Mikilvægt er að hafa í huga að þessir þrjátíu milljarðar koma ekki úr ríkissjóði heldur úr vösum sparifjáreigenda. Ríkið þarf að fjármagna þessu útgjöld með lántöku. Allt þetta styður við hátt vaxtastig.

***

Það er annars skemmtilegt að sjá að Orkusjóður, sem er á forræði Orkustofnunar, fær það verkefni að útdeila styrkjunum. Orkustofnun hefur sannarlega lagt sín lóð á vogarskálarnar þegar kemur að því að hamla orkuskiptum með seinagangi og sleifarlagi við afgreiðslu virkjunarleyfa.

Það þarf víst rafmagn til þess að knýja áfram Garðabæjartraktorana eins og Teslan er stundum nefnd. Tý þykir það skjóta skökku við að ríkisstjórnin leggi jafn mikla áherslu á að niðurgreiða kaup þeirra á kostnað skattgreiðenda en sýnir enga samstöðu þegar kemur að því að koma nauðsynlegum virkjunarframkvæmdum á koppinn.

Týr er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistil birtist fyrst í Viðskiptablaðinu sem kom út 25. Október 2023.