Árið 1969 markaði tímamót í sögu mannkyns þegar NASA sendi geimfar til tunglsins með nýjustu tækni og vísindum þess tíma. Heimurinn fylgdist með fullur af aðdáun og forvitni um hvað tæknin gæti gert okkur kleift að gera næst. Förum svo fram til ársins 1991 þegar fyrsta vefsíðan leit dagsins ljós sem lagði grunninn að internetinu sem við þekkjum í dag og opnaði nýjan heim af möguleikum.

Nú er komið árið 2024. Vefsíður telja nú meira en billjón og snjallsímarnir í vasanum okkar eru kraftmeiri en allar tölvur NASA á tímum Apollo-verkefnisins. Hraðinn á tækniframförum er orðinn svo mikill að upplýsingar sem voru taldar nýlegar fyrir fáeinum árum síðan eru nú úreltar. Þekking frá síðustu viku gæti þurft endurskoðun strax í þeirri næstu.

Í þessu síbreytilega umhverfi, þar sem hraði þekkingar- og tækniþróunar er gríðarlegur, standa stjórnendur og leiðtogar frammi fyrir verulegum áskorunum. Hvernig er hægt að leiða þegar framtíðin er á stöðugri hreyfingu? Hvernig stjórnum við þegar við vitum ekki neitt?

Áherslur fyrir stjórnendur

Hér í þessari grein verður stiklað á stóru og farið yfir sex áherslur sem stjórnendur geta tileinkað sér þegar kemur að stjórnun í samfélagi nútímans. Þessi atriði geta gert stjórnendum kleift að takast á við hina óvissu framtíð þar sem erfitt er að sjá fyrir næstu skref og nýta tækifæri sem koma upp.

1. Áhersla á stöðugar umbætur

Stjórnendur þurfa að gera sér grein fyrir þeirri mikilvægu staðreynd að við höfum ekki öll svörin og sýna styrkinn í að viðurkenna að það þarf sífellt að afla sér upplýsinga og læra nýja hluti. Þannig skapa stjórnendur menningu þar sem forvitni og nýsköpun eru höfð að leiðarljósi. Hugmyndafræði þar sem lögð er áhersla á sveigjanleika, opið hugarfar fyrir breytingum og stöðugum umbótum er góð undirstaða til þess að takast á við síbreytilega framtíð.

2. Sameinuð erum við sterkari

Til þess að ná framúrskarandi árangri þurfa stjórnendur að byggja upp teymi og hópa sem sameina fjölbreytta þekkingu og sjónarhorn. Þetta þýðir að stjórnendur þurfa að hvetja til samvinnu þar sem hver einstaklingur fær tækifæri til að leggja sitt af mörkum, stuðla að nýsköpun og taka vel ígrundaðar ákvarðanir sem byggja á breiðum grunni þekkingar og reynslu.

3. Menning sem fagnar nýsköpun og tekur áhættu

Sköpun fyrirtækjamenningar sem hvetur starfsfólk til að vera frumkvöðlar, með áherslu á nýsköpun og þar sem mistök eru séð sem tækifæri til lærdóms, er líkleg leið til árangurs. Google er frábært dæmi um fyrirtæki sem hefur tekist að ná framúrskarandi árangri með þessari nálgun. Hjá Google hefur það tíðkast að starfsfólk fái leyfi til þess að elta eigin hugmyndir jafnvel þó að sumar þeirra skili ekki beinum ávinningi fyrir fyrirtækið. Mistök eru jafnframt álitin hluti af þróunarferlinu og er starfsfólk hvatt til þess að deila reynslu sinni af misheppnuðum tilraunum svo að aðrir geti lært af þeim. Þessi nálgun hefur hjálpað til við að móta þá menningu sem Google er frægt fyrir, menning sem fagnar frumkvæði og áhættutöku.

4. Tilfinningagreind

Í síbreytilegu og oft á tíðum krefjandi vinnuumhverfi er tilfinningagreind ómetanlegur hæfileiki hjá stjórnendum. Stjórnendur framtíðarinnar þurfa að geta myndað sterk tengsl við sitt starfsfólk, skilja þarfir þess og væntingar með því að sýna samkennd sem og að hafa stjórn á eigin tilfinningum. Með þessu eru stjórnendur að mynda traust, stuðla að samvinnu og byggja upp sterk teymi sem geta tekist á við óvissu framtíðarinnar á áhrifaríkan hátt.

5. Fjárfesting í þekkingu

Í nútíma fyrirtækjum er endurmenntun og fræðsla starfsfólks ekki aðeins mikilvæg heldur er það grundvallar atriði í heimi þar sem tæknin þróast hratt. Fyrir stjórnendur er það lykilatriði að búa yfir ítarlegri yfirsýn yfir þekkingarstig starfsfólksins og greina nauðsynlega menntun eða þjálfun sem þarf til að forðast myndun þekkingarbila innan fyrirtækisins. Með því að leggja áherslu á stöðuga þróun og menntun starfsfólks eru stjórnendur að fjárfesta í framtíð fyrirtækisins sem og samkeppnishæfni þess.

Stjórnendur þurfa einnig í þessu samhengi að meta hvaða þekking eigi heima innanhúss og hvaða hæfni er hagkvæmast að nýta sér í aðkeyptri þjónustu. Dæmi um þetta er þekking á hinni vaxandi ógn netöryggis, sem öll fyrirtæki verða að vera vakandi fyrir nú til dags. Fyrir mörg fyrirtæki væri það bæði hagkvæmt og skilvirkt að fá utanaðkomandi aðila til þess að sjá um öryggisvarnir og sérhæfða ráðgjöf í netöryggismálum. Þetta gæti ýtt undir getu starfsfólks að vinna í öruggu umhverfi og ýtt undir að settum markmiðum væri náð.

6. Notum tæknina og verum upplýst

Mikilvægt er fyrir framtíð og samkeppnishæfni fyrirtækja að fylgst sé vel með þróun á nýjustu tækni og vísindum á þeim markaði sem fyrirtækið er hluti af. Hvort sem það séu stjórnendur sjálfir sem sjá um þau mál eða þeir útnefni aðila innan fyrirtækis sem tekur að sér að fylgjast með og fræða aðra þá er mjög mikilvægt að þetta sé hluti af menningu fyrirtækisins. Það vill enginn lenda í því að vera „Blockbuster“ í samkeppni við „Netflix“.

Í ljósi óstöðugleikans og hröðu breytinganna sem einkenna nútíma samfélag og viðskiptaumhverfi er mikilvægt að stjórnendur séu ekki aðeins vel upplýst heldur einnig búi yfir fyrirhyggju og sveigjanleika. Færni til að bregðast við breytingum á skilvirkan hátt, sem styður við gildi fyrirtækisins og stuðlar að þróun þess, er lykilatriði í árangursríkri stjórnun.

Stöðug endurmenntun, fjárfesting í menningu sem hvetur til nýsköpunar og áhættutöku ásamt traustum og sterkum teymum eru grunnstoðir sem stjórnendur verða að byggja á. Með því að vera upplýst um nýjustu tæknilausnirnar, bestu stjórnendaaðferðirnar og vita hvenær er rétt að leita til utanaðkomandi sérfræðiþekkingar þá geta stjórnendur tryggt að fyrirtækið sé vel búið til að mæta núverandi áskorunum og tryggja langtíma velgengni.

Stjórnendur sem nálgast óvissu framtíðarinnar með þessum hætti eru betur í stakk búnir til að leiða fyrirtæki sín í gegnum áskoranir nútímans og skapa bjarta framtíð fyrir starfsfólk sitt og hagsmunaaðila.

Rannveig Guðmundsdóttir er verkefnastjóri hjá Innnes.

Greinin birtist í sérblaði sem gefið var út vegna afmælisráðstefnu SVÞ. Áskrifendur geta lesið blaðið hér.