Íslendingum hefur tekist að byggja upp raforkukerfi sem er einstakt á heimsvísu. Það er einangrað, ótengt öðrum kerfum og með 100% endurnýjanlega orku sem verður æ verðmætari. Þessu fylgja þó áskoranir. Árleg orkuframleiðsla á Íslandi er ekki föst tala, heldur sveiflast hún milli ára eftir náttúruöflunum. Flestir raforkunotendur þurfa hins vegar forgangsorku sem afhent er öll ár óháð stöðu í vatnsbúskapnum. Nú er svo komið að forgangs-raforkukerfi Landsvirkjunar er nánast fullnýtt.
Í þessari þröngu stöðu á raforkumarkaði fer eftirspurn eftir raforku vaxandi. Aukning hjá heimilum og smærri fyrirtækjum er um 5-10 MW/ári. Stjórnvöld hafa jafnframt sett sér metnaðarfull markmið um orkuskipti á landinu og stefna að því að hætta notkun jarðefnaeldsneytis fyrir lok árs 2040. Árlega eru fluttir inn um milljón lítrar af bensíni og olíu svo það gefur auga leið að það þarf töluverða, innlenda orkuframleiðslu til þess að vega upp á móti því.
Íslendingum hefur tekist að byggja upp raforkukerfi sem er einstakt á heimsvísu. Það er einangrað, ótengt öðrum kerfum og með 100% endurnýjanlega orku sem verður æ verðmætari. Þessu fylgja þó áskoranir. Árleg orkuframleiðsla á Íslandi er ekki föst tala, heldur sveiflast hún milli ára eftir náttúruöflunum. Flestir raforkunotendur þurfa hins vegar forgangsorku sem afhent er öll ár óháð stöðu í vatnsbúskapnum. Nú er svo komið að forgangs-raforkukerfi Landsvirkjunar er nánast fullnýtt.
Í þessari þröngu stöðu á raforkumarkaði fer eftirspurn eftir raforku vaxandi. Aukning hjá heimilum og smærri fyrirtækjum er um 5-10 MW/ári. Stjórnvöld hafa jafnframt sett sér metnaðarfull markmið um orkuskipti á landinu og stefna að því að hætta notkun jarðefnaeldsneytis fyrir lok árs 2040. Árlega eru fluttir inn um milljón lítrar af bensíni og olíu svo það gefur auga leið að það þarf töluverða, innlenda orkuframleiðslu til þess að vega upp á móti því.
Jafnframt er vilji til að byggja upp öflugt atvinnulíf og sem betur fer hafa nýir, áhugaverðir viðskiptavinir, til dæmis í matvælaframleiðslu og gagnaverum, verið að gera samninga um orkukaup. Í þessum greinum eru mikil uppbyggingaráform sem verða orkufrek.
Rafmagni ekki tappað á flöskur
Rafmagn er því miður ekki hægt að geyma á milli ára, því verður ekki tappað á flöskur. Umframorkan sem verður til þegar vatnsbúskapurinn er góður hefur verið seld á lægra verði, enda er afhendingin ekki tryggð.
Fyrirtæki sem hafa verið að nýta sér þessa skerðanlegu orku á undanförnum árum, eins og fiskimjölsbræðslur og einnig til húshitunar á köldum svæðum, vilja í auknum mæli tryggja sér örugga forgangsorku. Reynt verður að mæta því en það er því miður ekki víst að hún verði í boði. Það verður einfaldlega ekki hægt að anna afhendingu á forgangsorku á næstu árum án frekari orkuöflunar. Það þýðir að aðilar munu ekki fá raforku til starfsemi sem þegar hefur verið byggð á Íslandi, hvað þá að hægt verði að bæta þar við.
Ákall um uppbyggingu
Þar komum við að hindrun sem mun enn auka á orkuskortinn á næstu árum. Það tekur nefnilega langan tíma að byggja nýjar virkjanir. Gera má ráð fyrir 3-4 ára framkvæmdatíma í vatnsafli og jarðvarma – eftir að öll leyfi liggja fyrir. Leyfisveitingarferli fyrir nýjar virkjanir er því miður gríðarlega þungt í vöfum og óskilvirkt, stofnanir sem eiga að sinna því virða t.a.m. ekki tímafresti og mikilvægi frekari orkuvinnslu fyrir samfélagið er ekki haft að leiðarljósi.
Á sama tíma eru aðrar vestrænar þjóðir á þveröfugri leið, þar sem mikil áhersla er lögð á að einfalda leyfisveitingar fyrir virkjun grænnar orku. António Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, sendi enda frá sér ákall til heimsbyggðarinnar að gera allt sem hægt er til að sporna gegn loftslagsvánni og hraða uppbyggingu endurnýjanlegrar orkuvinnslu.
Á hverjum mun orkuskorturinn bitna?
Fram til ársins 2005 bar Landsvirkjun ábyrgð á því að tryggja heimilum og smærri fyrirtækjum aðgang að raforku. Eftir að ný raforkulög tóku gildi var fyrirtækinu gert það ókleift því lög heimiluðu ekki þá upplýsingasöfnun sem fylgdi því. Stjórnvöld bera nú ábyrgð á raforkuöryggi en samt er enn ekkert sem tryggir heimilunum forgang.
Landsvirkjun hefur alltaf forgangsraðað sinni orkusölu svo heimili og smærri fyrirtæki gangi fyrir. Það dugar þó ekki til, því Landsvirkjun selur eingöngu helming orkunnar inn á heildsölumarkaðinn sem þjónustar þau.
Þótt Landsvirkjun hafi ákveðið að samningar um forgangsorku við fyrirtæki sem stunda námugröft verði ekki endurnýjaðir þegar þeir renna út og engir samningar verði gerðir við nýja stórnotendur, s.s. í matvælavinnslu, án þess að ný orkuvinnsla komi til, þá er ekkert sem skyldar önnur orkufyrirtæki til að gera slíkt hið sama.
Ef þau ákveða að fara að selja
nýjum stórnotendum og draga úr framboði til heimila og lítilla fyrirtækja getur Landsvirkjun ekki snögglega aukið framboðið á heildsölumarkaði. Það er því áríðandi að stjórnvöld ljúki sem fyrst þeirri vinnu sem snýr að orkuöryggi á heildsölumarkaðnum því á meðan heimilum og litlum fyrirtækjum er ekki tryggður forgangur að orku, er hættan sú að þau sitji í súpunni þegar ekki verður lengur nægt framboð af henni.
Talað fyrir daufum eyrum
Landsvirkjun er orkufyrirtæki í eigu þjóðarinnar og við sem þar sitjum við stjórnvölinn tökum ábyrgð okkar á þeim orkuauðlindum sem okkur hefur verið trúað fyrir, mjög alvarlega. Í nánustu framtíð er því lögð áhersla á frekari orkuöflun, svo hægt verði að mæta þörfum þjóðarinnar á þeim miklu umbreytingatímum sem framundan eru. Framkvæmdir við Hvammsvirkjun og Búrfellslund hefjast vonandi fljótlega. Eins er farið að undirbúa stækkun Þeistareykjavirkjunar og Sigölduvirkjunar.
Staðan í samfélaginu verður flókin þegar verður að taka ákvarðanir um að hægja á uppbyggingu.
Höfundur er forstjóri Landsvirkjunar.