Á 19. öld tóku vinnuveitendur í Bretlandi upp á því að gefa starfsmönnum frí eftir hádegi á laugardögum gegn því að þeir tækju ekki þunnudag eftir sunnudag. Fyrir tæpri öld var 40 tíma, fimm daga vinnuviku komið á í verksmiðjum Henry Ford og árið 1940 var hún lögbundin í Bandaríkjunum.

Það eru ekki nema 50 ár síðan við Íslendingar lögfestum 40 tíma vinnuviku og litlar breytingar urðu á henni þar til í lífskjarasamningunum. Nú er komin fram krafa um enn frekari styttingu. Hlutfall vinnu og frítíma er ekkert náttúrulögmál, en stytting vinnutíma þarf að taka mið af þörfum samfélagsins og því að starfsfólk er takmörkuð auðlind.

Krafa VR snýst um 32 stunda vinnuviku og 30 daga orlof. Miðað við síðustu vinnutímastyttingu er ekki óeðlilegt að skoða hvernig árið 2023 liti út með átta tíma vinnudögum frá mánudegi til fimmtudags og 30 daga orlof. Niðurstaðan er um 80 frídagar á ári, fyrir utan helgar og rauða daga. Sumir hætta nú þegar á hádegi á föstudögum, en þetta er einfalda myndin.

Einhverjum vinnustöðum hentar eflaust styttri og endurskilgreindur vinnutími. En það hljóta að vera mörk á öfugu hlutfalli framleiðni og vinnutíma og því er ósvarað hvað eigi að gera ef þetta gengi yfir allan vinnumarkaðinn, m.a. þar sem mannekla er viðvarandi vandamál og ekki er hægt að stytta þjónustutíma. Afbrot verða áfram framin á nóttunni og um helgar og aldraðir á hjúkrunarheimilum þurfa þjónustu allan sólarhringinn. Þá má líka spyrja hvort áfram væri eðlilegt að börn væru fimm daga vikunnar í skóla og leikskóla, ef þriggja daga frí yrði normið fyrir fullorðna.

Breytingar eru vissulega ekki ómögulegar, eins og sagan sýnir, en útkoman úr reikningsdæminu felur í sér miklu flóknari spurningar en hvað eigi að gera við fleiri frístundir.

Greinin birtist í Viðskiptablaðinu 1. september 2022.