Starfshópur ferðamálaráðherra um verðmætasköpun og samkeppnishæfni skilaði nú í haust til ráðherra heildstæðum tillögum að aðgerðum sem snúa að gjaldtöku og álagsstýringu. Í hópnum sátu fulltrúar Háskóla Íslands, ráðuneyta, sveitarfélaga og hagsmunaaðila í ferðaþjónustu. Þær tillögur má finna á samráðsgátt stjórnvalda.

Tillögurnar lúta að upptöku innviðagjalds á skemmtiferðaskip, afnámi gistináttaskatts, stífari umgjörð heimagistingar og álagsstýringu á viðkvæma ferðamannastaði í formi aðgangsgjalds eins og nánar er útfært í minnisblaði hópsins.

Markmið tillagna starfshópsins er að jafna samkeppnisstöðu milli aðila á sama markaði, þ.e. að jafna aðstöðu gagnvart opinberum gjöldum á samkeppnismarkaði og leitast við að skapa betri forsendur fyrir heilsársuppbyggingu gistiþjónustu á landsbyggðinni og betri samfélagssátt um framtíð ferðaþjónustu á landinu.

Starfshópur ferðamálaráðherra um verðmætasköpun og samkeppnishæfni skilaði nú í haust til ráðherra heildstæðum tillögum að aðgerðum sem snúa að gjaldtöku og álagsstýringu. Í hópnum sátu fulltrúar Háskóla Íslands, ráðuneyta, sveitarfélaga og hagsmunaaðila í ferðaþjónustu. Þær tillögur má finna á samráðsgátt stjórnvalda.

Tillögurnar lúta að upptöku innviðagjalds á skemmtiferðaskip, afnámi gistináttaskatts, stífari umgjörð heimagistingar og álagsstýringu á viðkvæma ferðamannastaði í formi aðgangsgjalds eins og nánar er útfært í minnisblaði hópsins.

Markmið tillagna starfshópsins er að jafna samkeppnisstöðu milli aðila á sama markaði, þ.e. að jafna aðstöðu gagnvart opinberum gjöldum á samkeppnismarkaði og leitast við að skapa betri forsendur fyrir heilsársuppbyggingu gistiþjónustu á landsbyggðinni og betri samfélagssátt um framtíð ferðaþjónustu á landinu.

Tillaga starfshóps: Innviðagjald á skemmtiferðaskip

  • Að tekið verði upp, með lögum eða öðrum viðeigandi hætti, sértækt gjald á veru erlendra skemmtiferðaskipa sem flytja ferðamenn til Íslands og hringinn í kringum það sem kalla má innviðagjald. Gjaldtakan miðist við að jafna samkeppnisstöðu innlendra og erlendra aðila sem og gististaða á sjó og í landi.

Stærstu hafnir landsins, Faxaflóahafnir, eru reknar sem sameignarfélag og flokkast því ekki sem opinber rekstur. Um þær gilda þó eins og aðrar hafnir skýr ákvæði um gjaldtöku. Í raun má segja að gjaldtökuheimildir hafnalaga í heild sinni horfi til þrenns konar skipaumferðar: fiskiskipa, flutningaskipa og farþegaferja. Skemmtiferðaskip eru hins vegar bæði samgöngutæki (ferja) og hótel og því er nauðsynlegt að stjórnvöld horfi á þau sem slík.

Það er mat lögfræðinga að skynsamlegt sé að útfæra innviðagjald á skemmtiferðaskip sem skatt, sem grundvallist á að auka jafnræði á markaði til að bregðast við miklu álagi á viðkvæma innviði landsins. Þar á meðal álagi á náttúruperlur yfir umsetnasta tíma ársins, íslenska sumarið. Skemmtiferðaskipin eru þannig að herja á íslenska markaðinn á þeim árstíma sem ásókn á vinsæla ferðamannastaði var þanin fyrir og ákvarðanir um fjölda þeirra tekin af fámennum hópi þar sem ekki virðist horft til heildarhagsmuna við uppbyggingu á íslenskri ferðaþjónustu.

Innviðaskattur á skemmtiferðaskip byggir einnig á efnahags- og samfélagslegum sjónarmiðum, þar sem hann stuðlar að uppbyggingu gistiþjónustu og annarrar ferðaþjónustu á landsbyggðinni á heilsársgrunni með tilheyrandi störfum sem og tekjum ríkis og sveitarfélaga. Feta þarf meðalhóf við ákvörðun fjárhæðar slíks gjalds, þar sem ekki sé gengið lengra en sanngjarnt getur talist til að ná markmiðinu en heldur ekki svo skammt að markmið um aukið jafnræði í gistiþjónustu hér á landi náist ekki.

Nýkynnt áform stjórnvalda um stórhækkun gistináttaskatts á hótelin, á sama tíma og stóru erlendu skemmtiferðaskipin eiga að fá að teika áfram nánast frítt skjóta því skökku við. Í stað þess að leitast við að ná framangreindum markmiðum virðist ríkisstjórnin ætla að auka enn frekar ójafnræði á markaði.

Með grófum útreikningi má ætla að meðalstórt hótel í þeim svæðum landsins sem þar sem flestir ferðamann koma skili um 2 milljónum króna á herbergi í skatta og gjöld á ársgrunni. Þar af er hlutur ríkisins um 75% en hlutur sveitarfélaga um 25% og gistináttaskattur telur 5% af þessum tekjum. Hugmyndir um innviðagjald miða þannig að því að jafna núverandi stöðu á milli gistingar á sjó og landi. Ef fullt jafnræði á að nást þyrfti nánast að tuttugufalda núverandi hugmyndir stjórnvalda um gjaldtöku af skemmtiferðaskipum.

Tillaga starfshóps: Afnám gistináttaskatts

  • Að gistináttaskattur verði afnuminn til að jafna samkeppnisstöðu ólíkra tegunda gististaða.

Útfærsla gistináttaskatts hér á landi er samkeppnisbrenglandi og felur í sér ójafnræði milli aðila á sama markaði. Rök fyrir því eru rakin í tillögum starfshóps. Hjá þeim ríkjum þar sem gistináttaskattur eða sambærileg skattheimta hefur verið tekin upp er almenna reglan sú að hann nái til allra aðila á þeim markaði, þ.á m. heimagistingu.

Ísland eitt Norðurlanda er með gistináttaskatt. Norðurlöndin eru helstu samkeppnisaðilar Íslands um ferðamenn sem vilja á norðurslóðir. Tillaga starfshópsins um afnám skattsins er fallin til að auka jafnræði í gistiþjónustu og að draga úr neikvæðum áhrifum skammtímaleigu, m.a. á húsnæðismarkað.

Tillaga starfshóps: Hertar reglur um heimagistingu

  • Að hver einstaklingur megi aðeins leigja út gistiaðstöðu í einni fasteign, í stað tveggja, án þess að þurfa rekstrarleyfi gististaða. Eftirlit með heimagistingu verði aukið, til dæmis með þeim hætti að hámarksfjárhæð stjórnvaldssekta verði hækkuð og hafi viðhlítandi fælingarmátt.

Í dag er hverjum einstaklingi heimilt að leigja að hámarki tvær eignir (lögheimili og aukaeign) í sinni eigu. Útleiga er heimil að hámarki 90 daga á ári, samanlagt í báðum eignum. Ef leigja á meira en 90 daga þarf að sækja um rekstrarleyfi. Ef gistináttaskattur verður ekki afnuminn er mikilvægt að skammtímaleiga til ferðamanna falli einnig undir skattinn.

Starfshópurinn leggur til að hver einstaklingur megi aðeins leigja út gistiaðstöðu í einni fasteign, í stað tveggja áður, án þess að þurfa rekstrarleyfi gististaða. Eftirlit með heimagistingu verði aukið, til dæmis með þeim hætti að hámarksfjárhæð stjórnvaldssekta verði hækkuð og hafi viðhlítandi fælingarmátt. Einnig verði lagakröfum um skyldu til að nota skráningarnúmer í markaðssetningu fylgt eftir.

Tillaga starfshóps: Álagsstýring í formi aðgangsgjalds

  • Að tekið verði upp aðgangsgjald að ferðamannastöðum til að takmarka aðgang að einstökum opinberum stöðum þar sem fjöldi ferðamanna er farinn að reyna á þolmörk. Það stuðli að ávinningi fyrir ferðaþjónustu til lengri tíma. Gera verði greinarmun á almennu aðgangsgjaldi að ferðamannastað og innheimtu gjalds fyrir aðra veitta þjónustu. Þannig megi áfram rukka gjald fyrir til dæmis bílastæði eða salerni, þar sem þeir borga sem nota, óháð aðgangsgjaldi ferðamannastaðar.

Ríki um allan heim hafa í vaxandi mæli tekið upp aðgangsgjald til álagsstýringar á vinsælum ferðamannastöðum. Slík gjaldtaka hefur tvíþættan tilgang. Að safna fé til uppbyggingar aðstöðu til verndar viðkvæmri náttúru á viðkomandi stöðum og greiða aðgengi ferðamanna í leiðinni. Hún getur einnig verið tæki til að tempra álag á slíka staði ein og sér eða í bland við önnur úrræði eins og aðgangstakmarkanir inn á svæði.

Aðgangsgjald að vinsælum ferðamannastöðum í eigu ríkisins þarf að útfæra með lögum. Slík lög ættu að innhalda tillögu starfshópsins um undanþágu fyrir aðila með skattalega heimilisfesti á Íslandi frá greiðslu gjaldsins. Íslenskir þegnar hafa þegar látið mikla fjármuni af hendi rakna til að byggja upp innviði landsins, sem nýtast öllum þeim ferðamönnum sem landið sækja heim.

Vernd náttúrlegra gæða er málaflokkur þar sem svigrúm ríkja til sjálfsákvörðunaréttar hlýtur að teljast rúmt. Ekki verður heldur séð að gjaldtaka ríkis gagnvart aðgangi erlendra ferðamanna inn á ferðamannastaði í eigu ríkisins geti stangast á við alþjóðaskuldbindingar.

Skynsamlegt gæti verið við útfærslu slíks aðgangsgjalds að samræma í leiðinni þau gjöld sem innheimt eru í dag inná slík svæði, s.s. svæðagjöld og bílastæðagjöld inn á þjóðgarða ríkisins þannig að enginn vafi leiki á hvað sé gjald fyrir tiltekna þjónustu að hvað sé aðgangsgjald til uppbyggingar og verndunar.

Með aðgangsgjaldi er leitast við að dreifa álagi á viðkvæma innviði landsins. Þar á meðal álagi á náttúruperlur yfir umsetnasta tíma ársins, íslenska sumarið.

Niðurlag

Okkur Íslendingum hættir til að lengja í ólinni fremur en að ráðast í nauðsynlegar umbætur. Nú er ekki aðeins þörf heldur nauðsyn á uppstokkun á opinberu gjaldumhverfi ferðaþjónustu á Íslandi. Þær tillögur sem hér hafa verið raktar eru til þess fallnar að auka jafnræði á markaði, auk þess að byggja á efnahags- og samfélagslegum sjónarmiðum. Þannig munu þær ýta undir heilbrigðari uppbyggingu heilsárs gistiþjónustu og annarrar ferðaþjónustu, ekki síst á landsbyggðinni, með tilheyrandi störfum sem og tekjum ríkis og sveitarfélag.

Nú liggur fyrir Alþingi frumvarp fjármála- og efnahagsráðherra um gríðarlega og fyrirvaralausa hækkun gistináttaskatts, sem gengur þvert á þessa stefnu, þ.e. það mun stuðla að auknu ójafnræði milli aðila á markaði og gera ekkert til að mæta auknu álagi á viðkvæma ferðamannastaði.

Höfundur er stofnfélagi í SAF og formaður FHG - Fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu.