Verkalýðsamtökin VR og Landssamband íslenzkra verslunarmanna kynntu í gær kröfugerð sína fyrir komandi kjarasamninga. Kröfugerðin minnir um margt um kosningaplögg þeirra fjölmörgu popúlísku og vinstri sinnuðu stjórnmálaafla sem boðið hafa fram í þingkosningum hér á landi undanfarinn áratug. Kröfurnar snúa fyrst og fremst að ríkinu og þær breytingar sem óskað er eftir hafa ekkert með þá sem standa í atvinnurekstri að gera. Kröfugerðin er að því er virðist að mörgu leyti sett fram á þeirri forsendu að þessi verkalýðsfélög séu að setjast til viðræðna við Framsóknarflokk, Sjálfstæðisflokk og Vinstri græna um aðkomu þeirra að stjórnarsamstarfinu.

VR og LÍV krefjast þannig afnáms verðtryggingar, þaks á leiguverð, hækkunar barnabóta, að starfsmenn fyrirtækja fái sinn fulltrúa í stjórn þeirra svo fátt eitt sé nefnt. Krafa um að tryggja landsmönnum öllum rétt til „dúntekju, réttmætanleg gögn öll og gæði og góð bílastæði – betri tóngæði, meira næði og frítt fæði“ svo vísað sé til ljóðs Megasar um sjálfstæðisbaráttu Íslendinga, hefðu sómt sér vel í þeirri kröfugerð sem birt var í gær. Reyndar vantar aðeins inn ákall um nýja stjórnarskrá og frjálsar handfæraveiðar til að kröfugerðin fangi fullkomlega alla þá popúlísku strauma sem hafa leikið um íslenskt þjóðfélag undanfarin tíu ár.

Áþreifanlegasta krafan gagnvart þeim sem eiga sæti að samningaborðinu snýr að styttingu vinnuvikunnar í fjóra daga án skerðingar launa. Lauslegt krot á nærliggjandi munnþurrku sýnir að það eitt og sér felur í sér um fimmtungshækkun launa. Hvað svo sem má segja um styttingu vinnuvikunnar þá má öllum vera ljóst að atvinnulífið getur ekki staðið undir slíkum hækkunum án þess að verðbólga fari enn frekar úr böndunum með tilheyrandi harmkvælum og lífskjararýrnun fyrir landsmenn alla. Þá er þess krafist, svo einhver dæmi séu tekin, að veikindaréttur vegna barna nái til átján ára aldurs. Hætt er við miklum afföllum á vinnumarkaði dagana eftir menntaskólaböll ef sú krafa nær fram að ganga.

Þetta pólitíska plagg sem kröfugerð VR og LÍV sannarlega er afhjúpar þann umboðsvanda sem skapast hefur með þeirri stjórnmálavæðingu sem hefur einkennt verkalýðshreyfinguna á liðnum árum. Þannig er fjöldi félagsmanna í VR tæplega fjörtíuþúsund. Aðeins lítill hluti félagsmanna tekur þátt í stjórnarkjöri í þessari hreyfingu. Þannig hlaut Ragnar Þór Ingólfsson aðeins um sex þúsund atkvæði þegar hann var endurkjörinn til formennsku í fyrra.

En það þýðir ekki að félagsmenn VR eru ekki virkir þátttakendur í íslenska lýðræðissamfélaginu. Yfirgnæfandi meirihluti þeirra tekur þátt í alþingiskosningum. Sú þátttaka hefur ítrekað sett önnur mál á dagskrá en þau er endurspeglast í kröfugerð VR og LÍV. Það er mikilvægt að hafa þetta í huga í aðdraganda komandi kjarasamninga.

Það eru viðsjárverðir tímar í íslensku efnahagslífi eins og Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri hefur bent á. Uppgangurinn hefur verið mikill á undanförnum árum þrátt fyrir ytri áföll á borð við heimsfaraldurinn og þeim tekjubresti sem honum fylgdi. Allir landsmenn hafa notið góðs af þessu og því skiptir sköpum að meginmarkmið komandi kjarasamninga verði að verja þá lífskjarasókn sem átt sér hefur stað á undanförnum árum.

Óraunhæfar kröfur á hendur stjórnvalda um svokallaðar kerfisbreytingar sem formanni VR er svo tíðrætt um benda ekki til að samtökin nálgist komandi kjaraviðræður á þeirri forsendu. Að sama skapi benda þversagnir í kröfugerðinni til þess sama. Í því samhengi má draga fram eftirfarandi:

„Meginmarkmið kjarasamninganna þegar kemur að launaliðnum er að verja þann árangur sem náðist í síðustu kjarasamningum fyrir þau sem eru með lægstu launin en jafnframt tryggja að allt launafólk fái notið jafnræðis þegar kemur að launahækkunum.“

Með öðrum orðum: Það á að hækka lægstu launin mest en þó með þeim hætti að allir launþegar fái jafna hækkun.

Vissulega er staðreynd málsins sú að kröfugerðir í aðdraganda kjarasamninga ber að taka mátulega alvarlega. Eigi að síður er það áhyggjuefni hversu kröfugerð VR og LÍV er pólitísk og hefur í raun og veru lítið með viðsemjendur verkalýðsfélaganna að gera. Það bendir til þess að þeir sem leiða þessi samtök eru í allt annarri baráttu en þeirri sem tengist hagsmunum launafólks.